Svaf eins og steinn í alla nótt. Hefði varla vaknað þó moskan og mínarettan hefðu sprungið í loft upp. Vaknaði hress og dreif mig á hátíð. Kom í ljós að umferðin var skárri. Gekk vel að komast á staðinn, kom við og pikkaði upp dana frá vinnunni á leiðinni. Hann er á öðru hóteli og í annari deild og fer heim á miðvikudaginn. Lítið gagn í honum. Fínn náungi samt. Kom í ljós að hátíðin var mest stærðarinnar markaður, með alls konar indverskt handverk. Það voru engir aðrir en öðlingarnir í Shilparamam sem stóðu fyrir Vijay Jawan Mela en eins og allir vita þýðir það All India Handicrafts & Handlooms Expo. Þarna voru á að giska svona tíuþúsund sölubásar, með margvíslegan varning, sem allir áttu sameiginlegt að kaupmennirnir (og konurnar) höfðu mikinn hug á að efna til milliríkjaviðskipta og fannst með fullkomum ólíkindum að við hefðum ekki brennandi áhuga á að fjárfesta í borðstofuhúsgögnum úr kopar, útskornum tréfílum í fullri líkamsstærð og fleiri eigulegum munum. Létu þeir efasemdir sínar hiklaust í ljós og það með að alsendis óvíst væri að annað eins tækifæri ræki aftur á fjörurnar í þessu jarðlífi. Það var samt gaman að spígspora um og skoða, litadýrðin var ótrúleg og varningurinn afar margvíslegur. Það fór nú samt eins og áður, eftir svona þrjá tíma var áreitið bara orðið of mikið og ráð að koma sér heim á hótel. Dembdi mér bara í líkamsræktina, sé það rétt að líkaminn sé musteri, ja þá er ég að verða trúrækinn bara. Svo dundaði ég við að undirbúa morgundaginn og fram eftir næstu viku, fór niður og borðaði, kvöldverðarhlaðborðið gefur morgunmatnum sko ekkert eftir. Það var stór sigur andans yfir efninu að ég fór bara eina ferð. Labbaði svo út eftir matinn og horfði á mannflauminn liðast hjá smástund. Það var einhver trúarhátíð í dag og talsvert af vögnum og kerrum með blómum skreytta guðalíkneskjur á ferðinni. Verð að nefna eitt í sambandi við umferðina, hér fjölmennir fólk á mótorhjólum, ég hef mest séð fimm manna fjölskyldu á sama hjólinu. Oftast er það karlinn sem keyrir, börn eitt eða fleiri á milli og konan svo í hliðarsöðli aftast. Gerir umferðina afar litríka eins og meðfylgjandi sjóndæmi sýnir. Eitt enn, þó ég verði aldrei aftur á ævinni spurður How are you sir? mun ég ekki kvarta yfir því! Starfsfólkið hér á hótelinu er glórulaust kurteist, mér telst svo til að þegar ég kom til baka af markaðnum í dag hafi ég verið spurður einum ellefu sinnum hvernig ég hefði það í dag á leiðinni frá bílnum upp í herbergi.
Kvöldinu að mestu eytt í vinnu og þetta rafpár, fer sáttur að sofa og á amorgun byrjar ný vinnuvika.
Rafmagnshjólið og ég
Fyrir einni viku
1 ummæli:
Fyrirgefðu, vondi ðparturinn af heilanum varð að seigja það: How are you sir? >XP
Vá hvað ég vildi óska að ég gæti hafa verið á þessum markaði! Hann hljómar æðislega :D
- Sóley :)
Skrifa ummæli