sunnudagur, 30. september 2007

Dagur 13 og 14





Jæja ,kominn brottfarardagur. Vaknað með fyrra fallinu og farið til Viktoria á markað. Margt að sjá og skoða. Vanilla fyrir allan peninginn! Svo fóru Robin og Bernard frá ráðuneytinu með hópinn í skoðunarferð, sýndu okkur nokkra flotta staði á Mahe eyjunni og buðu okkur í hádegismat. Þar setti ég persónulegt met í furðumat. Fruit bat curry! Já við erum að tala um leðurblöku í karrí! Skrýtið, en hreint ekki sem verst! Sjá hér fyrir upplýsingar um Fruit bats. Svo var pakkað um kvöldið, flogið um 23:00 frá Seychelles og komið til London snemma á sunnudagsmorgun. Sit á kaffihúsi og blogga þessa færslu, flýg til Köben í kvöld og hlakka svo til að hitta krakkana!

Dagur 12



Vinna fram að hádegi, tiltekt og frágangur í ráðuneytinu, Erik í viðtal hjá ráðherranum, við hinir að fara yfir hvað betur mætti fara með tækniliðinu hér. Fórum í bæinn í Viktoría eftir hádegið, og borðuðum á Marie Antoinette um kvöldið, voða flottur Creole staður, í húsi sem Henry Morton Stanley hvíldi síg í eftir að hann fann Dr. Livingstone í frumskóginum. Risaskjaldbökur í bakgarðinum og allt...

Dagur 11



Byrjuðum daginn í Tækni/iðnskóla eyjanna, þar sem við afhentum gjöf frá Íslandi, stóran prentara til að prenta teikningar og þess háttar. Endaði á forsíðu blaðanna hér fyrir vikið. Þeystum svo milli skóla allan daginn og fórum yfir tölvustofur.
Farið að hlakka til heimferðar.

miðvikudagur, 26. september 2007

Dagur 10




















Den store badedag!
Vöknuðum í grenjandi rigningu og leist ekki á blikuna. En það stytti fljótlega upp og um kl. 9 vorum við mætt á ströndina. Hið góða skip Petra lagðist skömmu síðar við akkeri og við óðum um borð. leiðin lá svo í fallega vík með sandströnd þar sem kokkurinn var settur í land með matinn en við héldum áfram yfir í Marine Park verndarsvæðið. Þar var sko snorklað! Fyrir allan peninginn! Ég hef aldrei séð annað eins. Maður synti innan um torfur af skrautfiskum í öllum regnbogans litum og stærðin allt frá ponsulitlum upp í stóra hlemma. Þetta var svo fallegt! Þegar allir vour orðnir örmagna af snorkli var farið til baka í fyrstu víkina þar sem kokkurinn var búinn að græja þennan fína mat, grillaðan fisk og salat. Át á mig gat, svo var slakað á dágóða stund, en síðan átti að fara á veiðar. En margt fer öðru vísi en ætlað er... Varla var fyrsti spúnn sokkinn í sæ þegar á brast þvílíkt úrhelli að ég hef ekki séð annað eins! Hitabeltisstormur og vantaði bara eldingarnar. Þegar við bættist að sumir í hópnum eru ekki mjög sjóhraustir, var ekki um annað að ræða en bruna í land og láta gott heita. En það var ótrúleg tilfinning að sitja í stefninu og láta rigninguna lemja á sér... Finna að maður var lifandi! Og lítill frammi fyrir náttúruöflunum.

Dagur 9

Hvíldardagur. Svaf út, brást við aðsteðjandi nærbuxnaleysi með handþvotti í baðkarinu. Tölti niður að strönd seinnipartinn. Verslaði smá, vatn, mangósafa, sultu og brauð. Fórum svo fínt út að borða um kvöldið að halda upp á afmæli Arnar. Fórum á rosagóðan ítalskan stað. Frábær matur! Svo komum við hingað heim og héldum pent afmælispartí. Allir snemma í háttinn samt, því á morgun á að snorkla!

þriðjudagur, 25. september 2007

Dagur 8



Vöknuðum og biðum spennt eftir fréttum. Fengum svo að vita að þjófarnir komust ekki inn í salinn þar sem dótið frá okkur er geymt. mikill léttir. Fórum á staðinn og sáum að reynt hafði verið að spenna upp hurðina, án árangurs. Kunnum við þjófunum bestu þakkir fyrir klaufaskapinn. Tókum til það sem við þurfturm og fórum í tvo skóla, að ganga frá uppsetningum og yfirfara. Allt í góðu standi, teknar myndir til að sýna styrktaraðilum hvað verður um gömlu vélarnar þeirra, gaman að sjá þessi fallegu börn sem mörg höfðu aldrei snert tölvu áður. Borðuðum svo kvöldmat í Victoria, og svo heim til Beau Vallon í háttinn.

Dagar 5, 6 og 7



Tek þessa þrjá saman. Við lögðum af stað frá Mahe (aðaleyjunni) til Praslin (borið fram Pralín) klukkan hálf átta á föstudagsmorgni. Sigldum með svona hraðskreiðri tvíbytnu, sem var klukkutíma á leiðinni. Fjörug ferð, sumir urðu sjóveikir og svona en mér fannst bara gaman. Praslin er voða falleg, minni en Mahe og margt að sjá. Við fórum í skóla þar og gengum frá eftir heimamenn, það var bara þokkalegt svo við sluppum vel frá því. Seinnipartinn sigldum við svo með minni bát yfir til La Digue. Það er enn minni eyja, mjög falleg og friðsæl, allir á hjólum og fáir bílar, en afar myndrænar uxakerrur sem fólk ferðast með. Þar græjuðum við einn skóla (Eina skólann á eyjunni) og áttum svo frídag allan laugardaginn og sunnudagsmorguninn. Gistum á skondnu litlu hóteli, skoðuðum geggjaðar strendur, fórum í kvöldverðarboð á lúxushótel, og chilluðum fyrir allan peninginn. Fyrripartinn á sunnudag sigldum við svo til baka til Praslin og fórum og skoðuðum friðaðann pálmaskóg sem er á náttúruminjaskrá UNESCO. Gengum þar í tvo tíma og skoðuðum pálma af ýmsum sortum. Seinnipartinn var svo siglt til baka til Mahe. Meðan við biðum eftir bátnum fékk Bernard svo símtal og þær fréttir ða brotist hefði verið inn í ráðuneytið um helgina, og ekki vitað hverju væri búið að stela. Þetta voru vitaskuld slæmar fréttir og við vorum auðvitað kvíðnir yfir okkar dóti. Við máttum ekki fara á staðinn, svo við gátum ekkert gert annað en beðið til morguns og séð þá hvort og þá hverju hefði verið stolið frá okkur. Fór í langan göngutúr á ströndinni um kvöldið, hvítur sandur og tunglskin, ótrúlega fallegt...

Dagur 4


Versti dagurinn til þessa! Einhvern veginn allt gengið á afturfótunum í dag. Vorum í tveim skólum að yfirfara uppsetningar á tölvum hjá vinum okkar hér. Ekki gott! Þurftum að vinna ansi mikið upp eftir þá. Líka heitasti dagurinn. Bara mikil vinna og puð og hiti. Ljósi punkturinn var hádegismaturinn, ég fékk geitakássu sm mér fannst góð. Kannski rétt að útskýra smá hvernig hádegismatur á eyjunum virkar. Út um allar trissur eru litlir staðir sem bjóða upp á take away hádegismat. Allstaðar eins hvítir frauðplastbakkar, hrísgrjón undir og svo eru 4 - 6 mismunandi kássur í boði ofaná. Þetta borða ALLIR í hádegismat, skólakrakkar, kennarar og útlenskir tæknimenn. Svo var farið á skikkanlegum tíma í háttinn, því á morgun eru ferðalög.

Dagur 3


Vaknaði fyrir allar aldir og dreif mig út að hlaupa.

Niður bröttu brekkuna frá húsinu og niður á strönd. Fáir á ferli, nokkrir fskimenn í smábátum alveg í fjöruborðinu og fólk á leið til vinnu.

Héldum áfram að skoða skóla í dag,

skondið að þeir eru allir eins, bara ein teikning í gangi, með smá breytingum svo þeir passi á lóðirnar, sömu litir og allt eins annars. Borðuðum hádegismatinn okkar í einum skólanum, ég fékk soðinn hákarl! Hann var ágætur, smá ammoníakskeimur, en hann er annas soðinn og svo kurlaður og saman við blandað lauk og kryddi.

Sama sagan og í gær, voða krúttleg skólabörn og elskulegt starfsfólk.

Dálítið broslegt að skólarnir eru allir betrekktir með slagorðum, svona í “öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir” stílnum.

Stoppuðum og tókum útsýnismynd yfir nýja ferðamannasvæðið sem verið er að byggja upp.

Fórum á pizzastað í kvöldmat, en pizzur eru einmitt heitasta nýungin á eyjunum um þessar mundir.

Fórum svo á markað þar sem ekkert var til sölu, nema miskræsilegur heimaeldaður matur...

Þorði nú ekki að smakka mikið þar. Gott að skreiðast í bólið undir loftkælingunni og líða inn í draumalandið.

Dagur 2



Þetta var fyrsti vinnudagurinn og félagi Bernard frá ráðuneytinu sótti okkur og fór með þangað.

Þar í litlum sal var allt tölvudótið úr seinustu sendingu, allt í góðu standi og eins og það átti að vera. Við vorum að stússast þar fram yfir hádegi, fengum karrí í hádegismat, sem kom út tárum á hinum köllunum, en þar sem ég er karrítöfari fannst mér það bara gott. Eftir hádegið fórum við svo og heimsóttum tvo skóla, þar sem heimamenn höfðu sett upp búnað sjálfir.

Það kom í ljós að ýmislegt var ekki alveg í lagi hjá þeim, svo þar verður margt að laga. Meðan við strákarnir stússuðumst í þessu var kvenfólkið á ströndinni, og tókst einni þeirra að brenna soldið á öxlunum. Um kvöldið tók svo við veitingastaðurinn The Boathouse sem bauð upp á hlaðborð með mat frá eyjunum og skemtilega hljómsveit í hverri voru tveir miðaldra kallar með gítar og skemmtara, þeir spiluðu svo sykursætt prógramm að maður hefði þurft insúlínsprautu. Maturinn var ágætur, allt einhverjar kássur, mikið mangó og grillaður tún- og sverðfiskur.

Dagur 1 á Seychelleseyjum


Fyrsti dagurinn var nú frekar tíðindalaus. Lentum á flugvellinum í hellirigningu eftir 10 og hálfs tíma flug frá London. Svaf talsvert í vélinni, en maður er nú samt frekar ræfilslegur eftir svona flug. Það eru 6 aðrir íslendingar í hópnum, Halldór, Örn og Erik, sem ég mun vinna með og svo konurnar þeirra, Edda, Anna og Jónína. Bernard og Robin frá ráðuneytinu tóku á móti okkur og keyrðu okkur þangað sem við búum 5 saman í fínu húsi, og Erik og Jónína eru svo á hóteli rétt hjá.

Við erum á stað sem heitir Beau Vallon, þetta er ferðamannastaður, rétt hjá höfuðborginni Victoria (hún er á stærð við Hafnarfjörð) Þar var svo slakað á fram eftir degi, út að borða og farið snemma í háttinn.

Þetta ferðablogg er fyrir börnin mín...

Og ef einhverjir aðrir hafa áhuga á ferðalögum mínum geta þeir lesið líka.