miðvikudagur, 24. október 2007

Miðvikudagur og mæðan þrjóskast við..

Jæja. Skárri en í gær. Samt enn svolítið dapur. Stundum er kannski bara betra að eiga draum, en að láta hann rætast. Mig hefur langað til að koma til Indlands í mörg ár. Fannst það spennandi og framandi. Kynntist svo indverskum hjónum og fékk enn meiri áhuga. Kannski líka nasasjón af hversu framandi heimur þetta er... En svo skellur raunveruleikinn á manni og ekkert hefði getað undirbúið mig undir að sjá alla eymdina. Samt veit ég að hér í Hyderabad er skárra ástand en víðast hvar.
En jæja.
Ég tel dagana þangað til ég kemst heim.
Hvar sem það nú er...
En ég er búinn að ákveða eitt. Framvegis ætla ég ekki að horfa í hina áttina!
Ég er með vöndul af rúpíuseðlum í vasanum, skipti slatta í smáseðla, smápeningum á okkar mælikvarða og framvegis ætla ég að reyna að fá götubörn sem verða á vegi mínum til að brosa, bara augnablik. Held að það sé eins nærri því að kaupa hamingju fyrir peninga og hægt er að komast.

Engin ummæli: