Jæja, komið föstudagskvöld, fyrstu vinnuvikunni lokið og best að reyna að blogga.
Þriðjudagurinn var fyrsti vinnudagurinn minn hér í Hyderabad. Vaknaði á skikkanlegum tíma, fór niður og borðaði morgunmat með Peter vinnufélaga mínum frá Danmörk og fékk að vita hvernig hefur gengið hjá honum. Morgunmaturinn hér á Hótel Marriot er alveg sér kafli, örugglega svona 10 starfsmenn við hlaðborðið, hver með sitt verksvið. Eggjamaðurinn steikir eggjakökur eftir óskum hvers og eins. Djúsmaðurinn kreistir ávexti og blandar safa. Uppáhaldið mitt í augnablikinu er appelsínumangóananasblanda. Ávaxtamaðurinn brytjar ferska ávexti í munnbita. Brasarinn steikir beikon og pylsur og egg og bakar baunir. Bakarinn sér um brauðið. Svo eru amk tveir karrístjórar, morgunkornavörður, jógúrtmeistari og svona mætti lengi telja. Hrikalega flottur morgunmatur.
En svo tók nú alvara lífsins við.
Klukkutímaferð í leigubíl í vinnuna. Og allt sem ég hafði heyrt um umferðina hér er satt. Algjörlega klikkaður grautur af bílum, trukkum, mótorhjólum, geitum, beljum, fólki, uxakerrum, bara nefndu farartækið og þú finnur það einhversstaðar í þvögunni. Held ég hafi séð F-15 í einni hliðargötunni, gæti samt hafa verið MIG-23 erfitt að sjá það fyrir skítnum... Komst svo fljótlega ða því að umferðarreglur eru í besta falli fyrir annað fólk. Smáatriði eins og akreinar, akstursstefna, skilti og annað lauslegt skipta ökumenn hér nákvæmlega engu máli.
Ef maður getur troðið sér gerir maður það. Mér finnst stundum ég sé í svona teiknimyndabíl sem geti mjókkað og troðist í glufur, sem eru miklu mjórri en hann sjálfur. Peter er búinn að lenda í tveim minniháttar árekstrum og einni ákeyrslu á gangandi vegfaranda, sem hann hélt að hefði stórslasast. Bílstjórinn hans lét sig hverfa eftir ákeyrsluna. Hann birtist aftur eftir góða stund, hafði óttast að vinir hins slasaða berðu sig eða dræpu... Ég hef ekki lent í neinu ennþá, séð nokkrar klessur, en örugglega bara tímaspursmál...
Jæja, komst sem sagt í heilu lagi í vinnuna, sem er staðsett í risastóru nýju hátæknihverfi. Það er vandlega afgirt og mörg öryggishlið og tékk að fara í gegnum áður en maður fær að fara inn. Hér er allsstaðar verið að leita að sprengjum, enda eldfim blanda af múslimum og hindúum á svæðinu og verið að bomba annað veifið...
Jæja, ekki mikið að segja um vinnuna svo sem. Fínir strákar sem þeir hafa fengið, en ískyggilega fáir ennþá. Bara fjögur stykki og það er ekki nærri nóg. Við höfum ágætt fundarherbergi til umráða og allt sem við þurfum. Peter var kominn vel af stað með hópinn og nú er mitt að halda áfram og láta reyna á hvað þeir hafa lært. Þriðjudagurinn varð reyndar lengri en til stóð, kom upp vesen í kerfinu í Köben og við Peter fórum að hjálpa til að finna út úr hvað væri bilað. Komum seint heim á hótel, og ég hrundi í bælið of þreyttur til að gera annað en slafra í mig samloku áður en ég rotaðist.
Rafmagnshjólið og ég
Fyrir 2 mánuðum
Engin ummæli:
Skrifa ummæli