föstudagur, 29. febrúar 2008

Af því að oftast...

er betra að segja en þegja.

Af hverju að segja...

þegar hægt er að þegja?

Komin helgi aftur...

Vá hvað þetta líður. Ég verð orðinn fullorðinn áður en ég veit af...

Eða ekki.

Góða helgi eníveis.

fimmtudagur, 28. febrúar 2008

Svo sætt...

og svo satt.

miðvikudagur, 27. febrúar 2008

Dró til tíðinda í dag...







hjá ungum manni.

Fór að hugsa...

hvað algjört hæfileikaleysi má sín sorglega lítils gegn einbeittum brotavilja.

þriðjudagur, 26. febrúar 2008

Rosalega er ég orðinn leiður...

á þessu endalausa peningatali hálfa og heilu fréttatímana. Eru viðskiptafræðingarnir gjörsamlega að tröllríða öllu? Heljargreipar hagfræðinnar með kverkatak á samfélaginu? Skiptir ekkert lengur máli nema debet og kredit? Gróði og tap? Eru rétt og rangt bara gamlar lummur? Fallegt og ljótt, siðlegt og siðlaust? Hvar fór mannkynið eiginlega út af sporinu? Hvernig í ósköpunum dettur einhverjum í hug að lausn einhverra vandamála felist í að fólk kaupi fleiri bíla? Og já já ég veit. Þetta peningadrasl er nauðsynlegt... En það eru skólplagnir líka og ekki eru þær í fréttunum í tíma og ótíma. Það sem mér finnst leiðinlegast af þessu öllu eru samt þessar erkisens vísitölur fútshjú og nösin og hvað þær nú heita. Að heyra glaðhlakkalega fréttamenn og konur greina frá að fútsjú hafi hækkað um tvo punkta... Eða sorgbitna þulina segja frá lækkunum um 3 1/3 punkta á nösinni.
Hvernig væri að hætta þessu verðbréfavísitölublaðri og birta heldur vísitölur um hluti sem standa okkur nær og skipta ekki síður máli. Mér dettur í hug rómóvísitalan sem hækkaði í gær þegar ástfangið par sást kyssast í hellirigningu í Hljómskálagarðinum, eða Gúddívísitalan sem tók kipp upp um marga punkta í dag þegar fjórir menntaskólapiltar stóðu upp fyrir öldruðum konum í strætisvagni í borginni. Landsþekktir rómantíkerar svo í viðtölum um aðgerðir stjórnvalda til að sporna gegn lækkandi rómóvísitölu.
Sennilega ekki hægt að banna verðbréfamiðlara, en hvernig væri að gera þeim skylt að vera í górillubúningum í vinnunni?

Er í lagi að segja...

að manni finnist einhver skíthæll vera skíthæll.
Ef maður passar bara að segja ekki beint út að hann sé skíthæll?
Eru það kannski meiðyrði líka?

Þurfti að heyra þetta...

einhverra hluta vegna.

laugardagur, 23. febrúar 2008

Í dag leið mér eins...













og Karnavon lávarði hérna um árið þegar hann stóð í grafhýsinu og horfði á draslið.
Mér datt nefnilega í hug að fara í leiðangur og reyna að finna mér þægilegan stól. Leitin barst inn á risastóran loppemarked. Eina 4000 fermetra. Skil núna af hverju tekk er orðin fágæt viðartegund. Endalausar breiður af borðstofustólum. Haugar af sófasettum sem minntu mig á fílakirkjugarð. Og hægindastólar. Ógrynni af hægindastólum. Merkilega margir þeirra reyndar ískyggilega blettóttir, einna líkast og fyrri eigendur hefðu geispað í þeim golunni og fundist löngu seinna. Ég leitaði og leitaði, skoðaði og skoðaði. En allt kom fyrir ekki. Þeir sem mér leist á voru allt of illa farnir, og þeir sem voru sæmilega heillegir voru svo ljótir. Ætli ég endi ekki í KEA á morgun...

Á köldum og hvössum...

laugardagsmorgni, er voða notalegt að kúra og horfa á teiknimyndir með lítinn koll á öxlinni.
Jógúrtmettir feðgar, bolli af góðu kaffi og höggvið smá skarð í gríðarlegar smákökubirgðir heimilisins (ekki spyrja).
Hólí krapp! Geimgeitur á flugmótorhjólum! Hver finnur þetta stöff upp?

föstudagur, 22. febrúar 2008

Úff...

Hrapaði í ostaborðið í vinnunni í hádegismatnum.
Verða væntanlega fróðleg efnahvörf þegar hinar ýmsu ostmyglufjölskyldur koma saman í vömbinni. Merkilegt annars... ég henti mygluðum tómötum í vikunni, en háma svo í mig osta í svipuðu ásigkomulagi. Ekki samræmið hér frekar en fyrri daginn...

Skrilljón sjórekin súrhveli!

Var að átta mig á að það er hlaupár!
Fjárans...

fimmtudagur, 21. febrúar 2008

Einhverra hluta vegna...

fannst mér þetta SVO fyndið.

miðvikudagur, 20. febrúar 2008

Eins gott fyrir...

alla hlutaðeigendur að ég er ekki Jón Sigurðsson.

Ég hef þurft að éta...

eitt og annað ofan í mig um dagana. Nú er komið að einu ofaníátinu enn. Mér finnst nefnilega orðið ótrúlega gaman að hlaupa! Gamli antísportistinn sem aldrei hreyfði sig ótilneyddur, valhoppar nú á hlaupaskóm um kaupinhafnskar þorpagrundir og finnst það gott. Það er verulega góð tilfinning að finna þolið aukast. Smá lengja hlaupaleiðir, finna eftirköstin minnka og skrokkinn styrkjast. Það er líka ótrúlega gott fyrir heilatetrið að hvíla sig, fá viðeigandi tónlist í eyrun og finna hvernig skrokkurinn hleypur eins og vindurinn. Ja, hægur andvari að minnsta kosti.
Mæli með þessu!

þriðjudagur, 19. febrúar 2008

Mín persónulega afstæðiskenning.

Tíminn er eins og harmónikka. Þenst út og dregst saman sitt á hvað. Enginn stöðugleiki á þeim bænum!

mánudagur, 18. febrúar 2008

Hvað er hægt að gera...

þegar maður horfir upp á fólk skaða sig sjálft með þráhyggjuhegðun?
Fullorðið fólk sem veit að það er bara að meiða sjálft sig með þráhyggjunni,
en segist ekki geta hætt...
Hvað ef til dæmis einhver manni nákominn væri sífellt að skera í sig?
Mér vitanlega eru engin lög sem banna fólki að valda sjálfu sér áverkum.
En að horfa upp á fólk með handleggina flakandi í sárum er vont.
Hvað á maður að gera?
Reyna að fela alla hnífa?
Passa að leggja hvergi frá sér eggjárn?
Borða allt með skeiðum?
Varla raunhæft...
Kannski reyna að fá viðkomandi til að leita sér hjálpar?
Það getur nú verið þrautin þyngri.
Það er svo sem hægt að teyma hross að vatni en að þvinga það til að drekka er ógjörningur.

Er það ósanngjörn krafa að fullorðið fólk sem ekki er sjúkdómsgreint með geðsjúkdóma hafi stjórn á hegðun sinni? Verður fólk ekki að taka ábyrgð á sjálfu sér? Verður maður ekki á einhverjum tímapunkti bara að segja: gott og vel, ég gefst upp. Þú verður að eiga þessa skurði við sjálfa þig...

Það er vorlegt...

í dag við Eyrarsund. Sólarglenna og stilla.
Vildi óska að þessum vetri færi að ljúka.

sunnudagur, 17. febrúar 2008

Farinn aftur...

tíminn floginn.
Grátt framundan.
En samt...
Alltaf von!

fimmtudagur, 14. febrúar 2008

Ég hata kveðjustundir.

Í haust og vetur er ég búinn að kveðja ástvini mína oftar en ég kæri mig um að muna.
Það er alltaf jafn vont og venst ekki, versnar bara frekar.
Að vita ekki, hvort, hvar eða hvenær leiðir liggja aftur saman.
Tár á flugvöllum, bílastæðum eða í lyftum.
Ganga einn í burtu og reyna að láta ekki sjást að maður grætur.
Minnast hverfulleika lífsins og að öllu er skammtaður tími.
Tauta einhver fátækleg orð.
Ef við sjáumst aldrei framar vil ég að þú vitir...

Annars er auðvitað ekki til frumlegt bein í mínum skrokk.
Einhver annar búinn að segja þetta allt löngu á undan mér:

Timerne føles så korte
ingenting varer ved.
Mor jer nu godt, når jeg er borte
Jeg ønsker jer sange og kærlighed

Bag mig er misbrugte dage.
Foran mig noget jeg ikke ved.
I, som skal blive tilbage,
jeg ønsker jer sange og kærlighed.

Jeg rejser uden eskorte
og uden bitterhed.
Mor jer nu godt når jeg er borte
Jeg ønsker jer sange og kærlighed.



þriðjudagur, 12. febrúar 2008

Þessi heimur er...

að verða fáránlega lítill.
Ég er á Íslandi með krakkana. Í "hálffríi".
Áðan kom upp vandamál í einu kerfinu sem ég vinn við.
Kerfið sendi þá skilaboð til vöktunardeildar sem situr syðst í Indlandi.
Þau hringa í vaktnúmer í Danmörk. Það er áframstillt á símann minn sem er á Íslandi.
Ég tengist héðan inn á kerfið í Danmörku og laga það sem uppá kom. Sendi svo boð til Indlands, sem sendir boðin áfram til Shanghai í Kína þar sem notandinn sem lenti í vandræðum vinnur.
Allt ferlið tekur kannski 15 mínútur.
Lítill heimur?
Ójá!

mánudagur, 11. febrúar 2008

Af hverju líður...

tíminn svona hratt þegar manni líður vel en hægt þegar manni líður illa? Hvaða aulaskipulag er þetta? Hver stendur fyrir þessu og af hverju er þessu ekki snúið við?

laugardagur, 9. febrúar 2008

Það er margt verra...

en veðrið á Íslandi. Sit hérna í hlýju húsi og horfi á hríðina þyrlast fyrir utan gluggann.
Á þessari stundu er lífið gott. Þannig er það ekki alltaf og þess vegna reyni ég að grípa svona augnablik og njóta þeirra. Lífið er svo stutt. Og svo mörg augnablik sem eru ekki jafn notaleg og þetta.

föstudagur, 8. febrúar 2008

Jess!

Tid
Forv.
Til
Flyselskab
Flynr.
Term. Status SMS
12:15 12:15 Reykjavik Iceland Express FHE902

fimmtudagur, 7. febrúar 2008

Nú styttist í...

vetrarfrí. Það verður skemmtileg vika með krakkana á Íslandi.
Við erum öll svo spennt! Ömmur og afar og vinir og vandamenn í startholunum!

miðvikudagur, 6. febrúar 2008

Ef maður er...










stöðugt að berja hausnum við stein gerist annað tveggja, að steinninn brotnar eða hausinn.
Og þar sem steinninn er harðari en hausinn, eru líkurnar á hans bandi.
En maður er oft ótrúlega þrjóskur.
Þess vegna er svona grjót eins og á myndinni, út um allt...

mánudagur, 4. febrúar 2008

Varúð - hjárænuleg ljóðræna framundan!

Einn af fylgifiskum þess að búa í borg er að á hverjum degi sér maður alls konar myndir.
Ég veit svo sem ekki hvað minniskortið í hausnum á mér er mörg gígabæt, en sumar myndir er ekki hægt að delíta.
Ég sá grænlenska drykkjukonu í haust, hún festist í minninu og varð tilefni þessarar hjárænulegu ljóðrænu:

Grænlensk kona á bekk

Þarna siturðu
með gullölið greipt í lófann

Augun brostin

en þessir stoltu drættir við munninn
segja enn
hleypið mér út á ísinn
og ég mun bjargast

þú ert komin langt frá selum og björnum

situr með úlfum á bekk við Israels plads

þú verkar ekki lengur skinn af kóp
eða gerir fugla úr beinum...

Blndar fimlega í pípu í staðinn
ferð með glerin í genbrug...

Augun dauð

En þarna einhversstaðar á bakvið

lítil grænlensk stúlka
sem segir
hleypið mér aftur út á ísinn
og þá finn ég leiðina heim

Aftur í...

hversdagsleikann, sem er grárri og kaldari núna, en hann var bara rétt áðan.

laugardagur, 2. febrúar 2008

Ég sit núna...

á milli 2/3 hluta uppáhaldsfólksins míns á jörðinni.
Og þó víðar væri leitað!
Það er alveg óvont...

föstudagur, 1. febrúar 2008

Hver má svo sem...

vera að því að blogga á þessum síðustu og bestu tímum?