miðvikudagur, 31. desember 2008

Æ, það var kennt mér...

þegar ég var krakki að maður ætti að vera góður við hunda og aumingja.
Ég er þess vegna hættur að vera brekkusnigill.

Þetta ár sem er að líða hefur verið mér ólýsanlega gott, en líka stundum svo sárt.

Þeim sem hingað villast óska ég alls góðs, eigi þeir það skilið.

Matarrýni

Ég held að það sé við hæfi að ég setji hér færslu á bloggi mínu um veitingahúsarýni.
Í nýlegri för minni til miðbæjar Reykjavíkur gafst mér óvænt kostur á að prófa einn af kunnari veitingastöðum borgarinnar. Þetta var auðvitað hinn geypivinsæli staður Bæjarins bestu.
Ekki þarf að orðlengja að ég pantaði tvöfaldan Clinton og varð ekki svikinn af þeim trakteringum þó engin væri Hilaryin. Að vísu verð ég að kvarta yfir þeim undarlega sið sunnanmanna að setja sumt af gumsinu ofaná. Og ekkert var heldur rauðkálið. En umhverfið var stórfenglegt og ekki spillti fyrir þegar ég sá ráðherrabifreið með Geir Haarde innanborðs bruna hjá. Ég veifaði auðvitað en ég sá ekki hvort leiðtoginn mikli veifaði til baka. Heilt yfir alveg stórkostleg matarupplifun sem verður mér ógleymanleg.

Kvörtun!

Hvað á það að þýða hjá bóksölum að klína límmiðum aftan á bækur sem oftar en ekki hylja hinar gagnlegu færslur aftan á bókunum. Þetta er heilt yfir óþolandi. Ég hafði hugsað mér að birta nokkrar umsagnir á bloggi mínu en veit satt að segja ekki hvort það er gjörlegt vegna þessarra skemmdarverka. Maður spyr sig nú hvort verið geti eitthvað samsæri í gangi gegn bloggi mínu?
Ég veit sem er að það er þyrnir í síðu margra af hinum svokölluðu gáfumönnum á vinstri vængnum sem ekki geta þolað að hægrihandarpenni og brekkusnigill nái eyrum þjóðfélagsins með bloggi sínu.

þriðjudagur, 30. desember 2008

Bókadómur yfirvofandi

Þar sem ég hef nú lesið aftan á flestar jólabækurnar í hinum vistlegu bókabúðum borgarinnar, er mér ekkert að vanbúnaði, svona heilt yfir, að birta ritdóma mína, hér á bloggi mínu.
Mun ég því á næstunni setja inn færslur um þetta efni.

Nýtt ár framundan

Ekki er víst að öllum lesendum á bloggi mínu sé ljóst að nú styttist heilt yfir til áramóta.
Þeim fylgir vitaskuld að nýtt ár rennur upp.
Og að gamla árið rennur skeið sitt á enda.
Það verður vissulega spennandi að sjá hvað það nýja ber í skauti sínu.
Ekki verður síður spennandi að heyra hvað boðskap okkar ástsæli forsætisráðherra færir þjóðinni á þessum tímamótum sem framundan eru.

Nema auðvitað

einhverjir þeir atburðir gerist eða gerist ekki, sem kalla á að ég láti fara frá mér nýja færslu á bloggi mínu.

Heilt yfir.

Án þess ég vilji nú vera sjálfhælinn

verð ég að segja, svona heilt yfir að ég minnti mig á Errol Flynn í gerfi Zorró þegar ég mundaði uppþvottabustann áðan. Mátti margur skítakleprinn bíta gras, með kveðju frá brekkusniglinum. Hinsvegar er rétt að greina frá að ég hef nú ákveðið að á bloggi mínu muni framvegis birtast færri færslur, einkum til að gefa lesendum mínum kost á að fullmelta það sem af mér hefur gengið í fyrri færslum.

Maður verður að gera það sem maður verður að gera

Þá er að bíta í skjaldarrendur, brölta á fætur og vaska upp!
Það væri afleitt að láta uppvaskið hlaðast upp of lengi.
Myndi enda með diskleysi, heilt yfir.
Mun blogga um árangurinn við hentugleika.

Að næra andann

Þægilega mettur af grænmetissúpunni góðu ákvað ég að næra andann og auka þekkinguna.
Það gerði ég með því að setjast í hægindastól og láta sjónvarp allra landsmanna færa mér fréttir og fróðleik. Heilt yfir voru fréttir kvöldsins með betra móti, þó hefði eg kosið að fá nánari fregnir af Indlandsferð Bryndísar Oddsdóttur.
Auk þess legg ég til að veðurfréttamenn verði settir á árangurstengd laun.
Þeir fái greitt fyrir góðar spár sem standast en annað ekki!

Gott er að borða gulrótina

Að lokinni vel heppnaðri útiveru, gerði ég mér lítið fyrir og eldaði gómsæta grænmetissúpu.
Það var svo sannarlega ánægjuleg tilbreyting, eftir kjötveislur liðinna hátíðisdaga.
Heilt yfir kann að vera ástæða til að endurskoða matarvenjur um hátíðirnar.
Eða ekki.

Vor í lofti og vindur hlýr

Tók mér pásu áðan og fór út að ganga/skokka í Laugardalnum.
Búinn að vera hauglatur heillengi. Það er fáránlega hlýtt og milt veður.
Við sáum ekki betur en allskyns runnar væru að láta blekkjast af blíðunni.

Þegar ég virði fyrir mér þennan ófrumlega titil og innihaldslausa færsluna,
óttast ég, svona heilt yfir, að ég sé að breytast í stebbafr...

mánudagur, 29. desember 2008

Millihátíðapólitík

Mér finnst með ólíkindum þegar viti borið fólk sér það sem einhverja allsherjarlausn á öllum vanda að hoppa inn í evrópusambandið, ekki seinna en í dag.
Ég er alveg til í að kanna málið, sjá um hvað semst og taka svo afstöðu til þess.
En að segja bara sisvona "Göngum stax í sambandið og allt lagast..."?
Trúir þetta fólk kannski ennþá á jólasveininn?

fimmtudagur, 25. desember 2008

Síðbúin jólakveðja



Búinn að þrífa, elda, borða.
Knúsa þá sem mér þykir vænst um.
Hlæja, tárast, gleðja og gleðjast.

Vona að þið hafið það gott.

Eða ekki, bara eins og þið viljið...

mánudagur, 22. desember 2008

Smíðaði snjókarl í gær


Hann er bráðnaður, en ég er samt glaðari en ég get sagt.

miðvikudagur, 17. desember 2008

Ber er hver að baki nema sér baun eigi.

Stundum er lífið snúið.
Raunveruleikinn læðist að manni og bítur í rassinn.
Það er auðvelt að sogast bara með, það sekkur, það brennur, það ferst...
En ég er alveg ótrúlega heppinn.
Mitt í öllu þessu kreppufári, hrunadansi, harmamyrkri og skammdegi á ég ljós.
Takk ástin mín.

laugardagur, 13. desember 2008

Að æpa með þögninni.

Fórum í bæinn í dag.
Tókum þátt í þöglum mótmælum.
Mér fannst þetta alveg virka.
Sumir gátu samt ekki haldið aftur af sér.
Leiðinlegastir voru nokkrir drukknir og dópaðir vesalingar.
Með svipaðan félagsþroska og smábörnin.
Við borgum ekki! gargaði einn þeirra.
Velti fyrir mér hvða það þýðir hjá svona manni...
Krafa um ókeypis bjór?

mánudagur, 8. desember 2008

Ástin mín er ólíkindatól!

Eins og sést hér.



Ég elska hana út af lífinu og hvíli töskuna mína...

sunnudagur, 7. desember 2008

Fann þetta á moggabloggi.

Einhver AK-72 tók saman.

  • Endurskoðendur sem sáu um að fara yfir ársreikninga og annað hjá bönkunum, eru nú að rannsaka það sem þeir klúðurðu í upphafi. Engin ábyrgð af þeirra hálfu og liggja undir grun um óeðlileg vinnubrögð en samt fengnir í það, að rannsaka viðskiptavini sína sem þeir samþykktu. Hafa ekki verið rannsakaðir enn.
  • Bankamenn sem bera ábyrgð á IceSave, peningamarkaðsjóðum, vafasömum viðskiptaháttum og blekkingum ýmiskonar, sitja enn. Engin rannsókn hefur farið fram á gjörðum þeirra, heldur hafa þeir haft tvo mánuði til gagnaeyðingar.
  • Stjórnendur FME sem áttu að fylgjast með og skoða hvort eitthvað óeðlilegt hafi veirð í gangi, sitja enn þrátt fyrir að hafa brugðist öllum skyldum sínum. Hafa ekki þurft að sýna ábyrgð, heldur fengið aukin völd.
  • Starfsmenn Kaupþings sem stofnuðu ehf. til að færa skuldir vegna hlutabréfakaupa inn í og skella í gjaldþrot með aðstoð bankans, sitja enn. Ekkert gert til að taka á þessu.
  • Stjórn Kaupþings ákvað að fella nður skuldir "ómissandi" starfsmanna, en segjast ekki ætla að gera það eftir fjölmiðlaumfjöllun. Enginn þarf að víkja né sýnt fram á að slíkt verði hvorteð er ekki gert. Orð frá bankamönnum er hreinlega ekki traustsins verð í dag.
  • Formaður VR sem satí stjórn Kaupþings og vann gegn hagsmunum umbjóðenda sinna, situr enn sem fastast í stéttarfélaginu og Lífeyrssjóðnum sem notaður var til að fjárfesta fyrir auðmennina. Enga ábyrgð hefur hann sýnt heldur stendur í því að múta trúnaðarmönnum með jólahlaðborðum.
  • Nýi bankastjóri Glitnis reynist hafa óhreint mjöl í pokanum með verðbréfaviðskipti. Þarf enga ábyrgð að sína, heldur situr sem fastast.
  • Nýja bankastýra Glitnis hefur meiri áhyggjur af því að það fréttist um vafasöm viðskipti bankans heldur en að vinna að heiðarleika og trausti með því að leggja öll spil á borðið, og hefur hafið mannaveiðar innan bankans í leið að "litla Glitnis-manninum". Sá á að sýna ábyrgð, ólíkt stjórnendum bankans.
  • Banakstýra Landsbankans, reynist hafa verið hægri hönd fyrrum bankastjóra og mjög líklega með fulla vitneskju um stöðu bankans og IceSave ásamt því að vera með puttana í vafasömum viðskiptum. Ekki hefur verið neitt rannsakað með þátt hennar og hún situr sem fastast ásamt öðrum stjórnendum.
  • Einn af ábyrgðarmönnunum á bak við IceSave er gerður að yfirmannni innra eftirlits landsbankans og liggur undir grun um að vera að fegra sinn hlut í því þannig. Enga ábyrgð þarf hann að sýna ne´hefur hlutur hans verið rannsakaður.
  • Fyrrum yfirmaður verðbréfasviðs sem er grunaður um að hafa nýtt sér upplýsingar sem hann hafði aðgang að sem ráðgjafi ríkistjórnar í húsnæðismálum, til innherjaviðskipta, situr sem fastast í Landsbankanum og er yfirhagfræðingur.
  • Greiningardeildirnar sem sáu um að ljúga að fólki, eru enn með sömu yfirmenn og skipulögðu þessa fölsku auglýsingastarfsemi bankanna. Enn halda fjölmiðlar áfram að sýna ábyrgðarleysi og spyrja þá einskis, heldur taka orð þeirra sem sannleika.
  • Þingmaður sem sat í stjórn Glitnis Sjóða, situr enn, þrátt fyrir að það hafi verið ýmislegt vafasamt þar. Grunur um að 11 milljörðum hafi verið dælt í Sjóð 9 til að bjarga honum, hefur ekki enn veirð afsannaður.
  • Ráðuneytstjóri sem grunaður er um að hafa nýtt sér upplýsingar, til að losa sig við hlutabréf í Landsbankanum, situr sem fastast og hefur yfirlýst traust ráðherra. Engin rannsókn hefur farið fram á athæfi hans, heldur er slegið skjaldborg í kringum hann.
  • Auðmenn sem hafa skuldsett bankanna og fyritækin svo svaklaega að landið er á leið í þjóðargjaldþrot, fá að kaupa upp bestu bitana úr þrotabúum eigin fyrirtækja og hafa stofnað sjóði til uppkaupa(Fönxi-sjóður Straums er gott dæmi). Engin ábyrgð fellur til þeirra handa né reynt að hindra þennan hrægammahátt ne´eigur frystar eða handtökur farið fram.
  • Seðlabankastjóri gasprar og lætur allskonar rugl út úr sér í viðtölum sem valda titringi á alþjóðavísu og er hugsanelg orsök að þriðji bankinn fór í þrot. Enga ábyrgð hefur viðkomandi þurft að sýna heldur fær að sitja sem fastast ásamt vanhæfri stjórn Seðlabankans, sem hefur tekið stórskaðlegar ákvarðanir á borð við hringl með stýrivaxtahækkanir, lækkaða bindiskylda til handa bönkunum og fleira sem hefur átt sinn þátt í að skapa aðstæður fyrir þetta þjóðargjaldþrot.
  • Hafist er handa á fullu við það að selja Kaupþing í Luxemborg, þrátt fyrir að rauður þráður vafasamra viðskipta auðmanna og bankamanna, peningaþvætti og ýmislegt fleira vafasamt, ligig þar í gegn. Reynr er að koma þessu í hendur fyrrum stjornarformanns Kaupþigns, svo hann geti klárað gagna-eyðingu og hulið slóðina.
  • Glitnir afskrifar skuldir fyrirtkækisins Stím, sem bankinn notaði til að fjárfesta í sér og í FL group til að búa til viðskipti, Ábyrgðarlaust lan og vafasamir viðskiptahættir hafa ekki enn fengið nokkurn mann til að víkja.
  • Fyrrum Samvinnutryggingar, og núverandi Gift, hefur skyndilega farið frá 30 milljörðum í plús í svipað í mínus vegna þess að peningurinn var nýttur til að sýna viðskipti með félög sem stjórnarmenn tengdust eða höfðu tengsl við e.t.v. Enginn þarf að sæta ábyrgð, heldur er bara yppt öxlum af þeim sem misnotuðu féð.
  • Ráðherrar sem virtust hafa haft pata af og vitað um hvert stefndi, sitja sem fastast og vilja ekki víkja. Ábyrgð þeirra felst nefnilega í því að fá launaseðilinn en ekki að víkja til að leyfa hæfari mönnum og ótengdum mistökunum að taka við.
  • Þingmenn sem áttu að veita ráðherrum aðhald, sinna eftirliti og setja lög til varnar því að svona færi, brugðust algjörelega og létu flokksskírteinið og ráðherraræðið vísa sér leið. Enginn þeirra hefur sýnt manndóm og sagt af sér.

Nákvæmlega!

laugardagur, 6. desember 2008

Án titils, því ég er orðlaus yfir okkur fíflunum!

Fór á Austurvöll í dag.
Eins og undanfarna laugardaga.
Varð dapur.
Að meðaltali slakar ræður (arfaslakur vitleysingur og þokkaleg skáldkona).
Skítt með það. Hitt er öllu verra að mæting er versnandi.
Fólk nennir þessu ekki.
Stjórnvöld ætla að komast upp með að þumbast við.
Baráttuandinn endist sem sagt tæpa þrjá mánuði.
Og svo er eins og ekkert hafi gerst.
Drullusokkarnir sem stálu landinu díla og plotta eins og aldrei fyrr.
Stjórnmálatrúðarnir sem áttu að gæta hagsmuna okkar en sváfu á verðinum,
þeir sitja sko sem fastast.
Enginn ber ábyrgð, ekkert er neinum að kenna.
Óbreytt kerfi, engar nýjar lausnir.
Svo verða bara VISAjól og þetta reddast einhvern veginn í febrúar.
Tökum bara þjóðargjaldþrotið á raðgreiðslum.
Svo geta krakkarnir framlengt lánunum.
Dansaðu fíflið þitt dansaðu!
Kusas ci Hjalmari. Vivis en malrici! Mortis en stultigi!

fimmtudagur, 4. desember 2008

Það var sagt mér...

einhvern tíma, að fólk fái þau stjórnvöld sem það verðskuldar.
Ef að það er rétt erum við nú ljóta pakkið.

miðvikudagur, 3. desember 2008

Echelon

Lúkk itt öpp!
Til dæmis hér.