Nett spenntur þegar ég vaknaði. Fengum að vita í gærkvöld að þetta yrði frídagur í tilefni þess að Peter er að fara heim, og að við færum í óvissuferð. Indverjarnir sóttu okkur á hótelið upp úr tíu og höfðu fengið stærri bíl til ferðarinnar, jeppbifreið frá Tata verksmiðjunum, sem eru með ótrúlega markaðshlutdeild hér. Leiðin lá fyrst til Charminar, sem er helsta tákn borgarinnar, fornt mannvirki sem reist var 1591 til að fagna plágulokum. Þarna var mikið kraðak af fólki, margir betlarar og aðgangsharðir sölumenn, sem flestum fannst með fullkomnum ólíkindum að við hefðum ekki hug á að fjárfesta í póstkortum þeirra og öðrum varningi. En hliðið var flott! Glæsilegar byggingar í kring, m.a. stór moska. Stöldruðum við nokkra stund, klifum hliðið og skoðuðum mannlífið.
Næst lá leiðin í safn og það ekki af minna taginu. Salar Jung safnið er svona sambland af Þjóðminjasafni og listasafni, þar ægir saman ótrúlegustu hlutum frá öllum heimshornum og allt of stuttur stans gerður til að hægt væri að skoða nema lítinn hluta á hundavaði. Eftir heimsóknina á safnið var haldið sem leið lá á hinn ágæta stað Coffeeshop Minerva, og snæddur léttur hádegisverður. Það verður að segjast um þennan stað að í hugann kom gamalt íslenskt orðtæki um dyggð undir dökkum hárum, því maturinn reyndist afar góður, þó útlitið væri ekki glæsilegt.
Nú kom á daginn að það var ekki út í bláinn að sett var eldsneyti á okkur, því næst var haldið út fyrir bæinn í Golconda virkið upp á hæð rétt utan við borgina. Þetta reyndust einkar glæsilegar virkisrústir, þarna höfðu greinilega margir hildir verið háðir enda aðstæður allar hinar bestu til manndrápa. Líka hérumbil manndrápspuð að klöngrast þarna upp, í rúmlega 30 stiga hita...
Komumst nú niður aftur að lokum, lítt sárir en ákaflega móðir. Þá var bara eitt stopp eftir og það af skrautlegra taginu. Við fórum semsagt í stórt hindúahof niður við vatnið sem er hér í miðri borginni og það var nú sjón að sjá. Hversu vitlaus sem manni finnast þessi trúarbrögð, þá verður ekki af þeim skafið að þau eru litrík og skrautleg. Margir guðir og gyðjur, með margskonar útlit og eiginleika. Miklar seremóníur og sjónarspil. Verst að maður varð að afhenda myndavélar og skó áður en heimilt var að fara inn á lóðina við hofið. Það voru svo þreyttir en ánægðir gagnasafnstjórar sem snæddu saman kvöldverð eftir frábæran dag.
Rafmagnshjólið og ég
Fyrir 2 mánuðum
Engin ummæli:
Skrifa ummæli