þriðjudagur, 23. október 2007

Þriðjudagur og ég þoli ekki við...

Fátæktin hérna fer hræðilega í mig... Og það sem mér finnst eiginlega verst er hvernig fólk bara sættir sig við algjörlega ómennskt ástand. Ég þarf vitaskuld ekki að kvarta. Keyri á morgnana af lúxushótelinu, þar sem allt sem hugurinn girnist er innan seilingar og stimamjúkt starfsfólkið snýst í kringum mig. Allt sem mér dettur í hug. Pizza með muldum örgjörvum? Sjálfsagt herra! Intel eða AMD? Má bjóa þér Dual Core 64 bita kannski...Vinnustaðurinn risastór loftkæld bygging, á lokuðu svæði, þar sem skríllinn fær ekki inngöngu. Vopnaðir verðir halda eymdinni úti. Allt slétt og fellt.
En það er hængur á. Ormur í eplinu. Maðkur í mysunni.
Bíllinn brunar ekki bara viðstöðulaust með mig á milli.
Stundum verður hann að stoppa í kraðakinu. Og þá koma þau.
Þessi grindhoruðu litlu börn. Með dauð augun og útrétta hendi. Benda þegjandi á munninn. Ná varla upp í bílrúðuna, halda samt sum á enn minni krílum á arminum. Leggja lífið undir, dansa dauðadans milli bílanna. Þú heldur kannski að þú hafir séð ballett. En það er sko ekkert borið saman við pírúetturnar og snúningana sem þessi litlu grey taka milli bílanna á götunni.
Og ég stari í hina áttina.
Fæ tár í augun og stari í hina áttina.
Veit að ég get engu breytt, að ef ég byrja..
Svo hreyfist umferðin og bíllinn brunar áfram...
Og ég fyrirlít sjálfan mig fyrir kjarkleysið, að ég skuli láta þetta viðgangast...
Og ég hugsa hvernig andskotans land býður börnum upp á svona og hvaða andskotans maður er ég að keyra bara framhjá og gera ekki neitt. Svo kem ég heim á hótelið, fer í ræktina, að glíma við ávexti óhófsins og ég sé bara þessi augu... þessi dauðu barnsaugu sem eiga enga von um neitt nema kannski þrauka daginn. Og nú sit ég hérna, saddur, hreinn og hef allt til alls og ég græt...
Græt af skömm því að ég ber hluta af ábyrgðinni. Af því heimurinn er ekki bara svona, heldur hef ég tekið þátt í að skapa hann og gera hann svona. Og á morgun sest ég aftur upp í bílinn, sigli í gegnum vesöldina, geri örugglega ekki neitt heldur þá, annað en fyrirlíta mig svolítið meir fyrir kjarkleysið...

Engin ummæli: