þriðjudagur, 23. febrúar 2010

Varúð, hér bloggar reiður ungur maður!



Ég fór í bíó í kvöld, með kærustunni, sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Við áttum eftir að sjá Milennium 3 og bættum úr því. Við vorum forsjál, keyptum miðana á netinu heima og svifum þess vegna fram hjá miðasölunni og inn og aftast í stóran hóp fólks sem beið eftir að hleypt yrði til salar. Runnum svo inn með skriðunni og fengum þokkalegustu sæti, aftarlega út á enda bekkjar. Allt í lukkunnar velstandi. En Adam (og Eva) voru ekki lengi í Paradís. Skömmu eftir að myndin hófst vöfruðu tvær konur á sextugsaldri inn í salinn hlaðnar poppi og gosi. Það var fátt um fína drætti í sætamálum, einu lausu sætin sem eftir voru, reyndust á fremsta bekk út við gang og þótti þeim stöllum það greinilega ekki boðlegt. Þær ráfuðu því út, en sneru von bráðar aftur með starfsmann sem rogaðist inn með stóla fyrir þær, plantaði þeim við hliðina á okkur og lét þær meira að segja hafa aukastól undir veitingarnar.
Nú hefði þessi færsla ekki orðið lengri, ef allt hefði verið með felldu í höfðinu á þessum konum, en ónei! Þær upphófu hrókasamræður, með flissum og bakföllum og virtust litla hugmynd hafa um að fram færi kvikmyndasýning í húsnæðinu og nærstaddir vildu heldur horfa á Lisbet og félaga en hlusta á innihaldslaust skvaldrið í þeim sjálfum. Unnustan (sem er kurteisin holdi klædd) benti þeim afar vinsamlega á að sýning kvikmyndarinnar væri hafin, en mætti fullkomnu skilningsleysi og allar götur fram að hléi hélt málæðið áfram, sleitulítið. Virtist einu gilda þó fólkið í kring sussaði eða hvessti á þær augu, blaðrið hélt afram sleitulítið. Í hléinu reyndi ég að hafa upp á starfsmanni til að bera fram kvörtun, en fann enga, aðra en stelpurnar í sjoppunni sem engin leið var að nálgast fyrir sælgætishungruðum bíógestum. Þessir mælskufossar komu svo auðvitað aftur í stólana nokkru eftir að sýningin var hafin á nýjan leik og tóku til óspilltra málanna. Það verður síðan að viðurkennast að heldur dró úr þvaðrinu, eftir því sem á leið myndina, hvort sem um var að kenna því að ég hvæsti á þær að hætta þessu andskotans blaðri eða að þær urðu uppiskroppa með umræðuefni. Hvað um það hef ég ekki, svo ég muni, upplifað annað eins tillitsleysi í bíó síðan ég sá strákana hrækja af svölunum í Gamla bíó fyrir margt löngu.
Það þarf svo ekki að taka fram að ég lagði trýnin á roðhænsnunum vandlega á minnið og mun sýna þeim ískalda fyrirlitningu verði þær á vegi mínum aftur.

fimmtudagur, 11. febrúar 2010

Kristinn Jón Guðmundsson


hefur einhverra hluta vegna verið mér hugleikinn í dag.

Það væri gaman að hitta hann aftur, þó ekki væri nema einu sinni.


*Vona að mér fyrirgefist myndarstuldurinn Elín

miðvikudagur, 10. febrúar 2010

Bráðum koma...


blessuð börnin mín.

Niðurtalning hafin...