Að loknum tannkremskaupum lá leiðin á indverska rakarastofu. Ég var orðinn heldur lubbalegur og kominn tími á skerfarann. Þetta varð alveg ný reynsla fyrir mig. Leiðin lá á litla stofu, tveir stólar, indverji í öðrum að fá klipp, tveir rakarar og hópur af eldri körlum, sem sátu og horfðu af mikilli athygli á einhverja Bollywood karatehetjusápu, já eða raksápu kannski. Datt nú samt allt í dúnalogn þegar bleiknefjinn sakbitni gekk inn, svo var útskýrt að klippingar væri þörf og mér boðið að setjast í stólinn...
Upphófst nú klippingin. Beitt var svakalega stórum og hárbeittum skærum og greiðu. Mér leist nú eiginlega ekki á blikuna, því rakarinn vildi augljóslega ógjarnan fara á mis við karatekempuna slyngu, sem sparkaði mann og annan í herðar niður án þessa að blása úr nös og brast svo í söng milli bardaganna. Á tímabili var ég viss um að ég myndi kveðja þá félagana með færri eyru á höfðinu en ég kom með til þeirra, en það reyndist nú ástæðulaus ótti. Klippingin fór fram af stakri nærgætni og útkoman bara eins góð og hugsast gat í ljósi hins hraklega hráefnis sem rakararæfillinn hafði úr að moða.
En ekki var nú allt búið þó klippingunni væri lokið. Nú var spurt, með aðstoð túlks, hvort mætti ekki bjóða mér indverskt höfuðnudd. Minnugur orða Oscars Wilde* lét ég til leiðast og sá ekki eftir því. Afþakkaði þó olíubað að svo stöddu. Upphófst nú nuddið. Fyrst í stað varlega, beitt fingurgómum og þreifað fyrir sér. Rakarinn fann nú fljótt að þessi vestræna höfuðskel var í þykkara lagi og herti þá heldur betur róðurinn, bankaði og sló ótt og títt, ýmist með flötum lófa eða krepptum hnefa. Og nei, þetta var ekki eins slæmt og það hljómar. Hann hafði eitthvert lag á að fara alveg að mörkunum en ekki yfir þau. Það kom svo í ljós að höfuð er skilgreint fremur rúmt á indverskum rakarastofum, því nuddið færðist niður á háls og axlir, niður eftir baki og síðum, og svo voru handleggirnir teknir í gegn líka, alveg fram í fingurgóma. Hann hætti sér hins vegar ekki niður fyrir belti, enda eins gott. Óvíst hvernig það hefði endað, eftir einlífið hér. Þegar hér var komið sögu hélt ég að nú væri þessu ágæta nuddi lokið og var bara sáttur við það. En ekki aldeilis. Í stað þess að hleypa mér úr stólnum dró rakarinn frá Hyderabad fram tæki sem minnti mig nú bara einna helst á kollega hans Sweeney Todd. Þetta var tröllvaxinn titrari, eða vibrator eins og stundum mun sagt, tveggja handa tól, einan líkast og sjá má hér:
Neðan á þetta verkfæri var svo búið að skeyta þykkum svampplatta svona eins og klipptan úr svampfrakka. Með þessu var ég svo juðaður fram og aftur, upp og niður og allt um kring.
Byrjað á hvirflinum og unnið út frá því.Og vitiði krakkar, það má sko alveg venjast þessu! Næst þegar ég fer í indverskt höfuðnudd er ég meira að segja að spá í að vera svo djarfur að biðja um kókosolíuna með.
* Sá sem prófar einu sinni er vísindamaður, ef hann gerir það aftur, þá er hann pervert.
Rafmagnshjólið og ég
Fyrir 2 mánuðum
Engin ummæli:
Skrifa ummæli