miðvikudagur, 31. október 2007

Sakbitni bleiknefjinn snýr aftur...

Segðu mér hvaða auðlindir þú átt og ég skal segja þér hver þú ert.

Íslendingar eru til dæmis ótrúleg lúxusdýr í orkumálum. Rafmagn og hiti kosta skít og ekki neitt. Notkunin endurspeglar það. Fyrir litla þjóð sem er nýskriðin út úr köldum, dimmum og rökum torfkofum er það ómótstæðileg freisting að skrúfa frá hitanum og kveikja ljósin, þó engum sé kalt og ekkert sé myrkrið, eða enginn til að sjá ljósið. Nóg til... Engar áhyggjur...

Hér á Indlandi er fólk helsta auðlindin. Vinnuaflið kostar skít og ekki neitt. Notkunin endurspeglar það. Fyrir stóra þjóð sem varð sjálfstæð um svipað leyti og Ísland er ómótstæðileg freisting að byggja, framleiða, markaðssetja, selja og neyta. Indverjar eru semsagt á hraðri leið inn í þessa vestrænu neysludýrkun, þar sem spekingarnir slá því fram að öll vandræði leysist, ef fólk bara kaupi fleiri bíla. Maður sér þess svo alls staðar merki hvað lífið er ódýrt. Kallarnir sem stóðu í húsgrunni sem ég keyrði framhjá í morgun voru með loftpressur í erg og gríð að brjóta klöpp. Hef gert svona sjálfur. Þetta er þrældómur, hávaði, ryk og ógeð. Þarna var hins vegar enginn með rykgrímu, hlífðargleraugu eða eyrnahlífar. Þegar kallagreyin eru orðin blind, heyrnarlaus eða lungnaveik er þeim bara hent og fengnir nýir. Nóg til... Engar áhyggjur...

Og þarna erum við kannski komin að kjarna þess sem mér finnst erfiðast að horfa uppá hér. Það er ef til vill fylgifiskur þess að hafa alist upp í örsamfélaginu íslenska, en ég get bara illa sætt mig við að fólk sé einnota, og bara fleygt eftir notkun eins og hverju öðru rusli.

Engin ummæli: