fimmtudagur, 24. desember 2009

Jólakveðja



Jæja, daginn farið að lengja. Stefnir í að maður lifi af einn veturinn enn.
Það er léttara með góðu fólki.
Bestu þakkir til ykkar, þið góða fólk sem gerið mér lífið bærilegra.

Svo koma jólin aftur til mín í febrúar...

laugardagur, 5. desember 2009

Bakkafullur lækur, en samt...


Ég er orðinn alveg ofboðslega leiður á þessuIcesave þrasi endalaust.
Allt bullið sem vaðið hefur uppi er svo yfirgengilegt að manni fallast eiginlega hendur.
Mér finnst þetta nefnilega afskaplega einfalt mál.
Atburðarásin var svona:
1. Íslensk stjórnvöld (kosin af almennningi) gáfu vinum sínum banka.
2. Vinirnir (sem reyndust vera ótíndir glæpamenn) keyrðu bankann í þrot.
3. Stjórnvöld og eftirlitsstofnanir í landinu hundsuðu aðvaranir og gripu ekki í taumana, heldur þvert á móti slökuðu á reglum.
4. Þegar allt var að fara til andskotans í bankanum datt bófunum í hug að ljúga út úr fólki sparifé, einkum í Englandi og svo Hollandi.
5. Þegar þarlendir eftirlitsaðilar fóru að hafa áhyggjur af stöðunni hjá glæpamönnunum og bankanum þeirra gengu stjórnvöld og stofnanir hér rösklega til verks við að róa liðið.
6. Bankinn fór á hausinn eins og óhjákvæmilegt var og mikill fjöldi erlendra innistæðueigenda tapaði peningunum sínum.

Hver ber svo ábyrgð á stöðunni sem upp er komin?
Það blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn á þetta mál með húð og hári.
Davíð Oddsson (sjálfstæðismaður) gaf flokksbræðrum sínum ríkisbanka.
Einn þeirra, Kjartan Gunnarsson (framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins), sat sem varaformaður bankaráðs m.a. til að viðhalda tengslum banka og flokks, samanber talsambands-ummælin. Forstjóri Fjármálaeftirlitsins sem átti að hafa eftirlit með bankanum er fyrrum formaður Heimdallar. Sá sem skipulagði kynningu og markaðssetningu Icesave í Evrópu er að ég best veit Þórlindur Kjartansson nú varaþingmaður flokksins. Hinir ýmsu ráðherrar flokksins (með dyggilegri aðstoð Ingibjargar Sólrúnar og Björgvins G. Sigurðssonar) stungu skýrslum undir stóla, fóru í trúboðsferðir og reyndu í lengstu lög að hilma yfir með glæpamönnunum.

Og um hvað snýst svo Icesave málið í dag?
Hundruð þúsunda innistæðueigenda töpuðu háum fjárhæðum.
Bresk og Hollensk stjórnvöld krefjast þess að íslensk stjórnvöld standi skil á lámarksinnistæðutryggingu (20.800 evrum) til einstaklinga sem áttu innistæður.
Og þar sem innistæðutryggingasjóðurinn er tómur er krafan að stjórnvöld ábyrgist þessa skuldbindingu. Nú er rétt að undirstrika og ítreka að það er ekki verið að krefjast þess að íslenski tryggingasjóðurinn greiði meira en lámarkstrygginguna. Og það er ekki verið að krefjast þess að sjóðurinn greiði öðrum en einstaklingum trygginguna. Líknarfélögin, barnaspítalarnir og allir hinir sem áttu fé á þessum reikningum eiga bara almenna kröfur í þrotabúið og fá væntanlega ekkert upp í þær. Bretum og Hollendingum er hins vegar ljóst að við eigum ekki fyrir þessu og hafa þess vegna samið við hérlend stjórnvöld um að lána okkur fyrir tryggingunni.
Þar að auki hafa sömu stjórnvölsd ákveðið að bæta reikningseigendum skaðann umfram lágmarkið, þó ljóst sé að það fæst ekkert upp í þær greiðslur frá þrotabúinu eða tryggingasjóðnum.

Helstu rökin gegn því að semja eru þau að
a) hér hafi orðið kerfishrun og þess vegna eigi lög og reglur ekki við
b) Landsbankinn hafi verið einkafyrirtæki og þess vegna engin skuldbinding hins opinbera
c) þetta sé gölluðu regluverki Evrópusambandsins að kenna og komi okkur þess vegna ekki við.

Um þetta vil ég segja tvennt.
Í fyrsta lagi eru bankar ekki venjuleg fyrirtæki. Þeir starfa með leyfi og undir eftirliti stjórnvalda. Og eru þess vegna á ábyrgð stjórnvalda að verulegu leyti.
Í öðru lagi er Icesave til komið vegna glæpsamlegs hátternis Landsbankans og einskis annars.
Landsbankinn, ólíkt hinum glæpafyrirtækjunum rak svikamylluna sína sem útibú frá Íslandi, með því móti komust þeir hjá eftirliti erlendis og gátu farið sínu fram lengur en í leiðinni skapað tryggingasjóðnum hér ábyrgð.
Það hefur ekkert með kerfishrun eða regluverk að gera.

Að lokum þetta. Miðað við allt sem aflaga fór í hruninu og aðdraganda þess er Icesave smámál.
Þó að óvíst sé með heimtur, er samt varlega áætlaður kostnaður ríkissjóðs svona helmngurinn af því sem gjaldþrot Seðlabanka Davíðs Oddssonar (já, þess sama) kostar okkur. Þetta mál hentar hinsvegar mjög vel til hverskonar lýðskrums um hvernig vondir útlendingar í samsæri sitja um okkur sakleysingjana og ætla að hafa af okkur landið og miðin.
Þáttur sjálfstæðismanna er svo alveg sérkapítuli.
Ef sá flokkur hefði snefil af sómatilfinningu bæðist hann einfaldlega afsökunar á Icesave og legði sig svo niður. Eða þegði að minnsta kosti á meðan um það er fjallað.