Óvinur óvinar míns er ekki endilega vinur minn.
Fólk getur komist að réttum niðurstöðum þó það sé gert á röngum forsendum.
Ég hef óskaplega litla samúð með trukkastjórum sem sitja uppi með offjárfestingar úr góðærinu, meðan framkvæmdaæðið stóð sem hæst og hverra krafa er helst að lækka bensínið.
Ég á líka afar litla samleið með anarkistunum sem vilja enga stjórn (þó ég telji mig alveg skilja hvaðan þau koma) og mér finnast dúkkuhengingar ákaflega ósmekklegar.
Hyskið úr frjálslynda flokknum með lævíslegan rasismann sinn fer óskaplega í taugarnar á mér. Samt hef ég mætt á Austurvöll og mótmælt með þessu fólki undanfarna laugardaga.
Vegna þess að þó ég sé ósammála þessu fólki um flest, er ég sammála þeim um eitt.
Stjórnvöld hér hafa gjörsamlega drullað upp á bak undanfarin ár.
Þau bera ábyrgð og eiga að axla hana. Græðgisbrjálæðingarnir í bönkunum virðast vera að tapa auðæfunum, spilaborgirnar hrynja ein af annarri. Það er bara réttlátt finnst mér. Ég gleðst svo sem ekkert sérstaklega vegna þess, en ég græt það alveg þurrum tárum. Nýjustu fréttir benda til þess að það sé í örvæntingu verið að gera einhverja drulludíla, fella niður skuldir og bjarga þeim úr snörunni sem þeir hengdu sig í, en það virðist vera hreyfing í þá átt að stoppa það. En græðgisbrjálæðingarnir fóru eins langt og kerfið leyfði þeim. Stjórnvöldin sem áttu að setja reglur, sinna eftirliti og verja almannahagsmuni, brugðust fullkomlega. Þessi sömu stjórnvöld sem nú segjast ætla að bjarga málunum.
Þess vegna læt ég mig hafa það að mæta á Austurvöll laugardag eftir laugardag, þramma niður Laugarveginn í trukkapústskýi og krefjast þess með alls konar fólki að þessi stjórnvöld axli ábyrgð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli