Ókei, ég ætla að taka sénsinn á að hljóma eins og ég sé orðinn 100 ára.
Muniði Óla H. Þórðar? Hét hann það ekki, kallinn sem brosti drengjalega milli þess að hann miðlaði föðurlegum umvöndunum um umferðarmál og aksturslag? Ég vona heitt og innilega að hann hafi aldrei farið til Indlands. Getur reyndar ekki verið, hann hefði komið heim í spennitreyju, froðufellandi og umlandi einhverja vitleysu og væri enn á stofnun.
Á vesturlöndum (vesturlöndum nær a.m.k.) hafa verið settar reglur um umferðina og það sem meira er, þeim er framfylgt með viðurlögum og talsverð brögð að því, að eftir þeim sé farið.
Víkur nú sögunni til Hyderabad á Indlandi suður.
Hér er sko allt annað uppi á teningnum. Ég veit ekki hvort til eru einhverjar umferðarreglur hér. Efast stórlega um að svo sé, en ef þær eru til, er það nú sennilega meira svona til gamans, einhverskonar Indversk Fyndni í samantekt Ganesh frá Shivamaparan. Lesið á kvöldvökum fólki til skemmtunar og yndisauka. Absúrdhúmorískir gullmolar á borð við Biðskyldu, akreinar, hraðatakmarkanir eða réttindi fótgangandi hljóta að framkalla langar hlátursrokur og kannski stöku tár þegar fólk minnist Nareesh frænda, sem varð fyrir vörubíl sem kastaði honum á beljuna sem varð honum að aldurtila.
Ástæða þess að ég skrifa þetta er að í kvöld keyrði um þverbak.
Hmm, viðeigandi orðalag, en meira um það seinna. Ég eyði um þessar mundir tæpum tveim tímum á dag í indverskum leigubílum. Ef vel gengur. Er óðum að verða efni í álitsgjafa um indversk umferðarmál. Reyndar kemur allt sem hægt er að segja um indverska umferð fram í laginu góða: "Run to the hills, run for your life..."
Þetta var nú útúrdúr.
Flestir leigubílarnir eru svipaðir, litlar smádósir oftast hvítar, frá Tata verksmiðjunum. Þeir eiga það líka flestir sammerkt að vera dældaðir og beyglaðir allan hringinn, demparar hafa verið fjarlægðir og hengt á þá allskonar glingur (gæti líka hafa krækst af vegfarendum). Bílstjórarnir virðast svo flestir hafa þróast úr villimennsku í geðveiki, án hinnar venjulegu viðkomu í normalinu (Hér sjá nú glöggir lesendur fingraför Óskars). Venjuleg ferð samanstendur af nokkrum þáttum. Maður reynir fyrst að gera bílstjóranum skiljanlegt hvert leiðinni er heitið, það kemur svo í ljós á seinni stigum fararinnar hvort það tókst. Á leiðarenda er maður hins vegar oftast orðinn svo hræddur að manni er alveg sama hvert maður er kominn, bara ef maður kemst út úr bílnum. Nú tekur við tryllingsleg þeysireið yfir stokka og steina, fólk og fénað, tré og búnað, já, bara allt sem verður fyrir. Bílstjórinn í kvöld náði reyndar nýjum hæðum. Eða lægðum...
Þegar ég settist upp í bílinn kveikti hann á tveim reykelsum, sem hann stakk í gat á mælaborðinu, kveikti á útvarpinu og setti í botn og setti svo í botn.
Hófst nú þvílíka þeysireiðin!
Ég veit ekki hversu oft við nudduðumst utan í aðra bíla. Það var oft! Bara aftanákeyrslurnar skiptu tugum! Einum 5 sinnum sá ég ekki betur en ógæfusamt skellinöðrufólk fyki útaf veginum vegna ofsaakstursins. Einn fótgangandi vegfarandi gerði þau mistök að reyna að fara yfir götu með þennan berserk í grennd. Hann slapp næstum. Næstum! Afturfóturinn var aðeins of seinn og búmm...
Ég sá í gegnum afturrúðuna að maðurinn hoppaði á annarri og hélt um hina, veit ekki hvort hann var mikið eða lítið brotinn eða hvað. Bíllinn bara brunaði burt og engin leið að ná neinu sambandi við stjórnandann.Þegar ég kom heim á hótel voru kjálkarnir svo samanbitnir að það þurftir heita bakstra til að ég gæti opnað munninn aftur.
Fyrir næstu ferð er ég að hugsa um að panta svæfingu...
Rafmagnshjólið og ég
Fyrir 2 mánuðum
2 ummæli:
Vá hvað þetta var fyndið!!! Gangi þér allt í haginn og ... passaðu þig á bílunum ef það er mögulegt.
kv
Tína fína
Úff ég reyni, en í alvöru þetta er klikkun hérna!
Skrifa ummæli