Ég tók ákvörðun í gær og stóð við hana í dag.
Ég er hættur að líta undan.
Það er stundum erfitt.
Bílstjórinn sem keyrði mig heim í dag varð hálf vandræðalegur þegar tárin fóru að leka niður kinnarnar á mér.
Iss. Skítt með það.
Ég er hættur að fela mig bak við litað glerið í bílnum.
Hættur að láta eins og ég sjái ekki.
Með vöndul af smáseðlum tilbúinn í vasanum.
Segi eins og skáldið: Það er honum auður sem er mér aska!
Ekki of stóra seðla, þá eru minni líkur á að úlfarnir hrifsi af þeim.
Kaupi mér bros, borga eina magafylli kannski.
Eða límtúbu sem gerir sultinn og nóttina bærilegri.
Hvað veit ég...
Vildi bara óska að ég gæti fundið aftur litlu stelpuna,
þessa með kornabarnið á handleggnum sem stóð og starði inn í bíl til mín.
Fundið hana, og sagt fyrirgefðu að ég lét eins og þú værir ekki til...
Mikið ofboðslega hlakka ég til að komast héðan.
Rafmagnshjólið og ég
Fyrir 2 mánuðum
Engin ummæli:
Skrifa ummæli