sunnudagur, 30. mars 2008

Stoltur pabbi í dag.

Dóttir mín var fermd í dag.
Hennar ákvörðun, hennar val, respektera það,
þó ég sé á öðru máli í eilífðarmálunum.
Veit svo sem ekki á hvað máli hún er heldur...
Hvað um það...
Hún var svo falleg og góð og stóð sig svo vel.
Ég er stoltari af þessari ungu konu en orð fá lýst.


laugardagur, 29. mars 2008

Skrítið hvað...

fyrirbæri á borð við mæjones getur komið mér í gott skap.
Einhver einkennileg hugsanatengsl.
Undarlega skilyrtur.
Smyrjið bara hangikjöt með mæjonesi,
og sjá, ég fer að slefa.

föstudagur, 28. mars 2008

Lífleg helgi framundan

Góðir gestir og krakkarnir hjá mér í nótt, líf og fjör bara.
Þessi helgi verður fljót að líða...
Óð fluga alveg.
Og svo styttist...

þriðjudagur, 25. mars 2008

Jæja er þá ekki gengið...

rokið upp aftur. Loksins þegar ég sá fram á
að geta tekið "fimmeyring einn fengi" atriðið
með mánaðarlaunin mín.

Ég hef óþyrmilega á tilfinningunni
að á bak við tjöldin séu einhverjir dúddar
sem spila á þetta örhagkerfi eins og mandólín.

Sá svo fyndna "frétt" á dögunum

Gluggagægir leggur frakkann á hilluna.

"Orðinn dauðleiður á að horfa á fólk að horfa á sjónvarpið"











Heimild The Onion (www.theonion.com)

mánudagur, 24. mars 2008

Sjónvarpsrannsóknir - Fyrstu niðurstöður

Ég er mikið búinn að reyna að horfa á sjónvarp í dag.
Það hefur gengið brösulega.
Ég hef þó gert nokkrar uppgötvanir sem ég ætla að deila
með báðum lesendum þessarar síðu.

Það er ekki til svo vesæll krókódíll í veröldinni
að um hann hafi ekki verið gerðir minnst tveir þættir
og þeir sýndir á Animal Planet, Discovery og NatGeo Wild.

Mythbusters hafa sýnt fram á að það er ekki til neins
að hoppa upp ef maður er í lyftu sem hrapar.

Júllurnar á J-Lo verða minna spennandi í hvert skipti
sem hún skekur þær í átt að linsunni.

Það er samið alveg ótrúlegt magn af leiðinlegu poppi í heiminum.
Og endalaust reynt að breiða yfir það með júlluskaki.

Guð er blankur og fulltrúar hans hér á jörð vilja að ég reddi því.
Núna. Strax. Með því að hringja. Núna.

Fari tveir í kapp vinnur annar nema þeir verði jafnfljótir.

Bílaframleiðendur nota ótrúlega marga pénínga í að auglýsa bílana sína.
Vita þeir eitthvað sem ég veit ekki?

Ef maður vill láta ameríkana hlaupa af stað,
á maður bara að öskra frííís!

Það er búið að framleiða svo margar seríur af America's next top model
að það verður að slaka á innflytjendareglum til að manna (kvenna?) næstu seríu.

Gæti haldið svona áfram í alla nótt, en stoppa hér, má ekki missa af Mythbusters.
Hvað ætli þurfi margar borðtenniskúlur til að lyfta skipi af hafsbotni?
Hei!
Hverjum er annars ekki rennislétt sama?

Enn ein kveðjustundin

Það er svo mikil gleði og hamingja á flugvöllum.
Við komufarþegahliðið.

Ég var ekki þar í morgun.
Ég var brottfaramegin,
stóð með tárin í augunum
og horfði á eftir ástinni minni.

Helgin búin að líða svo hratt.
Yndislegar stundir.
En alltaf samt þessi vitund
um að kveðjustundin færist nær.

Ástin mín hvað ég þrái heitt,
daginn þegar ég kem til þín
án þess að vera
með farmiða
burt frá þér aftur.

föstudagur, 21. mars 2008

Stundum finnst mér...

alveg ótrúlega mikið ofbeldi í þessum heimi.
Lítil takmörk fyrir hvað fólk er tilbúið
að láta heift og reiði og hatur teyma sig langt.
Sumt ratar á síður blaðanna og inn í fréttatíma.
Sérstaklega ef ofbeldið er myndrænt og sláandi.
Blóðpollar og brostin augu selja...
Svo hristir fólk höfuð í hryllingi,
horfir á börn í stríði skjóta og meiða önnur börn.
En á sama tíma, gerir upplýst, siðmenntað fólk
sín eigin börn að vopnum, til þess eins að meiða og særa.
Já, hatrið lifir góðu lífi.
Líka í vestrænum velmegunarhjörtum.
Og svo blæðir börnunum...

mánudagur, 17. mars 2008

Það er svo gott...

að hlæja með henni
gráta með henni
sjá hana brosa
segja henni allt
og ekkert
Hlusta á orðin hennar
andardráttinn
hjartsláttinn

Það er svo vont
að vera ekki hjá henni...

Það er hríðarmugga við Eyrarsund í dag.

Bara annað skiptið í vetur sem ég man eftir að sjá snjó.
Festir samt ekki á jörð, of hlýtt til þess.

Átti annars eins góða helgi og hægt er,
án þess að hafa ástina mína hjá mér.
Gerði skemmtilega hluti með krökkunum,
fórum í nýopnaðan Bakken og í dýragarðinn.
Sáum bavíana láta, ja eins og bavíana.
Ástfangnar skjaldbökur og margt fleira skemmtilegt.










Um leið og ég kvaddi þau í morgun fór svo að snjóa.
Það fer ágætlega við sálarlífið akkúrat núna.
Ég sakna elskunnar minnar óskaplega.
Ég hitti hana að vísu um páskana
en það er svo ofboðslega langt þangað til.
Fjórir dagar. Ekki mikið í jarðsögulegu samhengi.
En eins og mér líður núna eru fjórir dagar heil eilífð.

föstudagur, 14. mars 2008

Játning










Ég var svo lánsamur í haust
að kynnast konu sem er einfaldlega dásamleg.

Hún er óviðjafnanleg að vitsmunum.
Leiftrandi tilsvörin, taumlaust hugmyndaflugið,
haukfránt innsæið og kraumandi húmorinn
verða til þess að ég þarf virkilega að vera á tánum
til að vera ekki eins og auli við hlið hennar.

Svo er hún svo falleg og þokkafull
að ég stend meira og minna á öndinni.
Ég get gleymt mér tímunum saman við að horfa á hana
og jafnvel minnsta snerting sendir sæluhroll um mig allan.
Ég er ekki trúaður maður,
en eftir að ég hitti hana í fyrsta sinn og horfði í augun hennar,
hnoðaði ég saman morgunbæn sem ég fer oftar en ekki með þegar ég vakna.

Góði Guð!
Láttu hana vakna og opna augun
í dag og alla daga
Svo ég geti drukknað í þeim
í dag og alla daga.

Ég elska þessa konu takmarkalaust.
Það tók mig tæp 45 ár að finna hana, en þó það hefði tekið mig alla ævina,
hefði einn dagur með henni gert biðina þess virði.

Var að átta mig á...

þeirri einföldu staðreynd að dropinn holar steininn.

Nú ætla ég að skrifa um frestunaráráttu

Nei annars.
Geri það einhverntíma seinna.

Það eru þrjár hugsanlegar skýringar...

á ástandinu sem blasti við mér í morgun.

a) Súperman fékk magakveisu.

b) Pigs WILL fly and did!

c) Dúfur af áður óþekktri stærðargráðu sveima yfir Kaupmannahöfn að næturlagi.


Þið getið svo bara í eyðurnar...

* Flash update!
Sem ég sat og spekúleraði í bílaþvottastöðvum brast á úrhellisrigning!
Æðri máttarvöld?

fimmtudagur, 13. mars 2008

Sólarupprás

Mitt fyrsta verk, þegar ég vakna á morgnana
er að gá hvort sólin er komin upp.
Yfirleitt vakna ég fyrir sólarupprás
og það finnst mér afar gott.
Þá get ég notið þess
að sjá hvernig allt breytist,
þegar rósfingraða morgungyðjan mín fer á stjá.

Ég á mynd af sólarupprásinni,
ekki mjög góða, en samt...

Hér er hún:


þriðjudagur, 11. mars 2008

Maður velur sér ekki lesendur...

þegar maður skrifar á veraldarvefinn.
Ég velti stundum fyrir mér af hvaða hvötum fólk les það sem ég skrifa hér (ekki svo að skilja að það sé um einhvern gríðarlegan fjölda að ræða, þú sem þetta lest ert satt best að segja í afar exklúsívum klúbb!).

Ég veit um nokkra (einkum fjölskyldumeðlimi) sem lesa þetta blogg til að fylgjast með tíðindum í Danaveldi. Það er frekar dapurlegt, því meira sorrí fréttamiðill er vandfundinn.

Ég vona auðvitað að einhverjir líti hér inn og lesi af því þeim finnist það skemmtilegt (ok ok veit þetta er fáránlegt! Hér er einkum boðið uppá innistæðulaus yfirlætisdrýgindi og uppdubbaða aulafyndni, í bland við einfeldningslegar kornflexpakkafílósóferingar).

Flestir villast sennilega hingað fyrir slysni, sjá hvað hér er á seyði, forða sér og koma aldrei aftur. Afar skiljanlegt.

Og svo veit ég um örfáa sem koma hér inn, af því sem ég verð að kalla annarlegum hvötum. Ætla svo sem ekkert að segja um það, annað en að ég vorkenni þeim.

föstudagur, 7. mars 2008

Plástur á morgunsárið

Að vakna, setja kaffivélina í gang, mala baunir í fyrstu lögun dagsins, flóa mjólkina, sjá svart og gullinbrúnt kaffið dropa í bollann, hella mjólkurfroðunni saman við, nokkrir dropar af heimsins besta vanillusírópi...
Ahhhhh....

Komiði nú með helvítis köttinn!

fimmtudagur, 6. mars 2008

Þessi tilgangs og innihaldslausa færsla

er atkvæðafjöldans vegna ekki brúkleg
sem dæmi um hæku.

Man einhver eftir...

útvarpsþætti sem hét Ambindryllur og argspæingar?
Einhverra hluta vegna límdist nafnið í hausnum á mér, en ég man ekkert um hvað þetta snérist.

þriðjudagur, 4. mars 2008

Það snjóaði örlítið...

hér við Eyrarsund áðan. Það var gaman að fara út og hlaupa, allt orðið hvítt sem var grænt í gær. Þetta var samt bara smá föl, lifir varla nóttina, en allt er svo hvítt og hreint á meðan.

mánudagur, 3. mars 2008

Ætli það sé rétt...

að úlfur sem festir löppina í gildru, nagi hana í sundur til að losna?

Ég er að upplagi...

nokkuð bjartsýnn held ég. Gott ef ég er bara ekki með þetta íslenska veiðimannasamfélagsattitjúd.
Þetta reddast! Þetta verður allt í lagi! Okkur leggst eitthvað til á morgun...

Voða þægilegt hugarfar, sparar manni óþarfa áhyggjur og hingað til, að minnsta kosti, hefur allt reddast í lífinu.

En einstöku sinnum kemur fyrir að það liggur illa á mér, ég fæ vonleysistilfinningu og fer að hugsa neikvætt, hætti að trúa að hlutirnir gangi. Það getur verið þrautin þyngri að komast upp úr svona spíral. Ef að í kringum mig er svo fólk sem er fast í neikvæðni, reiði og hatri verður enn erfiðara að komast úr þessu ástandi.
En ég er svo heppinn að eiga góða að, fólk sem ég get talað við, þegið ráð, stuðning og uppörvun.
Það er til svo gott fólk í þessum heimi að ég hefði ekki trúað því, nema vegna þess að ég hef fengið að kynnast nokkrum svoleiðis.
Takk kæra fólk fyrir hjálpina!

Það er um margt hollt...

að vera aðskilinn frá því fólki sem er manni kærast, i lengri eða skemmri tíma. Maður lærir betur að meta, áttar sig á hvað maður vill og hvað skiptir máli, og svo eru endurfundirnir alveg ótrúlega góðir. Ekki þar með sagt að manni líði vel meðan aðskilnaðurinn varir. Ég sagði hollt, ekki gott...

laugardagur, 1. mars 2008

Svona um það bil...

sex og hálf milljón. Ég lifi þetta varla af!

Því sárar sem maður saknar...

því sælli verða endurfundirnir.