Ég var kominn á miðjan aldur áður en ég lærði að meta hráan fisk.
Maður hafði svo sem séð í bíó, hvernig skrítnir japanir sporðrenndu hráum fiski eins og pelíkanar.
Eða bjuggu til úr honum torkennilegar smákökur sem þeir spændu svo í sig á ofurhraða, með einhverskonar gestaþrautir í stað amboða.
Þetta þótti íslenska fordómafólinu álíka geðslegt og að stinga sér opinmynntur í baðker fullt af spriklandi hringormum eða annarri óværu.
Nei takk!
En svo var það fyrir nokkrum árum að ég lét til leiðast að bragða á.
Og til að gera langa sögu stutta varð það ást við fyrsta smakk.
Það var svo í vetur að fyrir mér lukust upp nýjar víddir og launhelgar.
Það hafði nú ekki hvarflað að mér, að aðrir en langskólagengnir japanir af miklum sushiættum gætu gert svona, en kærastan mín dásamlega sýndi mér fram á annað.
Mér var kennt að búa til sushi!
Nú er svo komið að engan mat kýs ég frekar en heimagert sushi,
og fátt veit ég fegurra en að horfa á nettu og fallegu hendurnar hennar töfra fram þessa fallegu bita úr hráum fiski, grjónum og grænmeti.
Rafmagnshjólið og ég
Fyrir einni viku
4 ummæli:
aldrei hefur mér lánast að búa til svona tæknilegt usb lykla sushi..á það kannski eftir:)
Ef við tvö leggjum saman er USB-sushi bara byrjunin...
ég mannaði mig upp í að smakka sushi um daginn. ég verð að leggja mig alveg jafn mikið fram næst, því það var alls engin ást!
Þetta gæti verið genetískt.
Dóttir mín sem er annars frekar matvönd gelgja, gleypti við sushi...
Skrifa ummæli