miðvikudagur, 31. október 2007

Sakbitni bleiknefjinn snýr aftur...

Segðu mér hvaða auðlindir þú átt og ég skal segja þér hver þú ert.

Íslendingar eru til dæmis ótrúleg lúxusdýr í orkumálum. Rafmagn og hiti kosta skít og ekki neitt. Notkunin endurspeglar það. Fyrir litla þjóð sem er nýskriðin út úr köldum, dimmum og rökum torfkofum er það ómótstæðileg freisting að skrúfa frá hitanum og kveikja ljósin, þó engum sé kalt og ekkert sé myrkrið, eða enginn til að sjá ljósið. Nóg til... Engar áhyggjur...

Hér á Indlandi er fólk helsta auðlindin. Vinnuaflið kostar skít og ekki neitt. Notkunin endurspeglar það. Fyrir stóra þjóð sem varð sjálfstæð um svipað leyti og Ísland er ómótstæðileg freisting að byggja, framleiða, markaðssetja, selja og neyta. Indverjar eru semsagt á hraðri leið inn í þessa vestrænu neysludýrkun, þar sem spekingarnir slá því fram að öll vandræði leysist, ef fólk bara kaupi fleiri bíla. Maður sér þess svo alls staðar merki hvað lífið er ódýrt. Kallarnir sem stóðu í húsgrunni sem ég keyrði framhjá í morgun voru með loftpressur í erg og gríð að brjóta klöpp. Hef gert svona sjálfur. Þetta er þrældómur, hávaði, ryk og ógeð. Þarna var hins vegar enginn með rykgrímu, hlífðargleraugu eða eyrnahlífar. Þegar kallagreyin eru orðin blind, heyrnarlaus eða lungnaveik er þeim bara hent og fengnir nýir. Nóg til... Engar áhyggjur...

Og þarna erum við kannski komin að kjarna þess sem mér finnst erfiðast að horfa uppá hér. Það er ef til vill fylgifiskur þess að hafa alist upp í örsamfélaginu íslenska, en ég get bara illa sætt mig við að fólk sé einnota, og bara fleygt eftir notkun eins og hverju öðru rusli.

mánudagur, 29. október 2007

Útvarp umferðarráðs!

Ókei, ég ætla að taka sénsinn á að hljóma eins og ég sé orðinn 100 ára.
Muniði Óla H. Þórðar? Hét hann það ekki, kallinn sem brosti drengjalega milli þess að hann miðlaði föðurlegum umvöndunum um umferðarmál og aksturslag? Ég vona heitt og innilega að hann hafi aldrei farið til Indlands. Getur reyndar ekki verið, hann hefði komið heim í spennitreyju, froðufellandi og umlandi einhverja vitleysu og væri enn á stofnun.
Á vesturlöndum (vesturlöndum nær a.m.k.) hafa verið settar reglur um umferðina og það sem meira er, þeim er framfylgt með viðurlögum og talsverð brögð að því, að eftir þeim sé farið.
Víkur nú sögunni til Hyderabad á Indlandi suður.
Hér er sko allt annað uppi á teningnum. Ég veit ekki hvort til eru einhverjar umferðarreglur hér. Efast stórlega um að svo sé, en ef þær eru til, er það nú sennilega meira svona til gamans, einhverskonar Indversk Fyndni í samantekt Ganesh frá Shivamaparan. Lesið á kvöldvökum fólki til skemmtunar og yndisauka. Absúrdhúmorískir gullmolar á borð við Biðskyldu, akreinar, hraðatakmarkanir eða réttindi fótgangandi hljóta að framkalla langar hlátursrokur og kannski stöku tár þegar fólk minnist Nareesh frænda, sem varð fyrir vörubíl sem kastaði honum á beljuna sem varð honum að aldurtila.
Ástæða þess að ég skrifa þetta er að í kvöld keyrði um þverbak.
Hmm, viðeigandi orðalag, en meira um það seinna. Ég eyði um þessar mundir tæpum tveim tímum á dag í indverskum leigubílum. Ef vel gengur. Er óðum að verða efni í álitsgjafa um indversk umferðarmál. Reyndar kemur allt sem hægt er að segja um indverska umferð fram í laginu góða: "Run to the hills, run for your life..."
Þetta var nú útúrdúr.
Flestir leigubílarnir eru svipaðir, litlar smádósir oftast hvítar, frá Tata verksmiðjunum. Þeir eiga það líka flestir sammerkt að vera dældaðir og beyglaðir allan hringinn, demparar hafa verið fjarlægðir og hengt á þá allskonar glingur (gæti líka hafa krækst af vegfarendum). Bílstjórarnir virðast svo flestir hafa þróast úr villimennsku í geðveiki, án hinnar venjulegu viðkomu í normalinu (Hér sjá nú glöggir lesendur fingraför Óskars). Venjuleg ferð samanstendur af nokkrum þáttum. Maður reynir fyrst að gera bílstjóranum skiljanlegt hvert leiðinni er heitið, það kemur svo í ljós á seinni stigum fararinnar hvort það tókst. Á leiðarenda er maður hins vegar oftast orðinn svo hræddur að manni er alveg sama hvert maður er kominn, bara ef maður kemst út úr bílnum. Nú tekur við tryllingsleg þeysireið yfir stokka og steina, fólk og fénað, tré og búnað, já, bara allt sem verður fyrir. Bílstjórinn í kvöld náði reyndar nýjum hæðum. Eða lægðum...
Þegar ég settist upp í bílinn kveikti hann á tveim reykelsum, sem hann stakk í gat á mælaborðinu, kveikti á útvarpinu og setti í botn og setti svo í botn.
Hófst nú þvílíka þeysireiðin!
Ég veit ekki hversu oft við nudduðumst utan í aðra bíla. Það var oft! Bara aftanákeyrslurnar skiptu tugum! Einum 5 sinnum sá ég ekki betur en ógæfusamt skellinöðrufólk fyki útaf veginum vegna ofsaakstursins. Einn fótgangandi vegfarandi gerði þau mistök að reyna að fara yfir götu með þennan berserk í grennd. Hann slapp næstum. Næstum! Afturfóturinn var aðeins of seinn og búmm...
Ég sá í gegnum afturrúðuna að maðurinn hoppaði á annarri og hélt um hina, veit ekki hvort hann var mikið eða lítið brotinn eða hvað. Bíllinn bara brunaði burt og engin leið að ná neinu sambandi við stjórnandann.Þegar ég kom heim á hótel voru kjálkarnir svo samanbitnir að það þurftir heita bakstra til að ég gæti opnað munninn aftur.
Fyrir næstu ferð er ég að hugsa um að panta svæfingu...

sunnudagur, 28. október 2007

Enn af laugardegi..

Það gekk ýmislegt á þennan laugardag hér í Hyderabad.
Þegar ég lak út af rakarastofunni, eftir höfuðnuddið mikla, leiddi bílstjórinn mig yfir götuna eins og lítið barn og lagði mig í aftursætið í bílnum.
Þegar hann spurði svo hvert ég vildi fara næst er ég eiginlega alveg viss um að ég stundi bara:
Á næstu rakarastofu takk.
Eitthvað tók hann nú vitlaust eftir og keyrði mig í staðinn í minjagripaverslun.
Sagði ég minjagripaverslun?
Ég meina sko MINJAGRIPAVERSLUN!
Þegar ég var ungur drengur að alast upp í Kópavoginum, las ég meðal margs annars 1001 nótt.
Margar af týpunum úr þessum ágætu sögum eru minnisstæðar, en þó ekki síst sölumaðurinn slyngi, sem í bókmenntunum seldi gjarnan teppi, lampa, nú eða úlfalda.
Í nútímanum hefur þessi manngerð hins vegar haslað sér völl í minjagripageiranum og þarna hitti ég loksins fyrir mann sem gæti hafa gengið út úr 1000 ára gamalli sögu og beint inn í Bazar Al Hrejbadi án þess að depla auga. Hussein vinur minn er sko vafalaust úlfaldasali í 100 ættliði.
Nú er rétt að taka fram að ég hef ekki betur séð en lítill skortur sé á minjagripum af ýmsu tagi hér í borg. Hefur heldur sýnst, að það vanti kaupendur að góssinu, en eftir að hafa komist í tæri við Hussein sölumann, er ég ekki frá því að hinir fjölmörgu kaupendur séu bara uppteknir heima við að raða haugum af glingri í hillurnar.
Ekki var nú verslunin ógnar stór, en afar vel skipulögð eins og íslenskur fasteignasali mundi orða það. Og það kenndi margra grasa. Margt eigulegra muna, ekki vantaði það. Ég held samt, eftir á að hyggja, að ég hafi þarna orðið fórnarlamb lævíslegs samsæris, fyrst laminn hálf rænulaus og svo teymdur til skransala sem þurfti að losna við fyrningar fyrri áratuga. Ekki var nú samt ágengninni fyrir að fara hjá Hussein vini mínum. Aldrei heyrði ég hann segja svo mikið sem: A verrí spesjal præs for jú mæ frend eða neitt í líkingu við það. En ekki brást, að ef mér varð á að gjóa augum á eitthvað af herlegheitunum, dúkkaði hann upp við olnbogann á mér og útskýrði lágmæltur og hraðmæltur hvílíkt öndvegishráefni, og eiginlega með öllu ófáanlegt, hefði verið notað við gerð þessa grips, sem væri sannkölluð konungsgersemi, enda smíðað af höfuðsnillingi og lykilpersónu í indverskri handverkssögu. Ekki minnst á verð hinsvegar. Ef mér varð á að spyrja hvað eitthvað kostaði, var svarið bara: Á eftir, ræðum það á eftir!
Fyrr en varði var ég svo búinn að tína hálfa búðina niður úr hillum og raða á borð. En nú var farin að renna af mér mesta vönkunin og dómgreindin eitthvað að reyna að ræskja sig, svo ég sagði stopp og hingað og ekki lengra og hættu nú og kannski bara eina slæðu enn og ekki meir ekki meir. En allt kom fyrir ekki. Það var ekki fyrr en ég greindi frá hver væri heimildin á kortinu mínu að Hussein lét sér segjast og bauð mér sæti. Hófust nú samlagningar. Mér var fært te, sterkt með keim af kardimommum (og vafalaust róhypnóli), til að drekka meðan Hussein fyllti hverja síðuna af annarri í stórri stílabók af vörulýsingum og talnadálkum. Aðstoðarmaður hans sló jafnóðum inn fjárhæðirnar á stórgerða reiknivél og hýrnuðu þeir félagar með hverjum slættinum. Að lokum voru þeir þó búnir að slá allt inn sem hægt var að slá og rann nú upp ögurstundin. Skrifuð upphæð á miða og rennt til mín yfir borðið. Jafnvel í gegnum Róhypnólþokuna sá ég að fyrir þessa upphæð mætti kaupa meðalstórt Afríkuríki, eða 18 þingsæti í Dúmunni. upphófust nú athyglisverðar samræður.

Íslenskur viðskiptavinur=í Kaupahéðinn=k

Í: Ertu algerlega snarbilaður maður! Dettur þér í hug að ég borgi þessa þvælu?
k: المجال ومخرجاتها البحوث
í: Mamma þín og úlfaldinn sem hún átti þig með hafa verið náskyld greinilega!
k: الباحث الإداري العربي في عصر
í: já kannski annan bolla takk...
k: وبصيغة جامعات جديدة أو بصيغ
í: (nokkru síðar) Já þetta er fínt vinur og ég skal svo bara giftast móðursystur þinni
k: المجال ومخرجاتها البحوث الإدارية، ومضمون ما ورد ما هو إلا سرد
للمبررات والحجج بضرورة استقبال الدول النامية الاستثمار الأجنبي المباشر
في التعليم العالي وبصيغة جامعات جديدة أو بصيغ التعاون بين لجامعات
الأجنبية مع الجامعات في الدول النامية لغرض تلبية
í: Taktu bara veskið, getur sett restina á hin kortin.
k: المنتشرة عبر العالم النامي

Um þetta bil sofnaði ég, og þegar ég vaknaði lá ég í rúminu á hótelinu mínu, og skeggjuð eldri kona í svörtum kufli var að gramsa í skúffunum. Ég stökk framúr, en datt um haug af innkaupapokum, sem lágu út um allt.
Þegar ég stóð upp var hún horfin, eins og vegabréfið mitt og fleira smálegt.
En það er allt í lagi, ég á nefnilega núna mikið safn indverskra listmuna...
frá Taiwan.

Meira um laugardaginn...


Að loknum tannkremskaupum lá leiðin á indverska rakarastofu. Ég var orðinn heldur lubbalegur og kominn tími á skerfarann. Þetta varð alveg ný reynsla fyrir mig. Leiðin lá á litla stofu, tveir stólar, indverji í öðrum að fá klipp, tveir rakarar og hópur af eldri körlum, sem sátu og horfðu af mikilli athygli á einhverja Bollywood karatehetjusápu, já eða raksápu kannski. Datt nú samt allt í dúnalogn þegar bleiknefjinn sakbitni gekk inn, svo var útskýrt að klippingar væri þörf og mér boðið að setjast í stólinn...
Upphófst nú klippingin. Beitt var svakalega stórum og hárbeittum skærum og greiðu. Mér leist nú eiginlega ekki á blikuna, því rakarinn vildi augljóslega ógjarnan fara á mis við karatekempuna slyngu, sem sparkaði mann og annan í herðar niður án þessa að blása úr nös og brast svo í söng milli bardaganna. Á tímabili var ég viss um að ég myndi kveðja þá félagana með færri eyru á höfðinu en ég kom með til þeirra, en það reyndist nú ástæðulaus ótti. Klippingin fór fram af stakri nærgætni og útkoman bara eins góð og hugsast gat í ljósi hins hraklega hráefnis sem rakararæfillinn hafði úr að moða.
En ekki var nú allt búið þó klippingunni væri lokið. Nú var spurt, með aðstoð túlks, hvort mætti ekki bjóða mér indverskt höfuðnudd. Minnugur orða Oscars Wilde* lét ég til leiðast og sá ekki eftir því. Afþakkaði þó olíubað að svo stöddu. Upphófst nú nuddið. Fyrst í stað varlega, beitt fingurgómum og þreifað fyrir sér. Rakarinn fann nú fljótt að þessi vestræna höfuðskel var í þykkara lagi og herti þá heldur betur róðurinn, bankaði og sló ótt og títt, ýmist með flötum lófa eða krepptum hnefa. Og nei, þetta var ekki eins slæmt og það hljómar. Hann hafði eitthvert lag á að fara alveg að mörkunum en ekki yfir þau. Það kom svo í ljós að höfuð er skilgreint fremur rúmt á indverskum rakarastofum, því nuddið færðist niður á háls og axlir, niður eftir baki og síðum, og svo voru handleggirnir teknir í gegn líka, alveg fram í fingurgóma. Hann hætti sér hins vegar ekki niður fyrir belti, enda eins gott. Óvíst hvernig það hefði endað, eftir einlífið hér. Þegar hér var komið sögu hélt ég að nú væri þessu ágæta nuddi lokið og var bara sáttur við það. En ekki aldeilis. Í stað þess að hleypa mér úr stólnum dró rakarinn frá Hyderabad fram tæki sem minnti mig nú bara einna helst á kollega hans Sweeney Todd. Þetta var tröllvaxinn titrari, eða vibrator eins og stundum mun sagt, tveggja handa tól, einan líkast og sjá má hér:
Neðan á þetta verkfæri var svo búið að skeyta þykkum svampplatta svona eins og klipptan úr svampfrakka. Með þessu var ég svo juðaður fram og aftur, upp og niður og allt um kring.
Byrjað á hvirflinum og unnið út frá því.Og vitiði krakkar, það má sko alveg venjast þessu! Næst þegar ég fer í indverskt höfuðnudd er ég meira að segja að spá í að vera svo djarfur að biðja um kókosolíuna með.

* Sá sem
prófar einu sinni er vísindamaður, ef hann gerir það aftur, þá er hann pervert.

laugardagur, 27. október 2007

Laugardagur og lífið ekki sem verst...

Jæja. Nóg komið af heimsósóma og angist í bili held ég.
Vinir og vandamenn fara að hafa áhyggjur með þessu áframahaldi.
Og það er nú engin ástæða til þess.
Það er margt sem veldur því að hér líður manni stundum eins og geimveru sem er lent á ókunnugri plánetu, þar sem allt er næstum eins og heima, en þegar betur er gáð, rekur maður sig á að sólin er græn og grasið blátt.
Dæmi:
Í dag vantaði mig tannkrem. Bara eitt við því að gera. Ég lét aka mér í kaupfélagið. Þar kenndi ýmissa grasa. Bókstaflega! Svo margt til, en í tannkremsdeildinni bara þetta:
Já við erum að tala um Dental Cream frá Himalaya Herbals.
Með 100% Herbal Actives (Hvað sem það nú er).
Engin Kolgeit hér takk! Eða Sensódæn eða hvað þetta nú heitir.
Á umbúðunum segir orðrétt:
A unique formulation of natural ingredients that provide complete and lasting protection to your gums and teeth. Neem fights germs. Pomegranate tightens gums to close gaps where food particles collect and decay. Meswak and Babool prevent bleeding of gums. (Leturbreytingar ekki mínar)

Og já ég vissi þú mundir spyrja. Það lítur svona út:
Og nei, ef maður slekkur bara ljósið er þetta fínt.
Veit samt ekki alveg með Babool og Neem. Pomegranate og Meswalk hljómar bara vel, en að setja eitthvað með Babool og Neem í munninn á mér er ofurlítið ógnvekjandi.
Á morgun er ég að hugsa um að fjalla um íburðinn og lúxusinn og vitleysuna hér á hótelinu. Safna mynddæmum í fyrramálið.
Stay tuned!

föstudagur, 26. október 2007

Föstudagur og fækkar vikum hér...

Nú má enginn skilja mig svo að Indland sé einn allsherjar harmur og helvíti á jörð.
Alls ekki!
Hér er fullt af fallegum og góðum hlutum.
Gott og glatt fólk, sem reynir að sjá sér farborða af miklum dugnaði.
Ótrúleg litadýrð. Frábær matur. Náttúrufegurð, saga og menning.

En mér finnst bara svo sjálfsagt að lítil börn fái að borða.
Það á ekkert að þurfa að ræða það.
Ef eitt barn sveltur, er það einu barni of mikið.
Og ég bara nenni ekki að bíða eftir að frjáls markaðsbúskapur,
eða hvaða hagfræði það nú er, sem er efst á baugi í dag, leysi málin.

Í dag er áætlað að 850.000.000 manns svelti í heiminum.
Áttahundruð og fimmtíu milljónir!
Á hverjum degi deyja um 16.000 börn beint og óbeint úr hungri.
Sextánþúsund börn!
Það er barn á fimm sekúndna fresti.
Teldu rólega upp í fimm. Á meðan sveltur eitt barn í hel.
Teldu aftur upp í fimm. Nú deyr annað barn vegna vannæringar.
Á fimm sekúndna fresti.
Allan sólarhringinn.
365 daga á ári.

Ég setti inn nokkra linka hér uppi horn hægra megin.
Já, þarna þar sem stendur "Og hvað getur maður gert?"
Ef þú ert ekki aflögufær, þá það.
En ég held að fólk sem hefur efni á tölvu og nettengingu,
hljóti að vera aflögufært um eitthvað.
Sjáiði bara á vef ABC hvað hægt er að gera fyrir 2.000 krónur á mánuði.
Það er hægt að kaupa líf með reisn, framtíð, menntun og öryggi barns fyrir þessa upphæð.
Hvað þarft þú að neita þér um, til að geta borgað svona?

Það deyja líka fjölmörg börn úr niðurgangi, sem er hægt að lækna fyrir örfáar krónur.
Máltíð á dag fyrir götubarn í Rio kostar kannski 20 krónur.

Auðvitað veit ég að sum ykkar gera nú þegar eitthvað í málunum. Takk fyrir það!
En þið hin...
Er ekki eitthvað hægt að gera?

fimmtudagur, 25. október 2007

Fimmtudagur og heimferðin færist nær...

Ég tók ákvörðun í gær og stóð við hana í dag.
Ég er hættur að líta undan.
Það er stundum erfitt.
Bílstjórinn sem keyrði mig heim í dag varð hálf vandræðalegur þegar tárin fóru að leka niður kinnarnar á mér.
Iss. Skítt með það.
Ég er hættur að fela mig bak við litað glerið í bílnum.
Hættur að láta eins og ég sjái ekki.
Með vöndul af smáseðlum tilbúinn í vasanum.
Segi eins og skáldið: Það er honum auður sem er mér aska!
Ekki of stóra seðla, þá eru minni líkur á að úlfarnir hrifsi af þeim.
Kaupi mér bros, borga eina magafylli kannski.
Eða límtúbu sem gerir sultinn og nóttina bærilegri.
Hvað veit ég...
Vildi bara óska að ég gæti fundið aftur litlu stelpuna,
þessa með kornabarnið á handleggnum sem stóð og starði inn í bíl til mín.
Fundið hana, og sagt fyrirgefðu að ég lét eins og þú værir ekki til...

Mikið ofboðslega hlakka ég til að komast héðan.

miðvikudagur, 24. október 2007

Miðvikudagur og mæðan þrjóskast við..

Jæja. Skárri en í gær. Samt enn svolítið dapur. Stundum er kannski bara betra að eiga draum, en að láta hann rætast. Mig hefur langað til að koma til Indlands í mörg ár. Fannst það spennandi og framandi. Kynntist svo indverskum hjónum og fékk enn meiri áhuga. Kannski líka nasasjón af hversu framandi heimur þetta er... En svo skellur raunveruleikinn á manni og ekkert hefði getað undirbúið mig undir að sjá alla eymdina. Samt veit ég að hér í Hyderabad er skárra ástand en víðast hvar.
En jæja.
Ég tel dagana þangað til ég kemst heim.
Hvar sem það nú er...
En ég er búinn að ákveða eitt. Framvegis ætla ég ekki að horfa í hina áttina!
Ég er með vöndul af rúpíuseðlum í vasanum, skipti slatta í smáseðla, smápeningum á okkar mælikvarða og framvegis ætla ég að reyna að fá götubörn sem verða á vegi mínum til að brosa, bara augnablik. Held að það sé eins nærri því að kaupa hamingju fyrir peninga og hægt er að komast.

þriðjudagur, 23. október 2007

Þriðjudagur og ég þoli ekki við...

Fátæktin hérna fer hræðilega í mig... Og það sem mér finnst eiginlega verst er hvernig fólk bara sættir sig við algjörlega ómennskt ástand. Ég þarf vitaskuld ekki að kvarta. Keyri á morgnana af lúxushótelinu, þar sem allt sem hugurinn girnist er innan seilingar og stimamjúkt starfsfólkið snýst í kringum mig. Allt sem mér dettur í hug. Pizza með muldum örgjörvum? Sjálfsagt herra! Intel eða AMD? Má bjóa þér Dual Core 64 bita kannski...Vinnustaðurinn risastór loftkæld bygging, á lokuðu svæði, þar sem skríllinn fær ekki inngöngu. Vopnaðir verðir halda eymdinni úti. Allt slétt og fellt.
En það er hængur á. Ormur í eplinu. Maðkur í mysunni.
Bíllinn brunar ekki bara viðstöðulaust með mig á milli.
Stundum verður hann að stoppa í kraðakinu. Og þá koma þau.
Þessi grindhoruðu litlu börn. Með dauð augun og útrétta hendi. Benda þegjandi á munninn. Ná varla upp í bílrúðuna, halda samt sum á enn minni krílum á arminum. Leggja lífið undir, dansa dauðadans milli bílanna. Þú heldur kannski að þú hafir séð ballett. En það er sko ekkert borið saman við pírúetturnar og snúningana sem þessi litlu grey taka milli bílanna á götunni.
Og ég stari í hina áttina.
Fæ tár í augun og stari í hina áttina.
Veit að ég get engu breytt, að ef ég byrja..
Svo hreyfist umferðin og bíllinn brunar áfram...
Og ég fyrirlít sjálfan mig fyrir kjarkleysið, að ég skuli láta þetta viðgangast...
Og ég hugsa hvernig andskotans land býður börnum upp á svona og hvaða andskotans maður er ég að keyra bara framhjá og gera ekki neitt. Svo kem ég heim á hótelið, fer í ræktina, að glíma við ávexti óhófsins og ég sé bara þessi augu... þessi dauðu barnsaugu sem eiga enga von um neitt nema kannski þrauka daginn. Og nú sit ég hérna, saddur, hreinn og hef allt til alls og ég græt...
Græt af skömm því að ég ber hluta af ábyrgðinni. Af því heimurinn er ekki bara svona, heldur hef ég tekið þátt í að skapa hann og gera hann svona. Og á morgun sest ég aftur upp í bílinn, sigli í gegnum vesöldina, geri örugglega ekki neitt heldur þá, annað en fyrirlíta mig svolítið meir fyrir kjarkleysið...

Mánudagur og lítið markvert...

Vinna, borða, sofa...
Fátt annað í frásögur færandi. Jú! Gaman að leika sér að matnum...
Var búinn að gleyma því. En annars ósköp einn.

sunnudagur, 21. október 2007

Sunnudagur og sólin komin upp...

Svaf eins og steinn í alla nótt. Hefði varla vaknað þó moskan og mínarettan hefðu sprungið í loft upp. Vaknaði hress og dreif mig á hátíð. Kom í ljós að umferðin var skárri. Gekk vel að komast á staðinn, kom við og pikkaði upp dana frá vinnunni á leiðinni. Hann er á öðru hóteli og í annari deild og fer heim á miðvikudaginn. Lítið gagn í honum. Fínn náungi samt. Kom í ljós að hátíðin var mest stærðarinnar markaður, með alls konar indverskt handverk. Það voru engir aðrir en öðlingarnir í Shilparamam sem stóðu fyrir Vijay Jawan Mela en eins og allir vita þýðir það All India Handicrafts & Handlooms Expo. Þarna voru á að giska svona tíuþúsund sölubásar, með margvíslegan varning, sem allir áttu sameiginlegt að kaupmennirnir (og konurnar) höfðu mikinn hug á að efna til milliríkjaviðskipta og fannst með fullkomum ólíkindum að við hefðum ekki brennandi áhuga á að fjárfesta í borðstofuhúsgögnum úr kopar, útskornum tréfílum í fullri líkamsstærð og fleiri eigulegum munum. Létu þeir efasemdir sínar hiklaust í ljós og það með að alsendis óvíst væri að annað eins tækifæri ræki aftur á fjörurnar í þessu jarðlífi. Það var samt gaman að spígspora um og skoða, litadýrðin var ótrúleg og varningurinn afar margvíslegur. Það fór nú samt eins og áður, eftir svona þrjá tíma var áreitið bara orðið of mikið og ráð að koma sér heim á hótel. Dembdi mér bara í líkamsræktina, sé það rétt að líkaminn sé musteri, ja þá er ég að verða trúrækinn bara. Svo dundaði ég við að undirbúa morgundaginn og fram eftir næstu viku, fór niður og borðaði, kvöldverðarhlaðborðið gefur morgunmatnum sko ekkert eftir. Það var stór sigur andans yfir efninu að ég fór bara eina ferð. Labbaði svo út eftir matinn og horfði á mannflauminn liðast hjá smástund. Það var einhver trúarhátíð í dag og talsvert af vögnum og kerrum með blómum skreytta guðalíkneskjur á ferðinni. Verð að nefna eitt í sambandi við umferðina, hér fjölmennir fólk á mótorhjólum, ég hef mest séð fimm manna fjölskyldu á sama hjólinu. Oftast er það karlinn sem keyrir, börn eitt eða fleiri á milli og konan svo í hliðarsöðli aftast. Gerir umferðina afar litríka eins og meðfylgjandi sjóndæmi sýnir. Eitt enn, þó ég verði aldrei aftur á ævinni spurður How are you sir? mun ég ekki kvarta yfir því! Starfsfólkið hér á hótelinu er glórulaust kurteist, mér telst svo til að þegar ég kom til baka af markaðnum í dag hafi ég verið spurður einum ellefu sinnum hvernig ég hefði það í dag á leiðinni frá bílnum upp í herbergi.
Kvöldinu að mestu eytt í vinnu og þetta rafpár, fer sáttur að sofa og á amorgun byrjar ný vinnuvika.

Laugardagstregi en létti svo til...


Ekki besti dagur ferðarinnar til þessa. Svaf ekkert um nóttina. Uppsöfnuð ferðaþreyta, heimsangist, einsemd og kúltúrsjokk að plaga mig. Var svo næstum sofnaður undir morgun, en hrökk upp með andfælum þegar múslimskur bænakallari hóf upp raust sína úr mínarettu í grenndinni. Dreif mig samt út eftir morgunmat, en entist ekki lengi, átti bágt með að höndla hitann og athyglina. Aftur heim á hótel og fékk bílstjóra sem keyrði mig í verslunarhverfi, og beið meðan ég ráfaði hálf rænulaus um búðirnar...
Þetta var nú hálfgerð rússnesk búðarúlletta, en sem betur fer var ekkert svakalegt drasl í pokunum þegar ég rankaði aftur við mér á hótelinu. Dreif mig þá bara upp í ræktina, hljóp og hjólaði og lyfti smá. Munur að geta skotist þarna upp þegar manni dettur í hug. Greip svo til aðgerða, átti langt og gott spjall við vin á msn, klæddi mig svo upp og fór niður og borðaði fínan kvöldmat og frábært kvöldkaffi. Svo meira msn og snemma að sofa. Vaknaði í morgun einsog nýskitinn túnskildingur (svona sagði Björgvin bóndasonur alltaf) og er núna að fara á einhverskonar lókalfestival með indverjunum mínum. Livet er ikke det værste man har, og om lidt er kaffen klar.

föstudagur, 19. október 2007

Föstudagur og maður einsamall...


Jæja. Þá er Peter farinn heim til Danmerkur. Minn orðinn einsamall. Gekk vel í vinnunni svo sem, en skrítin tilhugsun, að umgangast bara indverja næstu vikurnar. Hef meiri tíma til að horfa í kringum mig og hugsa, einn í bílnum á leið í og úr vinnu. Og þá kemst maður ekki hjá að sjá þessa skelfilegu misskiptingu sem alls staðar blasir við. Hér býr svo margt fólk við aðstæður sem eru ólýsanlegar en inn á milli er ótrúlegur íburður og munaður. Bæði í gær og í dag varð bílstjórinn á leiðinni heim að taka á sig krók, vegna vegavinnu. Krókurinn var að hluta malarslóði í gegnum svæði, þar sem er búið að hrúga upp heilu hverfi af, ja við skulum segja kofum, ef hægt er að kalla bárujárnsstubb, pappa og segldúkspjötlu kofa. Bíllinn silaðist í gegn, stoppaði oft og beið í halarófunni, svo það var ekki hægt annað en sjá. Eitt hrófatildrið var alveg við slóðann og bíllinn stoppaði svo nálægt að ég hefði getað teygt mig í fólkið. Þarna, fyrir framan kofa án framhliðar, sat kona á hækjum sér og var að elda eitthvað. Hún var með ofurlítinn skaftpott og hélt honum yfir nokkrum brennandi sprekum, sem vörpuðu smá skímu inn í kofann. Þar sátu tvo börn, sem hefðu getað verið á aldur við mín. Veit ekki hvort heimilisfólkið var fleira, en heimilið var semsagt kassi, án framhliðar, kannski þrír fermetrar, og svo lágt til lofts að konan gat ekki setið upprétt inni. Aleigan virtist vera rýjurnar sem þau voru klædd í, potturinn, sprekin og það sem í pottinum var. Sá þessa fjölskyldu aftur kvöldið eftir, allt eins, nema það logaði enginn eldur í það skiptið.

Nú ligg ég hérna andvaka, í hreina mjúka rúminu í fína hótelherberginu mínu og ég get ekki hætt að hugsa um þau, og spyrja sjálfan mig, hverskonar heimur er það eiginlega sem ég hef tekið þátt í að skapa?
Og já, ég geri mér alveg grein fyrir að einhvers staðar er fólk sem hefur það enn verra, en ég sá bara einmitt þessa fjölskyldu, og á ekki eftir að gleyma þeim meðan ég lifi.

Fimmtudagur og veruleikinn bankar uppá...


Vaknaði upp með léttan kvíðahnút í maganum. Peter að fara heim í kvöld. Á eftir að vera hér einn í rúmar þrjár vikur. Ansi stífur vinnudagur, byrjaði með morgunverðarfundi hjá okkur Peter og svo unnið langt fram á kvöld. Rétt komst í ræktina, pantaði mat á herbergið og lognaðist útaf.

Miðvikudagur og allt annað upp á teningnum...

Nett spenntur þegar ég vaknaði. Fengum að vita í gærkvöld að þetta yrði frídagur í tilefni þess að Peter er að fara heim, og að við færum í óvissuferð. Indverjarnir sóttu okkur á hótelið upp úr tíu og höfðu fengið stærri bíl til ferðarinnar, jeppbifreið frá Tata verksmiðjunum, sem eru með ótrúlega markaðshlutdeild hér. Leiðin lá fyrst til Charminar, sem er helsta tákn borgarinnar, fornt mannvirki sem reist var 1591 til að fagna plágulokum. Þarna var mikið kraðak af fólki, margir betlarar og aðgangsharðir sölumenn, sem flestum fannst með fullkomnum ólíkindum að við hefðum ekki hug á að fjárfesta í póstkortum þeirra og öðrum varningi. En hliðið var flott! Glæsilegar byggingar í kring, m.a. stór moska. Stöldruðum við nokkra stund, klifum hliðið og skoðuðum mannlífið.
Næst lá leiðin í safn og það ekki af minna taginu. Salar Jung safnið er svona sambland af Þjóðminjasafni og listasafni, þar ægir saman ótrúlegustu hlutum frá öllum heimshornum og allt of stuttur stans gerður til að hægt væri að skoða nema lítinn hluta á hundavaði. Eftir heimsóknina á safnið var haldið sem leið lá á hinn ágæta stað Coffeeshop Minerva, og snæddur léttur hádegisverður. Það verður að segjast um þennan stað að í hugann kom gamalt íslenskt orðtæki um dyggð undir dökkum hárum, því maturinn reyndist afar góður, þó útlitið væri ekki glæsilegt.
Nú kom á daginn að það var ekki út í bláinn að sett var eldsneyti á okkur, því næst var haldið út fyrir bæinn í Golconda virkið upp á hæð rétt utan við borgina. Þetta reyndust einkar glæsilegar virkisrústir, þarna höfðu greinilega margir hildir verið háðir enda aðstæður allar hinar bestu til manndrápa. Líka hérumbil manndrápspuð að klöngrast þarna upp, í rúmlega 30 stiga hita...
Komumst nú niður aftur að lokum, lítt sárir en ákaflega móðir. Þá var bara eitt stopp eftir og það af skrautlegra taginu. Við fórum semsagt í stórt hindúahof niður við vatnið sem er hér í miðri borginni og það var nú sjón að sjá. Hversu vitlaus sem manni finnast þessi trúarbrögð, þá verður ekki af þeim skafið að þau eru litrík og skrautleg. Margir guðir og gyðjur, með margskonar útlit og eiginleika. Miklar seremóníur og sjónarspil. Verst að maður varð að afhenda myndavélar og skó áður en heimilt var að fara inn á lóðina við hofið. Það voru svo þreyttir en ánægðir gagnasafnstjórar sem snæddu saman kvöldverð eftir frábæran dag.

Fyrsti vinnudagurinn...


Jæja, komið föstudagskvöld, fyrstu vinnuvikunni lokið og best að reyna að blogga.
Þriðjudagurinn var fyrsti vinnudagurinn minn hér í Hyderabad. Vaknaði á skikkanlegum tíma, fór niður og borðaði morgunmat með Peter vinnufélaga mínum frá Danmörk og fékk að vita hvernig hefur gengið hjá honum. Morgunmaturinn hér á Hótel Marriot er alveg sér kafli, örugglega svona 10 starfsmenn við hlaðborðið, hver með sitt verksvið. Eggjamaðurinn steikir eggjakökur eftir óskum hvers og eins. Djúsmaðurinn kreistir ávexti og blandar safa. Uppáhaldið mitt í augnablikinu er appelsínumangóananasblanda. Ávaxtamaðurinn brytjar ferska ávexti í munnbita. Brasarinn steikir beikon og pylsur og egg og bakar baunir. Bakarinn sér um brauðið. Svo eru amk tveir karrístjórar, morgunkornavörður, jógúrtmeistari og svona mætti lengi telja. Hrikalega flottur morgunmatur.
En svo tók nú alvara lífsins við.
Klukkutímaferð í leigubíl í vinnuna. Og allt sem ég hafði heyrt um umferðina hér er satt. Algjörlega klikkaður grautur af bílum, trukkum, mótorhjólum, geitum, beljum, fólki, uxakerrum, bara nefndu farartækið og þú finnur það einhversstaðar í þvögunni. Held ég hafi séð F-15 í einni hliðargötunni, gæti samt hafa verið MIG-23 erfitt að sjá það fyrir skítnum... Komst svo fljótlega ða því að umferðarreglur eru í besta falli fyrir annað fólk. Smáatriði eins og akreinar, akstursstefna, skilti og annað lauslegt skipta ökumenn hér nákvæmlega engu máli.
Ef maður getur troðið sér gerir maður það. Mér finnst stundum ég sé í svona teiknimyndabíl sem geti mjókkað og troðist í glufur, sem eru miklu mjórri en hann sjálfur. Peter er búinn að lenda í tveim minniháttar árekstrum og einni ákeyrslu á gangandi vegfaranda, sem hann hélt að hefði stórslasast. Bílstjórinn hans lét sig hverfa eftir ákeyrsluna. Hann birtist aftur eftir góða stund, hafði óttast að vinir hins slasaða berðu sig eða dræpu... Ég hef ekki lent í neinu ennþá, séð nokkrar klessur, en örugglega bara tímaspursmál...
Jæja, komst sem sagt í heilu lagi í vinnuna, sem er staðsett í risastóru nýju hátæknihverfi. Það er vandlega afgirt og mörg öryggishlið og tékk að fara í gegnum áður en maður fær að fara inn. Hér er allsstaðar verið að leita að sprengjum, enda eldfim blanda af múslimum og hindúum á svæðinu og verið að bomba annað veifið...
Jæja, ekki mikið að segja um vinnuna svo sem. Fínir strákar sem þeir hafa fengið, en ískyggilega fáir ennþá. Bara fjögur stykki og það er ekki nærri nóg. Við höfum ágætt fundarherbergi til umráða og allt sem við þurfum. Peter var kominn vel af stað með hópinn og nú er mitt að halda áfram og láta reyna á hvað þeir hafa lært. Þriðjudagurinn varð reyndar lengri en til stóð, kom upp vesen í kerfinu í Köben og við Peter fórum að hjálpa til að finna út úr hvað væri bilað. Komum seint heim á hótel, og ég hrundi í bælið of þreyttur til að gera annað en slafra í mig samloku áður en ég rotaðist.

þriðjudagur, 16. október 2007

Kominn til Indlands bara...

Það var skrýtið að vera kominn til Indlands. Upplifði fyrsta sjokkið á flugvellinum í Amsterdam. Rosalega margir indverjar í röð að bíða eftir að fara um borð. Öðruvísi föt og skrýtið mál.

Flogið yfir Evrópu þvera, Hvíta-Rússland, Úkraínu, Kaspíahafið, Íran, Indlandshaf...

Horfði á Harry Potter og Fönixregluna. Meðan ég horfði á Askaban flaug ég yfir Astrakhan...

Svo var skipt yfir í Bollívúddmynd og þá glaðnaði heldur betur yfir liðinu.

Flugvöllurinn í Hyderabad var svifaseinn, margt fólk, biðraðir og öryggiseftirlit.

Hélt að taskan mín væri týnd, en hún kom nú út að lokum.

Rosaskrýtið að koma út, heitt, 25 stig kl. hálf þrjú um nótt, og haf af brosandi brúnum andlitum... Svo var gripið í mig og maður spurði hvort ég vildi taxi. Hann leit ekki bófalega út, svo ég sagði já.

Hann teymdi mig burt, langan spotta, bak við hús og framhjá fullt af gömlum bíldruslum.

Mér leist nú ekki á blikuna þegar hann stoppaði við mestu drusluna á stæðinu, beygluð og ryðguð smádós frá Tata og bundin saman með snæri. Svo tróð hann töskunni í skottið opnaði hurðina og ég settist inn...

Hann keyrði býsna greitt um ískyggileg hverfi, en sem betur fer var búið að segja mér að það væru skuggaleg hverfi á leiðinni á hótelið, annars hefði mér ekki staðið á sama...

Hótelið reyndist svo vera rosa flott. Mikil öryggisgæsla. Lokað hlið öryggisverðir og sprengjuleit til að komast inn á stæðið, dyravörður í þjóðbúning, brosandi starfsfólk um miðja nótt og allt voða flott.

Var nú samt frekar fljótur að sofna í fína rúminu.