miðvikudagur, 29. október 2008

Sjósund



Fór í sjósund eftir vinnu í dag.
Það var kalt. Skítkalt.
Sjórinn var 3,3 gráður.
Veðrið var fallegt og þetta var gaman.
Svona vont/gott. Fínn hópur og stemming alveg.
Gaman í pottinum líka.
Ætla ég aftur? Já örugglega einhvern daginn.
Helst í frosti...

Lýríski spammarinn - Part II

And, too, 
i should shave off 
the 'full, reddishbrown affair 
has long ago been proved. 
Yvonne was the still more 
because the colchians, egyptians, 
and beginning to blow, 
the backs of the leaves were so 
but i do not think 
she would have said so,.

Mér þætti nú gaman ef einhver gæti útskýrt þetta bókmenntaverk sem mér barst í tölvupósti í nótt.

mánudagur, 27. október 2008

Stundum held ég að ég hugsi of mikið.

Spurning um að reyna að hugsa bara aðra hverja hugsun.

Held það gæti alveg virkað fyrir mig.
Ég meina það er gott að hugsa, en samt.
Too much of a good thing og allt það...

laugardagur, 25. október 2008

Óvinafögnuður


The Judean people's liberation front var með fund á Austurvelli klukkan 15.

Kl. 16 gekk svo The people's liberation front of Judea með blys að ráðherrabústaðnum.
Á leiðinni slóst The liberation front of the Judean People í hópinn.
Á mótmælafundinum var fyrsta númerið væmin vella um bjartsýni og trú.
Svo tók Arnþrúður Karlsdóttir við.
Arnþrúður fokking Karlsdóttir!
Er verið að hafa mann að fífli hérna?
Hver skipuleggur þetta?
Greiningadeildin?

föstudagur, 24. október 2008

miðvikudagur, 22. október 2008

Mér er eiginlega nóg boðið

Ég flutti heim til Íslands í vor.

Aðstæður mínar breyttust og ég flutti heim.
Ég held ég þurfi ekkert að tíunda hvað gerst hefur síðan í efnahagsmálum þjóðarinnar.
Þetta reyndist álíka og að kaupa miða með Titanic.
Afleiðingarnar fyrir mig eru eftirfarandi:
Launin mín sem voru í vor sambærileg við það sem ég hafði úti hafa rýrnað um sirka tvo þriðju.
Meðlagið með börnunum mínum sem enn búa úti hefur líklega þrefaldast, það er erfitt að segja því gengið á krónunni virðist vera fallið niður úr gólfinu.  Danske Bank segir 37 ÍKR á móti einni danskri. Eins og staðan er núna duga mánaðarlaunin mín eins og þau leggja sig ekki fyrir því sem ég þarf að borga í meðlög og annað út. Jafnvel þó ég lifi á loftinu.
Á sama tíma blasir við að getulausir og kreddufastir pólitíkusar, sem slepptu algjörlega beislinu af siðblindum græðgisbrjálæðingum og hundsuðu allar aðvaranir eru núna að semja um skuldaklafa fyrir okkur. Sömu helvítis fíflin og leyfðu þessu ástandi að skapast þykjast núna ætla að semja okkur út úr því. Og hinir siðblindu græðgispatar stinga af, með þýfið og ekkert er neinum að kenna.
Einmitt.
Ég og hinir meðaljónarnir eigum bara að bíta á jaxlinn og róa.
Verstur andskotinn að við komumst ekki í öryggisráðið.
Þá hefðum við að minnsta kosti losnað við að hafa hluta af þessu hyski fyrir augunum daglega.
Það er ein og aðeins ein ástæða fyrir því að ég er ekki farinn! 


P.s. Það má ekki láta helvítis aulana axla ábyrgð. Þá er verið að persónugera hlutina.
Einmitt. Enginn ber ábyrgð. Þá er verið að persónugera. Fábjánarnir sem voru við stjórnvölinn gáfu vinum sínum bankana og afnámu regluverkið sem átti að hemja þá. Stungu svo hausnum í sandinn þegar þeim var bent á hvert stefndi. Má ekki láta þá axla ábyrgð á gerðum sínum og aðgerðarleysi. Má ekki persónugera. Hei segi þetta bara við fógetann! Hva? Á að fara að persónugera þetta nauðungaruppboð? Má ekki persónugera...

föstudagur, 17. október 2008

Stjórnaði spurningakeppni í kvöld...


það var ljómandi skemmtilegt.



miðvikudagur, 15. október 2008

Kreppan laðar fram það versta í fólki...

eins og sannast á ritræpunni sem hrjáir mig í dag.  

Ég sá í blöðunum í morgun að Greiningardeild Glitnis var vöknuð og komin með skoðun og skýringar á ástandi mála. 
Ætti þessi blessuð greiningardeild nú ekki að sjá sóma sinn í að þegja?
Spáiði bara í hvert við erum búin að láta teyma okkur af þessu fólki. Það voru svoleiðis bullandi kauptækifærin út um allt. Og hvergi átti blessuð útrásin ötulli talsmenn en einmitt í gerfivísindamönnum greiningardeildanna. Svo þegar atburðirnir hafa sýnt svo ekki verður um villst, að þetta lið hefði eins geta verið aðrýna í telauf eða fuglsiður, dúkkar þá ekki upp draugur og ætlar að fara að útskýra ástandið og segja okkur hvernig þetta verði næstu misserin. Ég ætla rétt að vona að þetta lið sé bara að vinna út uppsagnarfrestinn og að það hafi verið eitt stakt óhappatilvik að þessi Ingólfur þarna komst í fjölmiðla. Það eina sem ég vildi sjá þessa deild gera væri að ganga niður Laugarveginn í strigakuflum,maka á sig ösku og lemja sig í ennið með plankabútum meðan það kyrjaði um hvað þau skömmuðust sín.

Ekkert plús ekkert samasem glás og gomma









Mér finnst fróðlegt að fylgjast með umræðunni þessa dagana.
Það er eins og útrásar- og eyðsluvíman hafi loksins runnið af þjóðinni.
Og nú er komið að timburmönnunum. 
Einhverra hluta vegna minnir þetta mig á sjálfan mig.
Ég man þegar ég kom fyrst heim unglingsgepill lyktandi af áfengi.
Skársta skýringin sem mér hugkvæmdist var að "stóru strákarnir" hefðu haldið mér og hellt í mig brennivíni.  Þetta féll nú í heldur grýttan jarðveg ef ég man rétt, en einmitt þannig finnst mér það hljóma þegar fólkið sem:
* tók myntkörfulán til að vera á flottari bílum en það átti fyrir með góðu móti,
* tók 110% húsnæðislán í yenum til að kaupa stærra og flottara hús en það hafði efni á,
* fékk sér feitan yfirdrátt á 25% vöxtum til að fylla húsið af innlitútlitstöffi,  
* skrapp svo til London til að sjá fótbolta og versla á Visakortinu,
* áhættufjárfesti í hlutabréfum fyrir lánsfé
kennir núna einhverjum fáeinum útrásarvíkingum um allar heimsins ófarir. 
"Þeir tóku okkur og helltu í okkur!" 
Je, ræt...
Einhverjir leiðindapúkar sem tuðuðu um að þetta gengi ekki, maður gæti ekki endalaust eytt um efni fram voru pent hundsaðir og jafnvel vorkennt létt fyrir að vera svona vitlausir og leiðinlegir.
Allar venjulegar reglur giltu nefnilega ekki á Íslandi. 
Hér detta hlutirnir upp en ekki niður.
Og hin nýja hagfræði gekk í stuttu máli út á að ekkert plús ekkert yrði fullt. Innflutningur og útflutningur voru bara úrelt 20. aldar konsept. Út úr moldarkofunum! var dagskipunin. Seljum hvert öðru norðurljósin fram og aftur þangað til við erum öll orðin grilljónerar.
Allir stukku með á vagninn meira að segja forsetinn.  
Nú er rétt að það komi fram, að mér ferst ekki að hafa hátt, ekki er persónulegur efnahagur minn svo beysinn. En það er vegna minna eigin röngu ákvarðana, frekar en nokkurs annars. Og auðvitað veit ég að þetta var nú ekki alveg svona einfalt.
En samt...
Þeir héldu okkur og helltu í okkur sko...
Þetta er ekki okkur sjálfum að kenna.
Og nú vill ritstjóri Frjálsrar Verslunar að við eyðum okkur út úr vandræðunum bara.
Einmitt! Setjum viðskiptahallann á Visa-rað...

Íslandsvinurinn Kris Kristoffersson benti á að þá fyrst væri maður frjáls þegar maður ætti ekkert eftir til að tapa. Kannski eru bara íslendingar loksins að verða frjáls þjóð.

Svo má hugga sig við það meðan sófinn frá Epal er borinn út og gaurinn frá Lýsingu keyrir burtá  landkrúsernum að það er enn sárara að horfa á eftir einkaþotunni sinni dreginni burt. Og hvað er gaman við að eiga dót sem maður getur ekki látið sjá sig með í séð og heyrt...


P.s. Er ég eini talsmaður  þess að það verði bannað með lögum að flytja fréttir af kvennamálum Hugh Hefners?

Margt er mannanna bölið...

Skopunar kommuna skyldar Sands kommunu hálva millión krónur fyri kommunulæknatænastuna*





Tekið af þeim ágæta fréttavef dimma.fo

fimmtudagur, 9. október 2008

sunnudagur, 5. október 2008

Ég held ekki að himinninn sé að hrynja






Það er búið að vera skrítið að búa á Íslandi upp á síðkastið.

Kannski af því að ég var í burtu í nokkur ár og ekki  beinn þátttakandi í góðæðinu.

Ég þykist svo sem vita þokkalega um sukkið og ruglið sem var í gangi á skerinu.

Bara hjá sumum vel að merkja, fæstir sem ég þekki hafa fengið sér Range Rover eða Hummer á lánum.

En nú er partíið sem sagt búið. Og þá detta allir í einhverja móðursýki.

Ólíklegasta fólk má vart mæla fyrir skelfingu. Framtíðin býður upp á kaldan vatnsgraut í öll mál,  hnútasvipur og strigakufla.

Að minnsta kosti ef maður hlustar á suma fjölmiðlana.

Mér finnst á köflum alveg með ólíkindum að fylgjast með umræðunni í fjölmiðlunum.

Sá í sjónvarpinu eitthvert kvöldið stórmennin ganga út úr ráðherrabústaðnum og að þeim flykktist hópur af því sem virtust vera menntaskólakrakkar með míkrófóna. „Davíð Davíð“ kölluðu skærar barnsraddirnar, „Davíð Davíð við erum hrædd“. Davíðinn brosti í kampinn og sagði „ verið róleg, ég er stór og góður kall sem passar ykkur“.  Svo les maður í blaði A að allt sé í raun í góðu lagi meðan Blað B segir að allt sé farið til fjandans.  Svo bíta blöðin í eigin skott þvers og kruss.

Hér er dæmi um vinnubrögðin:

Fjölmiðill A talar við einhvern verðbréfastjóra og spyr „verður opið á mánudaginn?“

Stjórinn svarar og slær á létta strengi, „við opnum nema það falli loftsteinn á sjoppuna he he he.“

Úr þessu verður fréttin:„Verðbréfastjóri útilokar ekki lokun!" 

Fjölmiðill B grípur fréttina, hringir í stjórann og spyr hvort miklar líkur séu á lokun. Þegar hann svarar „nei“, hefur skapast toppunartækifæri og fæðist fyrirsögnin: „Nokkrar líkur á lokun á manudag!" Svona stigmagna fjölmiðlarnir sjálfa sig og ef einhver gerir athugasemd við bullið er verið að vega að málfrelsinu alveg  barasta. 

Svo er einhver unglingurinn sendur í Bónus að tala við „fólkið í landinu". Þetta krakkagrey hvers venjulegu helgarinnkaup samanstanda af bjórkippu og snakkpoka, fær auðvitað sjokk þegar það sér íslensku kjarnafjölskyldurnar með kerrufjöllin og dregur þá eðlilegu (en röngu) ályktun að hér sé verið að hamstra fyrir ragnarök. Svo er talað við einhvern búðarkall sem er í öðru leðjuslagsliðinu og hann boðar ábúðarfullur vöruskort og hörmungar (sem búðarkallinn í næstu búð og hinu leðjuliðinu kannast svo ekkert við). Síðan ganga fréttaskeytin heimshornanna á milli og fyrr en varir er hafin hin mesta þórðargleði í öðrum löndum: „Sko! Þarna in Iceland er allt í enn bigger mess en hér!" Því fátt yljar þjóðum heims meira um hjartarætur en að fá að vita að annarstaðar séu meiri aular.

Nú má enginn skilja það svo að ég sé að gera lítið úr ástandinu.

Auðvitað er erfitt fyrir montna krakkann að viðurkenna að allt fína dótið hans var bara í láni og að það þurfti að skila því.  Erfitt að híma einn með legg og skel en ekkert Bratz, úti í horni á skólalóðinni meðan hinir krakkarnir leika sér.  Það má alveg segja frá því.

En málið er kannski bara að fjölmiðlarnir hafi stóru lýsingarorðaskúffuna læsta. Það er nefnilega svo slæmt að vera búin að gengisfella tungumálið niður úr gólfinu ef eitthvað verulega slæmt skyldi nú gerast.