Mér finnst fróðlegt að fylgjast með umræðunni þessa dagana.
Það er eins og útrásar- og eyðsluvíman hafi loksins runnið af þjóðinni.
Og nú er komið að timburmönnunum.
Einhverra hluta vegna minnir þetta mig á sjálfan mig.
Ég man þegar ég kom fyrst heim unglingsgepill lyktandi af áfengi.
Skársta skýringin sem mér hugkvæmdist var að "stóru strákarnir" hefðu haldið mér og hellt í mig brennivíni. Þetta féll nú í heldur grýttan jarðveg ef ég man rétt, en einmitt þannig finnst mér það hljóma þegar fólkið sem:
* tók myntkörfulán til að vera á flottari bílum en það átti fyrir með góðu móti,
* tók 110% húsnæðislán í yenum til að kaupa stærra og flottara hús en það hafði efni á,
* fékk sér feitan yfirdrátt á 25% vöxtum til að fylla húsið af innlitútlitstöffi,
* skrapp svo til London til að sjá fótbolta og versla á Visakortinu,
* áhættufjárfesti í hlutabréfum fyrir lánsfé
kennir núna einhverjum fáeinum útrásarvíkingum um allar heimsins ófarir.
"Þeir tóku okkur og helltu í okkur!"
Je, ræt...
Einhverjir leiðindapúkar sem tuðuðu um að þetta gengi ekki, maður gæti ekki endalaust eytt um efni fram voru pent hundsaðir og jafnvel vorkennt létt fyrir að vera svona vitlausir og leiðinlegir.
Allar venjulegar reglur giltu nefnilega ekki á Íslandi.
Hér detta hlutirnir upp en ekki niður.
Og hin nýja hagfræði gekk í stuttu máli út á að ekkert plús ekkert yrði fullt. Innflutningur og útflutningur voru bara úrelt 20. aldar konsept. Út úr moldarkofunum! var dagskipunin. Seljum hvert öðru norðurljósin fram og aftur þangað til við erum öll orðin grilljónerar.
Allir stukku með á vagninn meira að segja forsetinn.
Nú er rétt að það komi fram, að mér ferst ekki að hafa hátt, ekki er persónulegur efnahagur minn svo beysinn. En það er vegna minna eigin röngu ákvarðana, frekar en nokkurs annars. Og auðvitað veit ég að þetta var nú ekki alveg svona einfalt.
En samt...
Þeir héldu okkur og helltu í okkur sko...
Þetta er ekki okkur sjálfum að kenna.
Og nú vill ritstjóri Frjálsrar Verslunar að við eyðum okkur út úr vandræðunum bara.
Einmitt! Setjum viðskiptahallann á Visa-rað...
Íslandsvinurinn Kris Kristoffersson benti á að þá fyrst væri maður frjáls þegar maður ætti ekkert eftir til að tapa. Kannski eru bara íslendingar loksins að verða frjáls þjóð.
Svo má hugga sig við það meðan sófinn frá Epal er borinn út og gaurinn frá Lýsingu keyrir burtá landkrúsernum að það er enn sárara að horfa á eftir einkaþotunni sinni dreginni burt. Og hvað er gaman við að eiga dót sem maður getur ekki látið sjá sig með í séð og heyrt...
P.s. Er ég eini talsmaður þess að það verði bannað með lögum að flytja fréttir af kvennamálum Hugh Hefners?
2 ummæli:
Noh, bara hættur að vera væminn og orðinn svaka reiður! Ég segi bara AMEN, sammála öllu.
Hver er þessi Hefner, var hann að fá nóbelinn?
Iss ég er ekki baun reiður!
Mér finnst þetta kreppudót ekki þess virði að reiðast.
Ég finn til með lítilmögnum sem missa allt sitt. Been there done that...
Finnst við hin hálf kjánaleg.
Þessum Hefner á eftir að hefnast held ég, hann er víst með svæðisbundinn efnavirkjaðan rigor mortis, premortem...
Skrifa ummæli