sunnudagur, 5. október 2008

Ég held ekki að himinninn sé að hrynja






Það er búið að vera skrítið að búa á Íslandi upp á síðkastið.

Kannski af því að ég var í burtu í nokkur ár og ekki  beinn þátttakandi í góðæðinu.

Ég þykist svo sem vita þokkalega um sukkið og ruglið sem var í gangi á skerinu.

Bara hjá sumum vel að merkja, fæstir sem ég þekki hafa fengið sér Range Rover eða Hummer á lánum.

En nú er partíið sem sagt búið. Og þá detta allir í einhverja móðursýki.

Ólíklegasta fólk má vart mæla fyrir skelfingu. Framtíðin býður upp á kaldan vatnsgraut í öll mál,  hnútasvipur og strigakufla.

Að minnsta kosti ef maður hlustar á suma fjölmiðlana.

Mér finnst á köflum alveg með ólíkindum að fylgjast með umræðunni í fjölmiðlunum.

Sá í sjónvarpinu eitthvert kvöldið stórmennin ganga út úr ráðherrabústaðnum og að þeim flykktist hópur af því sem virtust vera menntaskólakrakkar með míkrófóna. „Davíð Davíð“ kölluðu skærar barnsraddirnar, „Davíð Davíð við erum hrædd“. Davíðinn brosti í kampinn og sagði „ verið róleg, ég er stór og góður kall sem passar ykkur“.  Svo les maður í blaði A að allt sé í raun í góðu lagi meðan Blað B segir að allt sé farið til fjandans.  Svo bíta blöðin í eigin skott þvers og kruss.

Hér er dæmi um vinnubrögðin:

Fjölmiðill A talar við einhvern verðbréfastjóra og spyr „verður opið á mánudaginn?“

Stjórinn svarar og slær á létta strengi, „við opnum nema það falli loftsteinn á sjoppuna he he he.“

Úr þessu verður fréttin:„Verðbréfastjóri útilokar ekki lokun!" 

Fjölmiðill B grípur fréttina, hringir í stjórann og spyr hvort miklar líkur séu á lokun. Þegar hann svarar „nei“, hefur skapast toppunartækifæri og fæðist fyrirsögnin: „Nokkrar líkur á lokun á manudag!" Svona stigmagna fjölmiðlarnir sjálfa sig og ef einhver gerir athugasemd við bullið er verið að vega að málfrelsinu alveg  barasta. 

Svo er einhver unglingurinn sendur í Bónus að tala við „fólkið í landinu". Þetta krakkagrey hvers venjulegu helgarinnkaup samanstanda af bjórkippu og snakkpoka, fær auðvitað sjokk þegar það sér íslensku kjarnafjölskyldurnar með kerrufjöllin og dregur þá eðlilegu (en röngu) ályktun að hér sé verið að hamstra fyrir ragnarök. Svo er talað við einhvern búðarkall sem er í öðru leðjuslagsliðinu og hann boðar ábúðarfullur vöruskort og hörmungar (sem búðarkallinn í næstu búð og hinu leðjuliðinu kannast svo ekkert við). Síðan ganga fréttaskeytin heimshornanna á milli og fyrr en varir er hafin hin mesta þórðargleði í öðrum löndum: „Sko! Þarna in Iceland er allt í enn bigger mess en hér!" Því fátt yljar þjóðum heims meira um hjartarætur en að fá að vita að annarstaðar séu meiri aular.

Nú má enginn skilja það svo að ég sé að gera lítið úr ástandinu.

Auðvitað er erfitt fyrir montna krakkann að viðurkenna að allt fína dótið hans var bara í láni og að það þurfti að skila því.  Erfitt að híma einn með legg og skel en ekkert Bratz, úti í horni á skólalóðinni meðan hinir krakkarnir leika sér.  Það má alveg segja frá því.

En málið er kannski bara að fjölmiðlarnir hafi stóru lýsingarorðaskúffuna læsta. Það er nefnilega svo slæmt að vera búin að gengisfella tungumálið niður úr gólfinu ef eitthvað verulega slæmt skyldi nú gerast.

1 ummæli: