laugardagur, 22. nóvember 2008

Af mótmælum, góðuköllum og vonduköllum...

Stundum vildi ég hafa svona hnífskarpa analítíska hugsun.

Vildi  geta greint og formúlerað og sett hlutina svo skýrt fram að allir kveiki á perunni.  
En það þýðir ekki að fást um það.
Hafa skal það sem hendi er næst, svo hér kemur minn túkall, í graut og biðu.

Mér finnast mótmælafundirnir á Austurvelli frábært framtak.
Ég óttast að þeir muni litlu skila, en hef samt mætt alla laugardagana og ætla að halda því áfram. 

Mér finnst Hörður Torfa og aðrir aðstandaendur fundanna eiga mikinn heiður skilinn.
Mér finnst Hörður afleitur fundarstjóri og ég mundi vilja ræða alvarlega við þau sem velja ræðumennina.

Mér finnast sum skiltin sem fólk er með rosalega góð og flott.
Mér finnst pirrandi að  sjá ekki á sviðið fyrir skiltunum. 

Ég er ánægður með að fólk hafi skoðanir og sýni þær.
Mér leiðist fulli gaurinn sem öskrar fyrir aftan mig.
 
Einu sinni bar ég virðingu fyrir Ingibjörgu Sólrúnu og fannst hún öðruvísi pólitíkus..
Það finnst mér ekki lengur.

Mér finnst grátlegt að horfa uppá hvernig liðið sem átti að gæta hagsmuna okkar, hugsar bara um sína eigin hagsmuni. Hangástólnum syndrómið grasserar. 
Svo horfi ég á stjórnarandstöðuna og fyllist nú ekki beint von og trú.

Ég dáist að fólki sem hefur skoðanir og er tilbúið að berjast fyrir þeim.
Mér finnst lítilmannlegt að setja upp grímu og berjast með hana fyrir andlitinu.

Stundum efast ég um að það sé þess virði að standa í þessu.

Þá lít ég á baunina mína og fæ aftur trú á lífið.

Engin ummæli: