miðvikudagur, 31. desember 2008

Æ, það var kennt mér...

þegar ég var krakki að maður ætti að vera góður við hunda og aumingja.
Ég er þess vegna hættur að vera brekkusnigill.

Þetta ár sem er að líða hefur verið mér ólýsanlega gott, en líka stundum svo sárt.

Þeim sem hingað villast óska ég alls góðs, eigi þeir það skilið.

Matarrýni

Ég held að það sé við hæfi að ég setji hér færslu á bloggi mínu um veitingahúsarýni.
Í nýlegri för minni til miðbæjar Reykjavíkur gafst mér óvænt kostur á að prófa einn af kunnari veitingastöðum borgarinnar. Þetta var auðvitað hinn geypivinsæli staður Bæjarins bestu.
Ekki þarf að orðlengja að ég pantaði tvöfaldan Clinton og varð ekki svikinn af þeim trakteringum þó engin væri Hilaryin. Að vísu verð ég að kvarta yfir þeim undarlega sið sunnanmanna að setja sumt af gumsinu ofaná. Og ekkert var heldur rauðkálið. En umhverfið var stórfenglegt og ekki spillti fyrir þegar ég sá ráðherrabifreið með Geir Haarde innanborðs bruna hjá. Ég veifaði auðvitað en ég sá ekki hvort leiðtoginn mikli veifaði til baka. Heilt yfir alveg stórkostleg matarupplifun sem verður mér ógleymanleg.

Kvörtun!

Hvað á það að þýða hjá bóksölum að klína límmiðum aftan á bækur sem oftar en ekki hylja hinar gagnlegu færslur aftan á bókunum. Þetta er heilt yfir óþolandi. Ég hafði hugsað mér að birta nokkrar umsagnir á bloggi mínu en veit satt að segja ekki hvort það er gjörlegt vegna þessarra skemmdarverka. Maður spyr sig nú hvort verið geti eitthvað samsæri í gangi gegn bloggi mínu?
Ég veit sem er að það er þyrnir í síðu margra af hinum svokölluðu gáfumönnum á vinstri vængnum sem ekki geta þolað að hægrihandarpenni og brekkusnigill nái eyrum þjóðfélagsins með bloggi sínu.

þriðjudagur, 30. desember 2008

Bókadómur yfirvofandi

Þar sem ég hef nú lesið aftan á flestar jólabækurnar í hinum vistlegu bókabúðum borgarinnar, er mér ekkert að vanbúnaði, svona heilt yfir, að birta ritdóma mína, hér á bloggi mínu.
Mun ég því á næstunni setja inn færslur um þetta efni.

Nýtt ár framundan

Ekki er víst að öllum lesendum á bloggi mínu sé ljóst að nú styttist heilt yfir til áramóta.
Þeim fylgir vitaskuld að nýtt ár rennur upp.
Og að gamla árið rennur skeið sitt á enda.
Það verður vissulega spennandi að sjá hvað það nýja ber í skauti sínu.
Ekki verður síður spennandi að heyra hvað boðskap okkar ástsæli forsætisráðherra færir þjóðinni á þessum tímamótum sem framundan eru.

Nema auðvitað

einhverjir þeir atburðir gerist eða gerist ekki, sem kalla á að ég láti fara frá mér nýja færslu á bloggi mínu.

Heilt yfir.

Án þess ég vilji nú vera sjálfhælinn

verð ég að segja, svona heilt yfir að ég minnti mig á Errol Flynn í gerfi Zorró þegar ég mundaði uppþvottabustann áðan. Mátti margur skítakleprinn bíta gras, með kveðju frá brekkusniglinum. Hinsvegar er rétt að greina frá að ég hef nú ákveðið að á bloggi mínu muni framvegis birtast færri færslur, einkum til að gefa lesendum mínum kost á að fullmelta það sem af mér hefur gengið í fyrri færslum.

Maður verður að gera það sem maður verður að gera

Þá er að bíta í skjaldarrendur, brölta á fætur og vaska upp!
Það væri afleitt að láta uppvaskið hlaðast upp of lengi.
Myndi enda með diskleysi, heilt yfir.
Mun blogga um árangurinn við hentugleika.

Að næra andann

Þægilega mettur af grænmetissúpunni góðu ákvað ég að næra andann og auka þekkinguna.
Það gerði ég með því að setjast í hægindastól og láta sjónvarp allra landsmanna færa mér fréttir og fróðleik. Heilt yfir voru fréttir kvöldsins með betra móti, þó hefði eg kosið að fá nánari fregnir af Indlandsferð Bryndísar Oddsdóttur.
Auk þess legg ég til að veðurfréttamenn verði settir á árangurstengd laun.
Þeir fái greitt fyrir góðar spár sem standast en annað ekki!

Gott er að borða gulrótina

Að lokinni vel heppnaðri útiveru, gerði ég mér lítið fyrir og eldaði gómsæta grænmetissúpu.
Það var svo sannarlega ánægjuleg tilbreyting, eftir kjötveislur liðinna hátíðisdaga.
Heilt yfir kann að vera ástæða til að endurskoða matarvenjur um hátíðirnar.
Eða ekki.

Vor í lofti og vindur hlýr

Tók mér pásu áðan og fór út að ganga/skokka í Laugardalnum.
Búinn að vera hauglatur heillengi. Það er fáránlega hlýtt og milt veður.
Við sáum ekki betur en allskyns runnar væru að láta blekkjast af blíðunni.

Þegar ég virði fyrir mér þennan ófrumlega titil og innihaldslausa færsluna,
óttast ég, svona heilt yfir, að ég sé að breytast í stebbafr...

mánudagur, 29. desember 2008

Millihátíðapólitík

Mér finnst með ólíkindum þegar viti borið fólk sér það sem einhverja allsherjarlausn á öllum vanda að hoppa inn í evrópusambandið, ekki seinna en í dag.
Ég er alveg til í að kanna málið, sjá um hvað semst og taka svo afstöðu til þess.
En að segja bara sisvona "Göngum stax í sambandið og allt lagast..."?
Trúir þetta fólk kannski ennþá á jólasveininn?

fimmtudagur, 25. desember 2008

Síðbúin jólakveðja



Búinn að þrífa, elda, borða.
Knúsa þá sem mér þykir vænst um.
Hlæja, tárast, gleðja og gleðjast.

Vona að þið hafið það gott.

Eða ekki, bara eins og þið viljið...

mánudagur, 22. desember 2008

Smíðaði snjókarl í gær


Hann er bráðnaður, en ég er samt glaðari en ég get sagt.

miðvikudagur, 17. desember 2008

Ber er hver að baki nema sér baun eigi.

Stundum er lífið snúið.
Raunveruleikinn læðist að manni og bítur í rassinn.
Það er auðvelt að sogast bara með, það sekkur, það brennur, það ferst...
En ég er alveg ótrúlega heppinn.
Mitt í öllu þessu kreppufári, hrunadansi, harmamyrkri og skammdegi á ég ljós.
Takk ástin mín.

laugardagur, 13. desember 2008

Að æpa með þögninni.

Fórum í bæinn í dag.
Tókum þátt í þöglum mótmælum.
Mér fannst þetta alveg virka.
Sumir gátu samt ekki haldið aftur af sér.
Leiðinlegastir voru nokkrir drukknir og dópaðir vesalingar.
Með svipaðan félagsþroska og smábörnin.
Við borgum ekki! gargaði einn þeirra.
Velti fyrir mér hvða það þýðir hjá svona manni...
Krafa um ókeypis bjór?

mánudagur, 8. desember 2008

Ástin mín er ólíkindatól!

Eins og sést hér.



Ég elska hana út af lífinu og hvíli töskuna mína...

sunnudagur, 7. desember 2008

Fann þetta á moggabloggi.

Einhver AK-72 tók saman.

  • Endurskoðendur sem sáu um að fara yfir ársreikninga og annað hjá bönkunum, eru nú að rannsaka það sem þeir klúðurðu í upphafi. Engin ábyrgð af þeirra hálfu og liggja undir grun um óeðlileg vinnubrögð en samt fengnir í það, að rannsaka viðskiptavini sína sem þeir samþykktu. Hafa ekki verið rannsakaðir enn.
  • Bankamenn sem bera ábyrgð á IceSave, peningamarkaðsjóðum, vafasömum viðskiptaháttum og blekkingum ýmiskonar, sitja enn. Engin rannsókn hefur farið fram á gjörðum þeirra, heldur hafa þeir haft tvo mánuði til gagnaeyðingar.
  • Stjórnendur FME sem áttu að fylgjast með og skoða hvort eitthvað óeðlilegt hafi veirð í gangi, sitja enn þrátt fyrir að hafa brugðist öllum skyldum sínum. Hafa ekki þurft að sýna ábyrgð, heldur fengið aukin völd.
  • Starfsmenn Kaupþings sem stofnuðu ehf. til að færa skuldir vegna hlutabréfakaupa inn í og skella í gjaldþrot með aðstoð bankans, sitja enn. Ekkert gert til að taka á þessu.
  • Stjórn Kaupþings ákvað að fella nður skuldir "ómissandi" starfsmanna, en segjast ekki ætla að gera það eftir fjölmiðlaumfjöllun. Enginn þarf að víkja né sýnt fram á að slíkt verði hvorteð er ekki gert. Orð frá bankamönnum er hreinlega ekki traustsins verð í dag.
  • Formaður VR sem satí stjórn Kaupþings og vann gegn hagsmunum umbjóðenda sinna, situr enn sem fastast í stéttarfélaginu og Lífeyrssjóðnum sem notaður var til að fjárfesta fyrir auðmennina. Enga ábyrgð hefur hann sýnt heldur stendur í því að múta trúnaðarmönnum með jólahlaðborðum.
  • Nýi bankastjóri Glitnis reynist hafa óhreint mjöl í pokanum með verðbréfaviðskipti. Þarf enga ábyrgð að sína, heldur situr sem fastast.
  • Nýja bankastýra Glitnis hefur meiri áhyggjur af því að það fréttist um vafasöm viðskipti bankans heldur en að vinna að heiðarleika og trausti með því að leggja öll spil á borðið, og hefur hafið mannaveiðar innan bankans í leið að "litla Glitnis-manninum". Sá á að sýna ábyrgð, ólíkt stjórnendum bankans.
  • Banakstýra Landsbankans, reynist hafa verið hægri hönd fyrrum bankastjóra og mjög líklega með fulla vitneskju um stöðu bankans og IceSave ásamt því að vera með puttana í vafasömum viðskiptum. Ekki hefur verið neitt rannsakað með þátt hennar og hún situr sem fastast ásamt öðrum stjórnendum.
  • Einn af ábyrgðarmönnunum á bak við IceSave er gerður að yfirmannni innra eftirlits landsbankans og liggur undir grun um að vera að fegra sinn hlut í því þannig. Enga ábyrgð þarf hann að sýna ne´hefur hlutur hans verið rannsakaður.
  • Fyrrum yfirmaður verðbréfasviðs sem er grunaður um að hafa nýtt sér upplýsingar sem hann hafði aðgang að sem ráðgjafi ríkistjórnar í húsnæðismálum, til innherjaviðskipta, situr sem fastast í Landsbankanum og er yfirhagfræðingur.
  • Greiningardeildirnar sem sáu um að ljúga að fólki, eru enn með sömu yfirmenn og skipulögðu þessa fölsku auglýsingastarfsemi bankanna. Enn halda fjölmiðlar áfram að sýna ábyrgðarleysi og spyrja þá einskis, heldur taka orð þeirra sem sannleika.
  • Þingmaður sem sat í stjórn Glitnis Sjóða, situr enn, þrátt fyrir að það hafi verið ýmislegt vafasamt þar. Grunur um að 11 milljörðum hafi verið dælt í Sjóð 9 til að bjarga honum, hefur ekki enn veirð afsannaður.
  • Ráðuneytstjóri sem grunaður er um að hafa nýtt sér upplýsingar, til að losa sig við hlutabréf í Landsbankanum, situr sem fastast og hefur yfirlýst traust ráðherra. Engin rannsókn hefur farið fram á athæfi hans, heldur er slegið skjaldborg í kringum hann.
  • Auðmenn sem hafa skuldsett bankanna og fyritækin svo svaklaega að landið er á leið í þjóðargjaldþrot, fá að kaupa upp bestu bitana úr þrotabúum eigin fyrirtækja og hafa stofnað sjóði til uppkaupa(Fönxi-sjóður Straums er gott dæmi). Engin ábyrgð fellur til þeirra handa né reynt að hindra þennan hrægammahátt ne´eigur frystar eða handtökur farið fram.
  • Seðlabankastjóri gasprar og lætur allskonar rugl út úr sér í viðtölum sem valda titringi á alþjóðavísu og er hugsanelg orsök að þriðji bankinn fór í þrot. Enga ábyrgð hefur viðkomandi þurft að sýna heldur fær að sitja sem fastast ásamt vanhæfri stjórn Seðlabankans, sem hefur tekið stórskaðlegar ákvarðanir á borð við hringl með stýrivaxtahækkanir, lækkaða bindiskylda til handa bönkunum og fleira sem hefur átt sinn þátt í að skapa aðstæður fyrir þetta þjóðargjaldþrot.
  • Hafist er handa á fullu við það að selja Kaupþing í Luxemborg, þrátt fyrir að rauður þráður vafasamra viðskipta auðmanna og bankamanna, peningaþvætti og ýmislegt fleira vafasamt, ligig þar í gegn. Reynr er að koma þessu í hendur fyrrum stjornarformanns Kaupþigns, svo hann geti klárað gagna-eyðingu og hulið slóðina.
  • Glitnir afskrifar skuldir fyrirtkækisins Stím, sem bankinn notaði til að fjárfesta í sér og í FL group til að búa til viðskipti, Ábyrgðarlaust lan og vafasamir viðskiptahættir hafa ekki enn fengið nokkurn mann til að víkja.
  • Fyrrum Samvinnutryggingar, og núverandi Gift, hefur skyndilega farið frá 30 milljörðum í plús í svipað í mínus vegna þess að peningurinn var nýttur til að sýna viðskipti með félög sem stjórnarmenn tengdust eða höfðu tengsl við e.t.v. Enginn þarf að sæta ábyrgð, heldur er bara yppt öxlum af þeim sem misnotuðu féð.
  • Ráðherrar sem virtust hafa haft pata af og vitað um hvert stefndi, sitja sem fastast og vilja ekki víkja. Ábyrgð þeirra felst nefnilega í því að fá launaseðilinn en ekki að víkja til að leyfa hæfari mönnum og ótengdum mistökunum að taka við.
  • Þingmenn sem áttu að veita ráðherrum aðhald, sinna eftirliti og setja lög til varnar því að svona færi, brugðust algjörelega og létu flokksskírteinið og ráðherraræðið vísa sér leið. Enginn þeirra hefur sýnt manndóm og sagt af sér.

Nákvæmlega!

laugardagur, 6. desember 2008

Án titils, því ég er orðlaus yfir okkur fíflunum!

Fór á Austurvöll í dag.
Eins og undanfarna laugardaga.
Varð dapur.
Að meðaltali slakar ræður (arfaslakur vitleysingur og þokkaleg skáldkona).
Skítt með það. Hitt er öllu verra að mæting er versnandi.
Fólk nennir þessu ekki.
Stjórnvöld ætla að komast upp með að þumbast við.
Baráttuandinn endist sem sagt tæpa þrjá mánuði.
Og svo er eins og ekkert hafi gerst.
Drullusokkarnir sem stálu landinu díla og plotta eins og aldrei fyrr.
Stjórnmálatrúðarnir sem áttu að gæta hagsmuna okkar en sváfu á verðinum,
þeir sitja sko sem fastast.
Enginn ber ábyrgð, ekkert er neinum að kenna.
Óbreytt kerfi, engar nýjar lausnir.
Svo verða bara VISAjól og þetta reddast einhvern veginn í febrúar.
Tökum bara þjóðargjaldþrotið á raðgreiðslum.
Svo geta krakkarnir framlengt lánunum.
Dansaðu fíflið þitt dansaðu!
Kusas ci Hjalmari. Vivis en malrici! Mortis en stultigi!

fimmtudagur, 4. desember 2008

Það var sagt mér...

einhvern tíma, að fólk fái þau stjórnvöld sem það verðskuldar.
Ef að það er rétt erum við nú ljóta pakkið.

miðvikudagur, 3. desember 2008

Echelon

Lúkk itt öpp!
Til dæmis hér.

fimmtudagur, 27. nóvember 2008

Ég er enn að melta borgarafundinn...

Fjallið með jóðsótt og fæðir senn mús.

þriðjudagur, 25. nóvember 2008

Fór á borgarafund...

hann var um margt flottur!
Meira seinna.

laugardagur, 22. nóvember 2008

Af mótmælum, góðuköllum og vonduköllum...

Stundum vildi ég hafa svona hnífskarpa analítíska hugsun.

Vildi  geta greint og formúlerað og sett hlutina svo skýrt fram að allir kveiki á perunni.  
En það þýðir ekki að fást um það.
Hafa skal það sem hendi er næst, svo hér kemur minn túkall, í graut og biðu.

Mér finnast mótmælafundirnir á Austurvelli frábært framtak.
Ég óttast að þeir muni litlu skila, en hef samt mætt alla laugardagana og ætla að halda því áfram. 

Mér finnst Hörður Torfa og aðrir aðstandaendur fundanna eiga mikinn heiður skilinn.
Mér finnst Hörður afleitur fundarstjóri og ég mundi vilja ræða alvarlega við þau sem velja ræðumennina.

Mér finnast sum skiltin sem fólk er með rosalega góð og flott.
Mér finnst pirrandi að  sjá ekki á sviðið fyrir skiltunum. 

Ég er ánægður með að fólk hafi skoðanir og sýni þær.
Mér leiðist fulli gaurinn sem öskrar fyrir aftan mig.
 
Einu sinni bar ég virðingu fyrir Ingibjörgu Sólrúnu og fannst hún öðruvísi pólitíkus..
Það finnst mér ekki lengur.

Mér finnst grátlegt að horfa uppá hvernig liðið sem átti að gæta hagsmuna okkar, hugsar bara um sína eigin hagsmuni. Hangástólnum syndrómið grasserar. 
Svo horfi ég á stjórnarandstöðuna og fyllist nú ekki beint von og trú.

Ég dáist að fólki sem hefur skoðanir og er tilbúið að berjast fyrir þeim.
Mér finnst lítilmannlegt að setja upp grímu og berjast með hana fyrir andlitinu.

Stundum efast ég um að það sé þess virði að standa í þessu.

Þá lít ég á baunina mína og fæ aftur trú á lífið.

miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Um skipulagða glæpastarfsemi - Íslenska banka.

Sko leiðréttið mig endilega ef ég fer með rangt mál.

Fyrir nokkru fóru stóru bankarnir úti í heimi að hafa áhyggjur af hröðum vexti bankanna hér. Einhverjar viðvörunarbjöllur hringdu og einhverstaðar var ákveðið að skrúfa fyrir.
Lánum ykkur ekki yen í viðbót strákar fyrr en þið hafið tekið ykkur saman í andlitinu.
Seðlabankinn krúnk líka og orðinn allt of lítill til að geta fóðrað gauksungann gráðuga.
Þá datt mönnum snjallræði í hug. Í krafti þess að Ísland var þokkalega vel kynnt á alþjóðavettvangi, var sett upp svikamylla. Hún gekk í stuttu máli út á að plata evrópubúa til að leggja peningana sína inn á reikninga hjá Edge, Icesave og hvað þetta hét nú allt. Fólki lofað þvílíku ávöxtuninni! Svona eins og í Nígeríubréfi næstum. Grunsamlega góður díll. En þetta var Ísland, "siðmenntuð" evrópuþjóð.
Svo fólk beit á agnið, unnvörpum.  John og Gertrud, England, Holland, Belgía, barnaspítalar, kvennakórar og lögreglustjórar. Og fleiri og fleiri og fleiri...
Já þetta var kannski of gott til að geta verið satt. En þetta var Ísland. Skandinavía, þjóð sem var "ein af okkur". 
Svo hrundi draslið.
Bólan sprakk.
Það sem þeir sem skrúfuðu fyrir lánin spáðu rættist.
Og hvernig stöndum við núna?
Mannorð okkar sem þjóðar er á pari við Nígeríu.
Við erum að steypa komandi kynslóðum í skuldir.
Ekki til að gera upp við þá sem treystu bönkunum okkar fyrir peningunum sínum.
Ó nei. Það er langur vegur frá því.
Stjórnvöld hér hafa rembst við að komast hjá því að borga svo mikið sem lágmarkstryggingar.
Ekki allar innistæðurnar, því fer fjarri. Lágmarkstryggingu. En urðu á endanum að lúffa.
Það sem uppá vantar er væntanlega tapað fé fyrir þá  sem treystu okkur.
Skúnkarnir sem áttu bankana þvaðra um að eignir þeirra dugi fyrir skuldunum, en þegar maður les smáa letrið eru þeir ekki að tala um allar inneignirnar, heldur þessar lágmarkstryggingar. 
Það getur vel verið að í upphafi hafi einhverjir þeirra ætlað að borga fólki til baka. En þeim mátti vera löngu ljóst að dæmið gengi aldrei upp. Samt héldu þeir áfram.
Á löggumáli heitir það einbeittur brotavilji.
Einu sinni var ég stoltur af að vera íslendingur.
Ekki lengur.


þriðjudagur, 18. nóvember 2008

Greiningardeildir-Minn rass!

Eitt af því sem fer mest í taugarnar á mér um þessar mundir eru hinar svokölluðu greiningadeildir bankanna.
Meðan gróðæðið stóð yfir voru þetta áróðursmaskínur bankanna, en fengu á sig kirkjulegt yfirbragð. Það voru sko fleiri en páfinn og Móðu-Harði óskeikulir!
Á einhvern undarlegan hátt fékk þetta fólk ótrúlega beinan og gagnrýnislausan aðgang í kastljós fjölmiðla til að boða guðspjöllin. Orðfærið fékk meira að segja á sig trúarlegan blæ.
Óþægilegar staðreyndir eins og að blindum og heyrnarlausum simpönsum gekk síst verr en greiningadeildarfólkinu að ávaxta pund sitt var sópað undir teppið. Þetta lið var svo fínt klætt og með svo góð laun að það hlaut að vera marktækt.
Ef einhver asnaðist til að setja fram efasemdir eða gagnrýni var talað niður til viðkomandi með blöndu af vorkunnsemi og yfirlæti þess sem veit betur. Og ráðleggingarnar! Man einhver eftir Decode? Peningamarkaðsreikningum? Kauptækifærum í Stoðum? Það sem fer upp fer svo bara hærra upp... Og ef eitthvað fór nú samt niður stóð ekki á skýringunum. Niður var í rauninni upp, bara á annan hátt. Og meðvirkir blaðamenn dönsuðu með og tóku þátt í gríninu.
Svo sprakk blaðran.
Þá kom í ljós að allt kerfið var grundvallað á tvennu.
Taumlausri græðgi og múgsefjun. Það er hægt að nota skrautyrði á borð við hjarðhegðun og hagnaðarvon. En þegar upp er staðið voru það græðgin og múgsefjunin sem hið hátimbraða kenningakerfi greiningadeildanna byggði á.
Í dag segja svo þessar sömu greiningadeildir enginn gat vitað... Við sögðum allt í góðri trú... Við lugum ekki vísvitandi...
Kjaftæði!
Það er árum saman búið að vara við yfirvofandi hruni.
Greiningadeildirnar voru óspart notaðar til að þagga þær viðvaranir niður.

Fram á seinasta dag var blaðrað um kauptækifæri.
Þjóðahagur minn rass! Hagur bankans minn rass! Bónusinn minn um áramótin - Nú erum við að tala saman!

Það er svo í takt við annað á "Nýja Íslandi" að greiningadeildirnar eru komnar á stúfana aftur.
Greiningardeildartöffarinn í flottu jakkafötunum segir viltu dansa?
Feimna blaðamannastelpan roðnar og stynur á innsoginu ertaðtalavimig?
Alveg búin að gleyma hvað hann gerði við hana hjá öskutunnunum bak við félagsheimilið seinast.
Svo byrjar ballið aftur.

Getur virkilega enginn sagt þessu liði að halda kjafti og skammast sín?

miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Stórmannleg samfylking!

Lausnin er fundin!
Bravó Ingibjörg Sólrún!
Bara búið að leysa kreppuna.
Skera niður þróunaraðstoð og málið er dautt.
Kannski ráð að reka nokkrar ræstingakonur líka.

þriðjudagur, 4. nóvember 2008

Um mótmæli.

Óvinur óvinar míns er ekki endilega vinur minn.

Fólk getur komist að réttum niðurstöðum þó það sé gert á röngum forsendum.
Ég hef óskaplega litla samúð með trukkastjórum sem sitja uppi með offjárfestingar úr góðærinu, meðan framkvæmdaæðið stóð sem hæst og hverra krafa er helst að lækka bensínið.
Ég á líka afar litla samleið með anarkistunum sem vilja enga stjórn (þó ég telji mig alveg skilja hvaðan þau koma) og mér finnast dúkkuhengingar ákaflega ósmekklegar. 
Hyskið úr frjálslynda flokknum  með lævíslegan rasismann sinn fer óskaplega í taugarnar á mér. Samt hef ég mætt á Austurvöll og mótmælt með þessu fólki undanfarna laugardaga.  
Vegna þess að þó ég sé ósammála þessu fólki um flest, er ég sammála þeim um eitt.
Stjórnvöld hér hafa gjörsamlega drullað upp á bak undanfarin ár.
Þau bera ábyrgð og eiga að axla hana. Græðgisbrjálæðingarnir í bönkunum virðast vera að tapa auðæfunum, spilaborgirnar hrynja ein af annarri. Það er bara réttlátt finnst mér. Ég gleðst svo sem ekkert sérstaklega vegna þess, en ég græt það alveg þurrum tárum. Nýjustu fréttir benda til þess að það sé í örvæntingu verið að gera einhverja drulludíla, fella niður skuldir og bjarga þeim úr snörunni sem þeir hengdu sig í, en það virðist vera hreyfing í þá átt að stoppa það.  En græðgisbrjálæðingarnir fóru eins langt og kerfið leyfði þeim. Stjórnvöldin sem áttu að setja reglur, sinna eftirliti og verja almannahagsmuni, brugðust fullkomlega.  Þessi sömu stjórnvöld sem nú segjast ætla að bjarga málunum. 
Þess vegna læt ég mig hafa það að mæta á Austurvöll laugardag eftir laugardag, þramma niður Laugarveginn í trukkapústskýi og krefjast þess með alls konar fólki að þessi stjórnvöld axli ábyrgð.

miðvikudagur, 29. október 2008

Sjósund



Fór í sjósund eftir vinnu í dag.
Það var kalt. Skítkalt.
Sjórinn var 3,3 gráður.
Veðrið var fallegt og þetta var gaman.
Svona vont/gott. Fínn hópur og stemming alveg.
Gaman í pottinum líka.
Ætla ég aftur? Já örugglega einhvern daginn.
Helst í frosti...

Lýríski spammarinn - Part II

And, too, 
i should shave off 
the 'full, reddishbrown affair 
has long ago been proved. 
Yvonne was the still more 
because the colchians, egyptians, 
and beginning to blow, 
the backs of the leaves were so 
but i do not think 
she would have said so,.

Mér þætti nú gaman ef einhver gæti útskýrt þetta bókmenntaverk sem mér barst í tölvupósti í nótt.

mánudagur, 27. október 2008

Stundum held ég að ég hugsi of mikið.

Spurning um að reyna að hugsa bara aðra hverja hugsun.

Held það gæti alveg virkað fyrir mig.
Ég meina það er gott að hugsa, en samt.
Too much of a good thing og allt það...

laugardagur, 25. október 2008

Óvinafögnuður


The Judean people's liberation front var með fund á Austurvelli klukkan 15.

Kl. 16 gekk svo The people's liberation front of Judea með blys að ráðherrabústaðnum.
Á leiðinni slóst The liberation front of the Judean People í hópinn.
Á mótmælafundinum var fyrsta númerið væmin vella um bjartsýni og trú.
Svo tók Arnþrúður Karlsdóttir við.
Arnþrúður fokking Karlsdóttir!
Er verið að hafa mann að fífli hérna?
Hver skipuleggur þetta?
Greiningadeildin?

föstudagur, 24. október 2008

miðvikudagur, 22. október 2008

Mér er eiginlega nóg boðið

Ég flutti heim til Íslands í vor.

Aðstæður mínar breyttust og ég flutti heim.
Ég held ég þurfi ekkert að tíunda hvað gerst hefur síðan í efnahagsmálum þjóðarinnar.
Þetta reyndist álíka og að kaupa miða með Titanic.
Afleiðingarnar fyrir mig eru eftirfarandi:
Launin mín sem voru í vor sambærileg við það sem ég hafði úti hafa rýrnað um sirka tvo þriðju.
Meðlagið með börnunum mínum sem enn búa úti hefur líklega þrefaldast, það er erfitt að segja því gengið á krónunni virðist vera fallið niður úr gólfinu.  Danske Bank segir 37 ÍKR á móti einni danskri. Eins og staðan er núna duga mánaðarlaunin mín eins og þau leggja sig ekki fyrir því sem ég þarf að borga í meðlög og annað út. Jafnvel þó ég lifi á loftinu.
Á sama tíma blasir við að getulausir og kreddufastir pólitíkusar, sem slepptu algjörlega beislinu af siðblindum græðgisbrjálæðingum og hundsuðu allar aðvaranir eru núna að semja um skuldaklafa fyrir okkur. Sömu helvítis fíflin og leyfðu þessu ástandi að skapast þykjast núna ætla að semja okkur út úr því. Og hinir siðblindu græðgispatar stinga af, með þýfið og ekkert er neinum að kenna.
Einmitt.
Ég og hinir meðaljónarnir eigum bara að bíta á jaxlinn og róa.
Verstur andskotinn að við komumst ekki í öryggisráðið.
Þá hefðum við að minnsta kosti losnað við að hafa hluta af þessu hyski fyrir augunum daglega.
Það er ein og aðeins ein ástæða fyrir því að ég er ekki farinn! 


P.s. Það má ekki láta helvítis aulana axla ábyrgð. Þá er verið að persónugera hlutina.
Einmitt. Enginn ber ábyrgð. Þá er verið að persónugera. Fábjánarnir sem voru við stjórnvölinn gáfu vinum sínum bankana og afnámu regluverkið sem átti að hemja þá. Stungu svo hausnum í sandinn þegar þeim var bent á hvert stefndi. Má ekki láta þá axla ábyrgð á gerðum sínum og aðgerðarleysi. Má ekki persónugera. Hei segi þetta bara við fógetann! Hva? Á að fara að persónugera þetta nauðungaruppboð? Má ekki persónugera...

föstudagur, 17. október 2008

Stjórnaði spurningakeppni í kvöld...


það var ljómandi skemmtilegt.



miðvikudagur, 15. október 2008

Kreppan laðar fram það versta í fólki...

eins og sannast á ritræpunni sem hrjáir mig í dag.  

Ég sá í blöðunum í morgun að Greiningardeild Glitnis var vöknuð og komin með skoðun og skýringar á ástandi mála. 
Ætti þessi blessuð greiningardeild nú ekki að sjá sóma sinn í að þegja?
Spáiði bara í hvert við erum búin að láta teyma okkur af þessu fólki. Það voru svoleiðis bullandi kauptækifærin út um allt. Og hvergi átti blessuð útrásin ötulli talsmenn en einmitt í gerfivísindamönnum greiningardeildanna. Svo þegar atburðirnir hafa sýnt svo ekki verður um villst, að þetta lið hefði eins geta verið aðrýna í telauf eða fuglsiður, dúkkar þá ekki upp draugur og ætlar að fara að útskýra ástandið og segja okkur hvernig þetta verði næstu misserin. Ég ætla rétt að vona að þetta lið sé bara að vinna út uppsagnarfrestinn og að það hafi verið eitt stakt óhappatilvik að þessi Ingólfur þarna komst í fjölmiðla. Það eina sem ég vildi sjá þessa deild gera væri að ganga niður Laugarveginn í strigakuflum,maka á sig ösku og lemja sig í ennið með plankabútum meðan það kyrjaði um hvað þau skömmuðust sín.

Ekkert plús ekkert samasem glás og gomma









Mér finnst fróðlegt að fylgjast með umræðunni þessa dagana.
Það er eins og útrásar- og eyðsluvíman hafi loksins runnið af þjóðinni.
Og nú er komið að timburmönnunum. 
Einhverra hluta vegna minnir þetta mig á sjálfan mig.
Ég man þegar ég kom fyrst heim unglingsgepill lyktandi af áfengi.
Skársta skýringin sem mér hugkvæmdist var að "stóru strákarnir" hefðu haldið mér og hellt í mig brennivíni.  Þetta féll nú í heldur grýttan jarðveg ef ég man rétt, en einmitt þannig finnst mér það hljóma þegar fólkið sem:
* tók myntkörfulán til að vera á flottari bílum en það átti fyrir með góðu móti,
* tók 110% húsnæðislán í yenum til að kaupa stærra og flottara hús en það hafði efni á,
* fékk sér feitan yfirdrátt á 25% vöxtum til að fylla húsið af innlitútlitstöffi,  
* skrapp svo til London til að sjá fótbolta og versla á Visakortinu,
* áhættufjárfesti í hlutabréfum fyrir lánsfé
kennir núna einhverjum fáeinum útrásarvíkingum um allar heimsins ófarir. 
"Þeir tóku okkur og helltu í okkur!" 
Je, ræt...
Einhverjir leiðindapúkar sem tuðuðu um að þetta gengi ekki, maður gæti ekki endalaust eytt um efni fram voru pent hundsaðir og jafnvel vorkennt létt fyrir að vera svona vitlausir og leiðinlegir.
Allar venjulegar reglur giltu nefnilega ekki á Íslandi. 
Hér detta hlutirnir upp en ekki niður.
Og hin nýja hagfræði gekk í stuttu máli út á að ekkert plús ekkert yrði fullt. Innflutningur og útflutningur voru bara úrelt 20. aldar konsept. Út úr moldarkofunum! var dagskipunin. Seljum hvert öðru norðurljósin fram og aftur þangað til við erum öll orðin grilljónerar.
Allir stukku með á vagninn meira að segja forsetinn.  
Nú er rétt að það komi fram, að mér ferst ekki að hafa hátt, ekki er persónulegur efnahagur minn svo beysinn. En það er vegna minna eigin röngu ákvarðana, frekar en nokkurs annars. Og auðvitað veit ég að þetta var nú ekki alveg svona einfalt.
En samt...
Þeir héldu okkur og helltu í okkur sko...
Þetta er ekki okkur sjálfum að kenna.
Og nú vill ritstjóri Frjálsrar Verslunar að við eyðum okkur út úr vandræðunum bara.
Einmitt! Setjum viðskiptahallann á Visa-rað...

Íslandsvinurinn Kris Kristoffersson benti á að þá fyrst væri maður frjáls þegar maður ætti ekkert eftir til að tapa. Kannski eru bara íslendingar loksins að verða frjáls þjóð.

Svo má hugga sig við það meðan sófinn frá Epal er borinn út og gaurinn frá Lýsingu keyrir burtá  landkrúsernum að það er enn sárara að horfa á eftir einkaþotunni sinni dreginni burt. Og hvað er gaman við að eiga dót sem maður getur ekki látið sjá sig með í séð og heyrt...


P.s. Er ég eini talsmaður  þess að það verði bannað með lögum að flytja fréttir af kvennamálum Hugh Hefners?

Margt er mannanna bölið...

Skopunar kommuna skyldar Sands kommunu hálva millión krónur fyri kommunulæknatænastuna*





Tekið af þeim ágæta fréttavef dimma.fo

fimmtudagur, 9. október 2008

sunnudagur, 5. október 2008

Ég held ekki að himinninn sé að hrynja






Það er búið að vera skrítið að búa á Íslandi upp á síðkastið.

Kannski af því að ég var í burtu í nokkur ár og ekki  beinn þátttakandi í góðæðinu.

Ég þykist svo sem vita þokkalega um sukkið og ruglið sem var í gangi á skerinu.

Bara hjá sumum vel að merkja, fæstir sem ég þekki hafa fengið sér Range Rover eða Hummer á lánum.

En nú er partíið sem sagt búið. Og þá detta allir í einhverja móðursýki.

Ólíklegasta fólk má vart mæla fyrir skelfingu. Framtíðin býður upp á kaldan vatnsgraut í öll mál,  hnútasvipur og strigakufla.

Að minnsta kosti ef maður hlustar á suma fjölmiðlana.

Mér finnst á köflum alveg með ólíkindum að fylgjast með umræðunni í fjölmiðlunum.

Sá í sjónvarpinu eitthvert kvöldið stórmennin ganga út úr ráðherrabústaðnum og að þeim flykktist hópur af því sem virtust vera menntaskólakrakkar með míkrófóna. „Davíð Davíð“ kölluðu skærar barnsraddirnar, „Davíð Davíð við erum hrædd“. Davíðinn brosti í kampinn og sagði „ verið róleg, ég er stór og góður kall sem passar ykkur“.  Svo les maður í blaði A að allt sé í raun í góðu lagi meðan Blað B segir að allt sé farið til fjandans.  Svo bíta blöðin í eigin skott þvers og kruss.

Hér er dæmi um vinnubrögðin:

Fjölmiðill A talar við einhvern verðbréfastjóra og spyr „verður opið á mánudaginn?“

Stjórinn svarar og slær á létta strengi, „við opnum nema það falli loftsteinn á sjoppuna he he he.“

Úr þessu verður fréttin:„Verðbréfastjóri útilokar ekki lokun!" 

Fjölmiðill B grípur fréttina, hringir í stjórann og spyr hvort miklar líkur séu á lokun. Þegar hann svarar „nei“, hefur skapast toppunartækifæri og fæðist fyrirsögnin: „Nokkrar líkur á lokun á manudag!" Svona stigmagna fjölmiðlarnir sjálfa sig og ef einhver gerir athugasemd við bullið er verið að vega að málfrelsinu alveg  barasta. 

Svo er einhver unglingurinn sendur í Bónus að tala við „fólkið í landinu". Þetta krakkagrey hvers venjulegu helgarinnkaup samanstanda af bjórkippu og snakkpoka, fær auðvitað sjokk þegar það sér íslensku kjarnafjölskyldurnar með kerrufjöllin og dregur þá eðlilegu (en röngu) ályktun að hér sé verið að hamstra fyrir ragnarök. Svo er talað við einhvern búðarkall sem er í öðru leðjuslagsliðinu og hann boðar ábúðarfullur vöruskort og hörmungar (sem búðarkallinn í næstu búð og hinu leðjuliðinu kannast svo ekkert við). Síðan ganga fréttaskeytin heimshornanna á milli og fyrr en varir er hafin hin mesta þórðargleði í öðrum löndum: „Sko! Þarna in Iceland er allt í enn bigger mess en hér!" Því fátt yljar þjóðum heims meira um hjartarætur en að fá að vita að annarstaðar séu meiri aular.

Nú má enginn skilja það svo að ég sé að gera lítið úr ástandinu.

Auðvitað er erfitt fyrir montna krakkann að viðurkenna að allt fína dótið hans var bara í láni og að það þurfti að skila því.  Erfitt að híma einn með legg og skel en ekkert Bratz, úti í horni á skólalóðinni meðan hinir krakkarnir leika sér.  Það má alveg segja frá því.

En málið er kannski bara að fjölmiðlarnir hafi stóru lýsingarorðaskúffuna læsta. Það er nefnilega svo slæmt að vera búin að gengisfella tungumálið niður úr gólfinu ef eitthvað verulega slæmt skyldi nú gerast.

mánudagur, 29. september 2008

sunnudagur, 28. september 2008

fimmtudagur, 25. september 2008

Ég er líklega tímaskekkja...














Hefði verið flottur '56.

mánudagur, 22. september 2008

Ég hef verið sakaður...


um væmni á þessu bloggi. Það má til sanns vegar færa. Ég verð stöðugt  að passa að detta ekki ofan í algjöra djöfulsins drulluvæmni.  En þegar ég sest niður og ætla að skrifa eitthvað er eiginlega bara tvennt í gangi í hausnum á mér. Ég sakna barnanna minna og ég er skotinn í kærustunni minni. Mundi drepa allt og alla úr væmni á nokkrum dögum ef ég skrifaði allt sem mér dettur í hug um þessa málaflokka. Ég hef stundum velt fyrir mér að finna mér eitthvað annað að skrifa um. Gerast veðurbloggari, kopípeista ljóð eða birta mataruppskriftir. Sé bara ekki tilgang með því.

Þannig að þið sitjið uppi með væmnina.
Gott á ykkur. Getið þá bara farið eitthvað annað...

mánudagur, 15. september 2008

Spamljóð

Oyl or clarified butter, 

then set them by in a this morning.

a drover who attempted 

to jest with and klinger 

made a telling diversion. 

I suppose our it is not written 

that you are to slay me. 

Manand rather the simple 

kindyou know, fond of.


Þessi ljóðræni og fallega torræði texti barst mér í tölvupósti í morgun.

föstudagur, 5. september 2008

Hvernig segir maður kúrekastelpu að maður elski hana?

Rose of my heart

We're the best partners this world's ever seen
Together as close as can be
But sometimes it's hard to find time in between
To tell you what you mean to me

You are the rose of my heart
You are the love of my life
A flower not fading nor falling apart
If you're tired, rest your head on my arm
Rose of my heart

When sorrow holds you in its arms of clay
It's rain drops that fall from your eyes
Your smile's like the sun come to earth for a day
You brighten my blackest of skies

You are the rose of my heart
You are the love of my life
A flower not fading nor falling apart
If you're cold, let my love make you warm
Rose of my heart

So hard times or easy times, what do I care
There's nothing I'd change if I could
The tears and the laughter are things that we share
Your hand in mine makes it good

You are the rose of my heart
You are the love of my life
A flower not fading nor falling apart
If you're cold, let my love make you warm
Rose of my heart

You are the rose of my heart
You are the love of my life
A flower not fading nor falling apart
If you're cold, let my love make you warm
Rose of my heart



Hugh Moffat

fimmtudagur, 4. september 2008

Stundum er lífið...

erfitt. 

Hlutirnir öðru vísi 
en ég vildi  að þeir væru. 
En þegar allt er svart, 
hugsa ég um börnin mín 
og horfi á ástina mína.
Þá birtir.

miðvikudagur, 3. september 2008

Jæja Rósant minn...











getur verið að þú hafir dottað í ökuskólanum meðan kennarinn fór yfir hvar má leggja?

fimmtudagur, 28. ágúst 2008

Lenti í ómerkilegum...

árekstri í gær. Engin meiðsl urðu á fólki, en leifarnar af stoltinu liggja helsærðar í Túngötunni.

miðvikudagur, 20. ágúst 2008

Stubburinn minn...













ég sakna hans.

mánudagur, 4. ágúst 2008

Riddarasögur úr nútímanum













Þarna stendurðu þá
Litli riddarinn minn
Gyrtur skólatösku, með nestispakka
sest þú á bak og þeysir af stað
mót lífinu og ókunnum drekum
Og ég hugsa
Hvernig ætli skjöldurinn
sem ég smíðaði þér standist
örvahríð heimsins?
Skyldi sverðið duga
þegar svörtu riddararnir
gera áhlaup í frímínútunum?
Eða lensan þín brotna
Þegar burtreiðarnar hefjast
og allt er í húfi?

Stoltið og óttinn togast á
í brjósti mér.

Mundu!
Mundu allt,
sem ég hef kennt þér!
Vertu einarður.
Verndaðu þá sem minna mega sín.
Láttu ekki drekana sigra.
Þú verður að horfast í augu við óttann
halda samt áfram og vona
að stríðið sé ekki til einskis

og ég trúi því statt og stöðugt
að í slóð þessa riddara verði gleði
þorpsbúar kasti blómum á veginn
þegar hann fer hjá

og að einhverntíma siglir þú svo
til Þokueyjanna
finnir það sem þú þráðir...

miðvikudagur, 23. júlí 2008

mánudagur, 14. júlí 2008

Nokkur fátækleg minningarorð

Þegar ég var ungur drengur að alast upp í Kópavogi,
var margt fólk sem setti svip á bæinn.
Af ýmsum ástæðum.
Einn af þeim sem settu hvað mestan svip á unglingsárin mín
var Pétur Leifur Pétursson.
Í dag barst mér andlátsfrétt hans.
Psi var einhver mesti ljúflingur og fagurkeri sem ég hef kynnst.
Leiftrandi húmoristi, sem alltaf gat séð broslegar hliðar allra mála.
Hann var lífsnautnamaður í besta skilningi þess orðs.
Plötu- og bókasafnið sem hann hafði komið sér upp strax á unglingsaldri var með ólíkindum.
Þeir voru ófáir listamennirnir sem ég sá og heyrði fyrst hjá honum.
Þó hann væri tveimur árum eldri en ég gaf hann sér tíma til að spjalla,
rétta mér bók til lestrar
eða spila fyrir mig lag sem ég þyrfti að heyra.
Hann hafði ótrúlega þolinmæði
gagnvart þessum sérlundaða hrokagikk sem þetta skrifar.
Án hans hefði líf mitt verið snauðara á svo marga vegu.

Leiðir skildu, ég hafði ekki séð hann í mörg ár, frétt einstöku sinnum af honum á Spáni.
Og svo þessi ótíðindi í dag.

Af öðru tilefni var eitt sinn sagt:
Silfurkerin sökkva í sæ, en soðbollarnir fljóta.

Þó um seinan sé, langar mig samt að segja takk fyrir mig.

föstudagur, 4. júlí 2008

Það sem þér gjörið...

mínum minnstu bræðrum.







Sjá hér og hér

mánudagur, 30. júní 2008

Það er gaman...

með góðu fólki.

mánudagur, 23. júní 2008

Er ekki vanur...

að blogga á vinnutíma, en ég varð bara að segja að ég er þakklátur læknavísindunum einmitt núna.

þriðjudagur, 17. júní 2008

Jibbíi jei!

EþamtebBb

sunnudagur, 15. júní 2008

Mánuður liðinn...

Ef ég væri jafn duglegur að blogga og að ganga væri blogspot í diskavandræðum.
Gekk Fimmvörðuháls um helgina og hef gengið eitthvað í hverri viku síðan ég flutti heim.
Ísland er fallegt. Það er gaman að ganga. Ég er rétt að byrja, vona ég!
Og já, sambúðin gengur ótrúlega vel.

fimmtudagur, 5. júní 2008

Roðn!

laugardagur, 31. maí 2008

Afgangsstærð!


Fór í fyrsta hjólatúrinn eftir heimflutninginn í dag.
Skrítið að vera svona afgangsstærð í umferðinni.
Hvorki bíll né fótgangandi.
Samt gaman og gott að hjóla aftur.
Þó Danmörk sé sléttari er Ísland hollara.
Fjallahringurinn svo fallegur.

Mér þótti afar vænt um það sem ung kona sagði við okkur Betu í dag.
"Þið verðið örugglega gömul, þið hlæjið svo mikið"

fimmtudagur, 29. maí 2008

Þögnin rofin!

Það hefur mikið verið um að vera undanfarið.
Breytingar á öllum sviðum.
Nýtt land, nýtt heimili, ný vinna.
Þetta hefur allt gengið ótrúlega vel fyrir sig.
Hef svo sem búið í þessu landi áður
og mesta sjokkið yfir gauraganginum er að ganga yfir.
Nýji vinnustaðurinn er líka gamall,
og ótrúlega margt sem ekki hefur breyst
á þessum árum sem eru liðin.
Nýja heimilið er yndislegt.
Og nýja sambýliskonan er svo dásamleg
að stærsta letrið í tölvunni (72 punktar) dugar ekki
til að ég geti lýst því sómasamlega.

Lífið er auðvitað ekki eintóm hamingja.
Ég sakna barnanna minna,
var einmitt að ganga frá farinu fyrir þau hingað í sumar.
Hlakka SVO til að fá þau til mín.

En allt um allt er lífið gott!

fimmtudagur, 15. maí 2008

Alea iacta est

Flaug yfir mitt Rubicon með Iceland Express í dag...

miðvikudagur, 14. maí 2008

Siggi sprettur er...

eins og snigill þessa dagana.
Merkilegt hvað fólk hreyfir sig hægt.
Jæja, má ekki vera að þessu blaðri.
Rokinn...

þriðjudagur, 6. maí 2008

Útlitið...











er ekki slæmt.

mánudagur, 5. maí 2008

Næstsíðasta vinnuvikan hafin...

hér við Eyrarsund.
Erfitt að halda fókus og einbeitingu,
hausinn fluttur á undan, allt of margt í gangi.
Tilhlökkun og kvíði fléttast saman.
En nýlegar fréttir setja einhvern veginn
hlutina í samhengi, hvað er mikilvægt og hvað ekki...

laugardagur, 3. maí 2008

Mikið lítur heimurinn nú betur út...

í gegnum botninn á glasi af heimagerðu latte.
Og þegar ástin mín býður mér góðan daginn og brosir til mín,
verður allt bæði gott og fallegt. Heimurinn fyllist af gleði og von.
Svo lít ég í kringum mig, horfi á börnin mín og finn hvað lífið er gott.

Svona...

fimmtudagur, 1. maí 2008

Tår i toget

Stundum er lífið rússibani, upp og niður og upp aftur.
Lítið sem maður getur gert annað en að halda sér fast,
og vona að allt fari á endanum vel.

Ég er búinn að ganga í gegnum mikla breytingatíma síðan í haust.
Sveiflast upp og niður, líða skelfilega og dásamlega og allt þar á milli.

Og ef ég hef eitthvað lært í vetur, þá er það að njóta augnabliksins.
Grípa daginn og leyfa mér að njóta. Fresta ekki og geyma ekki þar til seinna.

Sat í lestinni á leiðinni heim í kvöld og allt í einu helltist þetta yfir mig.
Hvað lífið getur verið stutt.

Svo kíkti ég á netið, 3G og allt það.

Sá að kærastan hafði skrifað svo fallega að ég táraðist.
Upplifði svo sterkt hvað ég er mikill gæfumaður.

Þökk sé þessu lífi...

sunnudagur, 27. apríl 2008

Life is a beach














Átti dásamlegan dag með börnunum mínum.
Byrjaði á að næra kroppinn og andann.
Einkadóttirin bakaði croissants og svo var farið á ströndina.
Enn í kaldara lagi þó hitinn slefaði í 20 stig.
Þræddum norðurströnd Sjálands, hver bærinn öðrum dúllulegri,
hvítar strendur, sólarglenna og ískaldur sjór.
Kíktum við hjá Hamlet, og þræddum svo millaslóðir við Eyrarsund.
Dásamlegur dagur!


föstudagur, 25. apríl 2008

In my life

There are places I remember
all my life, though some have changed.
Some forever, not for better.
And some have gone, and some remain.

All these places have their moments
with lovers and friends I still can't recall.
Some are dead and some are living.
In my life I love them all.

But of all these friends and lovers,
there is no one compares with you.
And these memories lose their meaning
when I think of love as something new.

Though I know I'll never ever lose affection
for people and things that went before,
I know I'll often stop and think about them.
In my life I love you more.

Though I know I'll never ever lose affection
for people and things that went before,
I know I'll often stop and think of them.
But in my life I loved you more.
I love you more.
I love you more.

Lennon og McCartney
Ójá!

Föstudagsheimspekiblogg

fimmtudagur, 24. apríl 2008

Gleðilegt sumar!











Hlaupinn móti vorinu og sólinni!

þriðjudagur, 22. apríl 2008

Ástin mín er lasin.

Það finnst mér vont.
Vildi að ég væri hjá henni.
Óvenju aumt að vera fjarkærasti þegar þannig stendur á.
En það stendur allt til bóta.
Von bráðar.

mánudagur, 21. apríl 2008

Af hráum fiski

Ég var kominn á miðjan aldur áður en ég lærði að meta hráan fisk.
Maður hafði svo sem séð í bíó, hvernig skrítnir japanir sporðrenndu hráum fiski eins og pelíkanar.
Eða bjuggu til úr honum torkennilegar smákökur sem þeir spændu svo í sig á ofurhraða, með einhverskonar gestaþrautir í stað amboða.
Þetta þótti íslenska fordómafólinu álíka geðslegt og að stinga sér opinmynntur í baðker fullt af spriklandi hringormum eða annarri óværu.
Nei takk!

En svo var það fyrir nokkrum árum að ég lét til leiðast að bragða á.
Og til að gera langa sögu stutta varð það ást við fyrsta smakk.

Það var svo í vetur að fyrir mér lukust upp nýjar víddir og launhelgar.
Það hafði nú ekki hvarflað að mér, að aðrir en langskólagengnir japanir af miklum sushiættum gætu gert svona, en kærastan mín dásamlega sýndi mér fram á annað.
Mér var kennt að búa til sushi!

Nú er svo komið að engan mat kýs ég frekar en heimagert sushi,
og fátt veit ég fegurra en að horfa á nettu og fallegu hendurnar hennar töfra fram þessa fallegu bita úr hráum fiski, grjónum og grænmeti.

laugardagur, 19. apríl 2008

Það er gott að vera til

Það gerist allur fjandinn.
Hægðir og lægðir í lífinu.
Fólk hagar sér alla vega.
Stundum vel, stundum illa.

En svo koma fullkomin augnablik.
Þá er allt bjart og fallegt.
Ekkert til nema ást og fegurð.

Eitt slíkt augnablik
getur fleytt mér
ótrúlega langt.

miðvikudagur, 16. apríl 2008

Það er ekki margt sem toppar...

heimalagað sushi, úr ferskum íslenskum fiski.

Blóm og kransar afþakkaðir...

En þeir sem vildu minnast hans,
gera það vonandi fallega...

þriðjudagur, 15. apríl 2008

mánudagur, 14. apríl 2008

Það er svo margt í þessum heimi...

sem ég botna bara alls ekkert í. Einu sinni fannst mér það alveg skelfilegt, vildi vita allt og skilja. Sagði jafnvel ósatt og þóttist vita hluti. Ræddi af mikilli íþrótt um bækur sem ég hafði ekki lesið og myndir sem ég hafði ekki séð.
Með aldrinum rjátluðust nú þessi ósköp af mér, svona að mestu.
Í dag er ég bara sáttur við þá blöndu af skilningi og skilmysingi sem fyrirfinnst í litla kollinum.
Finnst núorðið að skynja alveg jafn mikilvægt og að skilja og að finna jafn mikilvægt og að vita.
Vil alveg eins vera tilfinningavera eins og vitsmunavera.
Best að vera bæði.

fimmtudagur, 10. apríl 2008

Dies irae

Liber scriptus proferetur,
in quo totum continetur,
unde mundus judicetur.

Ég veit...

miðvikudagur, 9. apríl 2008

Ástin mín!

Tíminn líður svo hægt
þegar ég er ekki hjá þér.
Stendur nánast kyrr.
Og svo þegar ég fæ
að vera nálægt þér
geysist hann af stað.
Ég horfi í augun þín
augnablik
og heilu dagarnir
æða hjá.

föstudagur, 4. apríl 2008

Aðeins heimskinginn...

óttast ekkert.

fimmtudagur, 3. apríl 2008

Þakka góð viðbrögð...

við seinustu færslu. Bæði bein og óbein. Hef fengið ýmsar tillögur og ábendingar um leiðir og mögulegar aðgerðir. Einfaldast væri að fletta bara ofan af óþverranum, ég hef ærin gögn í höndunum til þess, en jafnvel svona skítseyði á fjölskyldu, sem ég hef engan áhuga á að valda sárindum, þó að það væri vitaskuld ofbeldishegðun hans sem orsakaði slík sárindi.
En ég er einn, þið mörg, og þess vegna ætla ég hér með að auglýsa eftir tillögum og hugmyndum um aðgerðir, sem bundið geta endi á atferli þessa óþokka. Nú reynir á, að stoppa þetta ógeð.
Vinsamlegast sendið tillögur og ábendingar á stjupbauni (hjá) hotmail.com.
Fullum trúnaði heitið.

þriðjudagur, 1. apríl 2008

Undanfarið hef ég þurft að horfa upp á...

manneskju sem er mér kær þjást af völdum huglausrar rottu í mannsmynd.
Þessi brenglaði skíthæll og lítilmenni virðist einskis svífast
til að koma höggi á manneskju sem svo sannarlega verðskuldar ekki slíka framkomu.
Gunguhátturinn er hins vegar slíkur
að þessi slímugi viðbjóður kemur ekki fram undir nafni,
heldur vegur úr launsátri.
Úrræðaleysið þegar svona óþverri á í hlut er þess vegna talsvert.
Maður vill ekki sökkva niður á sama drulluplan.
En eitthvað verður að gera.
Það er ábyrgðarhlutur að horfa upp á svona ofbeldi og aðhafast ekki...

sunnudagur, 30. mars 2008

Stoltur pabbi í dag.

Dóttir mín var fermd í dag.
Hennar ákvörðun, hennar val, respektera það,
þó ég sé á öðru máli í eilífðarmálunum.
Veit svo sem ekki á hvað máli hún er heldur...
Hvað um það...
Hún var svo falleg og góð og stóð sig svo vel.
Ég er stoltari af þessari ungu konu en orð fá lýst.


laugardagur, 29. mars 2008

Skrítið hvað...

fyrirbæri á borð við mæjones getur komið mér í gott skap.
Einhver einkennileg hugsanatengsl.
Undarlega skilyrtur.
Smyrjið bara hangikjöt með mæjonesi,
og sjá, ég fer að slefa.

föstudagur, 28. mars 2008

Lífleg helgi framundan

Góðir gestir og krakkarnir hjá mér í nótt, líf og fjör bara.
Þessi helgi verður fljót að líða...
Óð fluga alveg.
Og svo styttist...

þriðjudagur, 25. mars 2008

Jæja er þá ekki gengið...

rokið upp aftur. Loksins þegar ég sá fram á
að geta tekið "fimmeyring einn fengi" atriðið
með mánaðarlaunin mín.

Ég hef óþyrmilega á tilfinningunni
að á bak við tjöldin séu einhverjir dúddar
sem spila á þetta örhagkerfi eins og mandólín.

Sá svo fyndna "frétt" á dögunum

Gluggagægir leggur frakkann á hilluna.

"Orðinn dauðleiður á að horfa á fólk að horfa á sjónvarpið"











Heimild The Onion (www.theonion.com)

mánudagur, 24. mars 2008

Sjónvarpsrannsóknir - Fyrstu niðurstöður

Ég er mikið búinn að reyna að horfa á sjónvarp í dag.
Það hefur gengið brösulega.
Ég hef þó gert nokkrar uppgötvanir sem ég ætla að deila
með báðum lesendum þessarar síðu.

Það er ekki til svo vesæll krókódíll í veröldinni
að um hann hafi ekki verið gerðir minnst tveir þættir
og þeir sýndir á Animal Planet, Discovery og NatGeo Wild.

Mythbusters hafa sýnt fram á að það er ekki til neins
að hoppa upp ef maður er í lyftu sem hrapar.

Júllurnar á J-Lo verða minna spennandi í hvert skipti
sem hún skekur þær í átt að linsunni.

Það er samið alveg ótrúlegt magn af leiðinlegu poppi í heiminum.
Og endalaust reynt að breiða yfir það með júlluskaki.

Guð er blankur og fulltrúar hans hér á jörð vilja að ég reddi því.
Núna. Strax. Með því að hringja. Núna.

Fari tveir í kapp vinnur annar nema þeir verði jafnfljótir.

Bílaframleiðendur nota ótrúlega marga pénínga í að auglýsa bílana sína.
Vita þeir eitthvað sem ég veit ekki?

Ef maður vill láta ameríkana hlaupa af stað,
á maður bara að öskra frííís!

Það er búið að framleiða svo margar seríur af America's next top model
að það verður að slaka á innflytjendareglum til að manna (kvenna?) næstu seríu.

Gæti haldið svona áfram í alla nótt, en stoppa hér, má ekki missa af Mythbusters.
Hvað ætli þurfi margar borðtenniskúlur til að lyfta skipi af hafsbotni?
Hei!
Hverjum er annars ekki rennislétt sama?

Enn ein kveðjustundin

Það er svo mikil gleði og hamingja á flugvöllum.
Við komufarþegahliðið.

Ég var ekki þar í morgun.
Ég var brottfaramegin,
stóð með tárin í augunum
og horfði á eftir ástinni minni.

Helgin búin að líða svo hratt.
Yndislegar stundir.
En alltaf samt þessi vitund
um að kveðjustundin færist nær.

Ástin mín hvað ég þrái heitt,
daginn þegar ég kem til þín
án þess að vera
með farmiða
burt frá þér aftur.

föstudagur, 21. mars 2008

Stundum finnst mér...

alveg ótrúlega mikið ofbeldi í þessum heimi.
Lítil takmörk fyrir hvað fólk er tilbúið
að láta heift og reiði og hatur teyma sig langt.
Sumt ratar á síður blaðanna og inn í fréttatíma.
Sérstaklega ef ofbeldið er myndrænt og sláandi.
Blóðpollar og brostin augu selja...
Svo hristir fólk höfuð í hryllingi,
horfir á börn í stríði skjóta og meiða önnur börn.
En á sama tíma, gerir upplýst, siðmenntað fólk
sín eigin börn að vopnum, til þess eins að meiða og særa.
Já, hatrið lifir góðu lífi.
Líka í vestrænum velmegunarhjörtum.
Og svo blæðir börnunum...

mánudagur, 17. mars 2008

Það er svo gott...

að hlæja með henni
gráta með henni
sjá hana brosa
segja henni allt
og ekkert
Hlusta á orðin hennar
andardráttinn
hjartsláttinn

Það er svo vont
að vera ekki hjá henni...

Það er hríðarmugga við Eyrarsund í dag.

Bara annað skiptið í vetur sem ég man eftir að sjá snjó.
Festir samt ekki á jörð, of hlýtt til þess.

Átti annars eins góða helgi og hægt er,
án þess að hafa ástina mína hjá mér.
Gerði skemmtilega hluti með krökkunum,
fórum í nýopnaðan Bakken og í dýragarðinn.
Sáum bavíana láta, ja eins og bavíana.
Ástfangnar skjaldbökur og margt fleira skemmtilegt.










Um leið og ég kvaddi þau í morgun fór svo að snjóa.
Það fer ágætlega við sálarlífið akkúrat núna.
Ég sakna elskunnar minnar óskaplega.
Ég hitti hana að vísu um páskana
en það er svo ofboðslega langt þangað til.
Fjórir dagar. Ekki mikið í jarðsögulegu samhengi.
En eins og mér líður núna eru fjórir dagar heil eilífð.

föstudagur, 14. mars 2008

Játning










Ég var svo lánsamur í haust
að kynnast konu sem er einfaldlega dásamleg.

Hún er óviðjafnanleg að vitsmunum.
Leiftrandi tilsvörin, taumlaust hugmyndaflugið,
haukfránt innsæið og kraumandi húmorinn
verða til þess að ég þarf virkilega að vera á tánum
til að vera ekki eins og auli við hlið hennar.

Svo er hún svo falleg og þokkafull
að ég stend meira og minna á öndinni.
Ég get gleymt mér tímunum saman við að horfa á hana
og jafnvel minnsta snerting sendir sæluhroll um mig allan.
Ég er ekki trúaður maður,
en eftir að ég hitti hana í fyrsta sinn og horfði í augun hennar,
hnoðaði ég saman morgunbæn sem ég fer oftar en ekki með þegar ég vakna.

Góði Guð!
Láttu hana vakna og opna augun
í dag og alla daga
Svo ég geti drukknað í þeim
í dag og alla daga.

Ég elska þessa konu takmarkalaust.
Það tók mig tæp 45 ár að finna hana, en þó það hefði tekið mig alla ævina,
hefði einn dagur með henni gert biðina þess virði.

Var að átta mig á...

þeirri einföldu staðreynd að dropinn holar steininn.

Nú ætla ég að skrifa um frestunaráráttu

Nei annars.
Geri það einhverntíma seinna.

Það eru þrjár hugsanlegar skýringar...

á ástandinu sem blasti við mér í morgun.

a) Súperman fékk magakveisu.

b) Pigs WILL fly and did!

c) Dúfur af áður óþekktri stærðargráðu sveima yfir Kaupmannahöfn að næturlagi.


Þið getið svo bara í eyðurnar...

* Flash update!
Sem ég sat og spekúleraði í bílaþvottastöðvum brast á úrhellisrigning!
Æðri máttarvöld?

fimmtudagur, 13. mars 2008

Sólarupprás

Mitt fyrsta verk, þegar ég vakna á morgnana
er að gá hvort sólin er komin upp.
Yfirleitt vakna ég fyrir sólarupprás
og það finnst mér afar gott.
Þá get ég notið þess
að sjá hvernig allt breytist,
þegar rósfingraða morgungyðjan mín fer á stjá.

Ég á mynd af sólarupprásinni,
ekki mjög góða, en samt...

Hér er hún:


þriðjudagur, 11. mars 2008

Maður velur sér ekki lesendur...

þegar maður skrifar á veraldarvefinn.
Ég velti stundum fyrir mér af hvaða hvötum fólk les það sem ég skrifa hér (ekki svo að skilja að það sé um einhvern gríðarlegan fjölda að ræða, þú sem þetta lest ert satt best að segja í afar exklúsívum klúbb!).

Ég veit um nokkra (einkum fjölskyldumeðlimi) sem lesa þetta blogg til að fylgjast með tíðindum í Danaveldi. Það er frekar dapurlegt, því meira sorrí fréttamiðill er vandfundinn.

Ég vona auðvitað að einhverjir líti hér inn og lesi af því þeim finnist það skemmtilegt (ok ok veit þetta er fáránlegt! Hér er einkum boðið uppá innistæðulaus yfirlætisdrýgindi og uppdubbaða aulafyndni, í bland við einfeldningslegar kornflexpakkafílósóferingar).

Flestir villast sennilega hingað fyrir slysni, sjá hvað hér er á seyði, forða sér og koma aldrei aftur. Afar skiljanlegt.

Og svo veit ég um örfáa sem koma hér inn, af því sem ég verð að kalla annarlegum hvötum. Ætla svo sem ekkert að segja um það, annað en að ég vorkenni þeim.

föstudagur, 7. mars 2008

Plástur á morgunsárið

Að vakna, setja kaffivélina í gang, mala baunir í fyrstu lögun dagsins, flóa mjólkina, sjá svart og gullinbrúnt kaffið dropa í bollann, hella mjólkurfroðunni saman við, nokkrir dropar af heimsins besta vanillusírópi...
Ahhhhh....

Komiði nú með helvítis köttinn!

fimmtudagur, 6. mars 2008

Þessi tilgangs og innihaldslausa færsla

er atkvæðafjöldans vegna ekki brúkleg
sem dæmi um hæku.

Man einhver eftir...

útvarpsþætti sem hét Ambindryllur og argspæingar?
Einhverra hluta vegna límdist nafnið í hausnum á mér, en ég man ekkert um hvað þetta snérist.

þriðjudagur, 4. mars 2008

Það snjóaði örlítið...

hér við Eyrarsund áðan. Það var gaman að fara út og hlaupa, allt orðið hvítt sem var grænt í gær. Þetta var samt bara smá föl, lifir varla nóttina, en allt er svo hvítt og hreint á meðan.

mánudagur, 3. mars 2008

Ætli það sé rétt...

að úlfur sem festir löppina í gildru, nagi hana í sundur til að losna?

Ég er að upplagi...

nokkuð bjartsýnn held ég. Gott ef ég er bara ekki með þetta íslenska veiðimannasamfélagsattitjúd.
Þetta reddast! Þetta verður allt í lagi! Okkur leggst eitthvað til á morgun...

Voða þægilegt hugarfar, sparar manni óþarfa áhyggjur og hingað til, að minnsta kosti, hefur allt reddast í lífinu.

En einstöku sinnum kemur fyrir að það liggur illa á mér, ég fæ vonleysistilfinningu og fer að hugsa neikvætt, hætti að trúa að hlutirnir gangi. Það getur verið þrautin þyngri að komast upp úr svona spíral. Ef að í kringum mig er svo fólk sem er fast í neikvæðni, reiði og hatri verður enn erfiðara að komast úr þessu ástandi.
En ég er svo heppinn að eiga góða að, fólk sem ég get talað við, þegið ráð, stuðning og uppörvun.
Það er til svo gott fólk í þessum heimi að ég hefði ekki trúað því, nema vegna þess að ég hef fengið að kynnast nokkrum svoleiðis.
Takk kæra fólk fyrir hjálpina!

Það er um margt hollt...

að vera aðskilinn frá því fólki sem er manni kærast, i lengri eða skemmri tíma. Maður lærir betur að meta, áttar sig á hvað maður vill og hvað skiptir máli, og svo eru endurfundirnir alveg ótrúlega góðir. Ekki þar með sagt að manni líði vel meðan aðskilnaðurinn varir. Ég sagði hollt, ekki gott...

laugardagur, 1. mars 2008

Svona um það bil...

sex og hálf milljón. Ég lifi þetta varla af!

Því sárar sem maður saknar...

því sælli verða endurfundirnir.

föstudagur, 29. febrúar 2008

Af því að oftast...

er betra að segja en þegja.

Af hverju að segja...

þegar hægt er að þegja?

Komin helgi aftur...

Vá hvað þetta líður. Ég verð orðinn fullorðinn áður en ég veit af...

Eða ekki.

Góða helgi eníveis.

fimmtudagur, 28. febrúar 2008

Svo sætt...

og svo satt.

miðvikudagur, 27. febrúar 2008

Dró til tíðinda í dag...







hjá ungum manni.

Fór að hugsa...

hvað algjört hæfileikaleysi má sín sorglega lítils gegn einbeittum brotavilja.

þriðjudagur, 26. febrúar 2008

Rosalega er ég orðinn leiður...

á þessu endalausa peningatali hálfa og heilu fréttatímana. Eru viðskiptafræðingarnir gjörsamlega að tröllríða öllu? Heljargreipar hagfræðinnar með kverkatak á samfélaginu? Skiptir ekkert lengur máli nema debet og kredit? Gróði og tap? Eru rétt og rangt bara gamlar lummur? Fallegt og ljótt, siðlegt og siðlaust? Hvar fór mannkynið eiginlega út af sporinu? Hvernig í ósköpunum dettur einhverjum í hug að lausn einhverra vandamála felist í að fólk kaupi fleiri bíla? Og já já ég veit. Þetta peningadrasl er nauðsynlegt... En það eru skólplagnir líka og ekki eru þær í fréttunum í tíma og ótíma. Það sem mér finnst leiðinlegast af þessu öllu eru samt þessar erkisens vísitölur fútshjú og nösin og hvað þær nú heita. Að heyra glaðhlakkalega fréttamenn og konur greina frá að fútsjú hafi hækkað um tvo punkta... Eða sorgbitna þulina segja frá lækkunum um 3 1/3 punkta á nösinni.
Hvernig væri að hætta þessu verðbréfavísitölublaðri og birta heldur vísitölur um hluti sem standa okkur nær og skipta ekki síður máli. Mér dettur í hug rómóvísitalan sem hækkaði í gær þegar ástfangið par sást kyssast í hellirigningu í Hljómskálagarðinum, eða Gúddívísitalan sem tók kipp upp um marga punkta í dag þegar fjórir menntaskólapiltar stóðu upp fyrir öldruðum konum í strætisvagni í borginni. Landsþekktir rómantíkerar svo í viðtölum um aðgerðir stjórnvalda til að sporna gegn lækkandi rómóvísitölu.
Sennilega ekki hægt að banna verðbréfamiðlara, en hvernig væri að gera þeim skylt að vera í górillubúningum í vinnunni?

Er í lagi að segja...

að manni finnist einhver skíthæll vera skíthæll.
Ef maður passar bara að segja ekki beint út að hann sé skíthæll?
Eru það kannski meiðyrði líka?

Þurfti að heyra þetta...

einhverra hluta vegna.

laugardagur, 23. febrúar 2008

Í dag leið mér eins...













og Karnavon lávarði hérna um árið þegar hann stóð í grafhýsinu og horfði á draslið.
Mér datt nefnilega í hug að fara í leiðangur og reyna að finna mér þægilegan stól. Leitin barst inn á risastóran loppemarked. Eina 4000 fermetra. Skil núna af hverju tekk er orðin fágæt viðartegund. Endalausar breiður af borðstofustólum. Haugar af sófasettum sem minntu mig á fílakirkjugarð. Og hægindastólar. Ógrynni af hægindastólum. Merkilega margir þeirra reyndar ískyggilega blettóttir, einna líkast og fyrri eigendur hefðu geispað í þeim golunni og fundist löngu seinna. Ég leitaði og leitaði, skoðaði og skoðaði. En allt kom fyrir ekki. Þeir sem mér leist á voru allt of illa farnir, og þeir sem voru sæmilega heillegir voru svo ljótir. Ætli ég endi ekki í KEA á morgun...

Á köldum og hvössum...

laugardagsmorgni, er voða notalegt að kúra og horfa á teiknimyndir með lítinn koll á öxlinni.
Jógúrtmettir feðgar, bolli af góðu kaffi og höggvið smá skarð í gríðarlegar smákökubirgðir heimilisins (ekki spyrja).
Hólí krapp! Geimgeitur á flugmótorhjólum! Hver finnur þetta stöff upp?

föstudagur, 22. febrúar 2008

Úff...

Hrapaði í ostaborðið í vinnunni í hádegismatnum.
Verða væntanlega fróðleg efnahvörf þegar hinar ýmsu ostmyglufjölskyldur koma saman í vömbinni. Merkilegt annars... ég henti mygluðum tómötum í vikunni, en háma svo í mig osta í svipuðu ásigkomulagi. Ekki samræmið hér frekar en fyrri daginn...

Skrilljón sjórekin súrhveli!

Var að átta mig á að það er hlaupár!
Fjárans...

fimmtudagur, 21. febrúar 2008

Einhverra hluta vegna...

fannst mér þetta SVO fyndið.

miðvikudagur, 20. febrúar 2008

Eins gott fyrir...

alla hlutaðeigendur að ég er ekki Jón Sigurðsson.

Ég hef þurft að éta...

eitt og annað ofan í mig um dagana. Nú er komið að einu ofaníátinu enn. Mér finnst nefnilega orðið ótrúlega gaman að hlaupa! Gamli antísportistinn sem aldrei hreyfði sig ótilneyddur, valhoppar nú á hlaupaskóm um kaupinhafnskar þorpagrundir og finnst það gott. Það er verulega góð tilfinning að finna þolið aukast. Smá lengja hlaupaleiðir, finna eftirköstin minnka og skrokkinn styrkjast. Það er líka ótrúlega gott fyrir heilatetrið að hvíla sig, fá viðeigandi tónlist í eyrun og finna hvernig skrokkurinn hleypur eins og vindurinn. Ja, hægur andvari að minnsta kosti.
Mæli með þessu!

þriðjudagur, 19. febrúar 2008

Mín persónulega afstæðiskenning.

Tíminn er eins og harmónikka. Þenst út og dregst saman sitt á hvað. Enginn stöðugleiki á þeim bænum!

mánudagur, 18. febrúar 2008

Hvað er hægt að gera...

þegar maður horfir upp á fólk skaða sig sjálft með þráhyggjuhegðun?
Fullorðið fólk sem veit að það er bara að meiða sjálft sig með þráhyggjunni,
en segist ekki geta hætt...
Hvað ef til dæmis einhver manni nákominn væri sífellt að skera í sig?
Mér vitanlega eru engin lög sem banna fólki að valda sjálfu sér áverkum.
En að horfa upp á fólk með handleggina flakandi í sárum er vont.
Hvað á maður að gera?
Reyna að fela alla hnífa?
Passa að leggja hvergi frá sér eggjárn?
Borða allt með skeiðum?
Varla raunhæft...
Kannski reyna að fá viðkomandi til að leita sér hjálpar?
Það getur nú verið þrautin þyngri.
Það er svo sem hægt að teyma hross að vatni en að þvinga það til að drekka er ógjörningur.

Er það ósanngjörn krafa að fullorðið fólk sem ekki er sjúkdómsgreint með geðsjúkdóma hafi stjórn á hegðun sinni? Verður fólk ekki að taka ábyrgð á sjálfu sér? Verður maður ekki á einhverjum tímapunkti bara að segja: gott og vel, ég gefst upp. Þú verður að eiga þessa skurði við sjálfa þig...

Það er vorlegt...

í dag við Eyrarsund. Sólarglenna og stilla.
Vildi óska að þessum vetri færi að ljúka.

sunnudagur, 17. febrúar 2008

Farinn aftur...

tíminn floginn.
Grátt framundan.
En samt...
Alltaf von!

fimmtudagur, 14. febrúar 2008

Ég hata kveðjustundir.

Í haust og vetur er ég búinn að kveðja ástvini mína oftar en ég kæri mig um að muna.
Það er alltaf jafn vont og venst ekki, versnar bara frekar.
Að vita ekki, hvort, hvar eða hvenær leiðir liggja aftur saman.
Tár á flugvöllum, bílastæðum eða í lyftum.
Ganga einn í burtu og reyna að láta ekki sjást að maður grætur.
Minnast hverfulleika lífsins og að öllu er skammtaður tími.
Tauta einhver fátækleg orð.
Ef við sjáumst aldrei framar vil ég að þú vitir...

Annars er auðvitað ekki til frumlegt bein í mínum skrokk.
Einhver annar búinn að segja þetta allt löngu á undan mér:

Timerne føles så korte
ingenting varer ved.
Mor jer nu godt, når jeg er borte
Jeg ønsker jer sange og kærlighed

Bag mig er misbrugte dage.
Foran mig noget jeg ikke ved.
I, som skal blive tilbage,
jeg ønsker jer sange og kærlighed.

Jeg rejser uden eskorte
og uden bitterhed.
Mor jer nu godt når jeg er borte
Jeg ønsker jer sange og kærlighed.