þriðjudagur, 16. október 2007

Kominn til Indlands bara...

Það var skrýtið að vera kominn til Indlands. Upplifði fyrsta sjokkið á flugvellinum í Amsterdam. Rosalega margir indverjar í röð að bíða eftir að fara um borð. Öðruvísi föt og skrýtið mál.

Flogið yfir Evrópu þvera, Hvíta-Rússland, Úkraínu, Kaspíahafið, Íran, Indlandshaf...

Horfði á Harry Potter og Fönixregluna. Meðan ég horfði á Askaban flaug ég yfir Astrakhan...

Svo var skipt yfir í Bollívúddmynd og þá glaðnaði heldur betur yfir liðinu.

Flugvöllurinn í Hyderabad var svifaseinn, margt fólk, biðraðir og öryggiseftirlit.

Hélt að taskan mín væri týnd, en hún kom nú út að lokum.

Rosaskrýtið að koma út, heitt, 25 stig kl. hálf þrjú um nótt, og haf af brosandi brúnum andlitum... Svo var gripið í mig og maður spurði hvort ég vildi taxi. Hann leit ekki bófalega út, svo ég sagði já.

Hann teymdi mig burt, langan spotta, bak við hús og framhjá fullt af gömlum bíldruslum.

Mér leist nú ekki á blikuna þegar hann stoppaði við mestu drusluna á stæðinu, beygluð og ryðguð smádós frá Tata og bundin saman með snæri. Svo tróð hann töskunni í skottið opnaði hurðina og ég settist inn...

Hann keyrði býsna greitt um ískyggileg hverfi, en sem betur fer var búið að segja mér að það væru skuggaleg hverfi á leiðinni á hótelið, annars hefði mér ekki staðið á sama...

Hótelið reyndist svo vera rosa flott. Mikil öryggisgæsla. Lokað hlið öryggisverðir og sprengjuleit til að komast inn á stæðið, dyravörður í þjóðbúning, brosandi starfsfólk um miðja nótt og allt voða flott.

Var nú samt frekar fljótur að sofna í fína rúminu.

Engin ummæli: