sunnudagur, 28. október 2007

Enn af laugardegi..

Það gekk ýmislegt á þennan laugardag hér í Hyderabad.
Þegar ég lak út af rakarastofunni, eftir höfuðnuddið mikla, leiddi bílstjórinn mig yfir götuna eins og lítið barn og lagði mig í aftursætið í bílnum.
Þegar hann spurði svo hvert ég vildi fara næst er ég eiginlega alveg viss um að ég stundi bara:
Á næstu rakarastofu takk.
Eitthvað tók hann nú vitlaust eftir og keyrði mig í staðinn í minjagripaverslun.
Sagði ég minjagripaverslun?
Ég meina sko MINJAGRIPAVERSLUN!
Þegar ég var ungur drengur að alast upp í Kópavoginum, las ég meðal margs annars 1001 nótt.
Margar af týpunum úr þessum ágætu sögum eru minnisstæðar, en þó ekki síst sölumaðurinn slyngi, sem í bókmenntunum seldi gjarnan teppi, lampa, nú eða úlfalda.
Í nútímanum hefur þessi manngerð hins vegar haslað sér völl í minjagripageiranum og þarna hitti ég loksins fyrir mann sem gæti hafa gengið út úr 1000 ára gamalli sögu og beint inn í Bazar Al Hrejbadi án þess að depla auga. Hussein vinur minn er sko vafalaust úlfaldasali í 100 ættliði.
Nú er rétt að taka fram að ég hef ekki betur séð en lítill skortur sé á minjagripum af ýmsu tagi hér í borg. Hefur heldur sýnst, að það vanti kaupendur að góssinu, en eftir að hafa komist í tæri við Hussein sölumann, er ég ekki frá því að hinir fjölmörgu kaupendur séu bara uppteknir heima við að raða haugum af glingri í hillurnar.
Ekki var nú verslunin ógnar stór, en afar vel skipulögð eins og íslenskur fasteignasali mundi orða það. Og það kenndi margra grasa. Margt eigulegra muna, ekki vantaði það. Ég held samt, eftir á að hyggja, að ég hafi þarna orðið fórnarlamb lævíslegs samsæris, fyrst laminn hálf rænulaus og svo teymdur til skransala sem þurfti að losna við fyrningar fyrri áratuga. Ekki var nú samt ágengninni fyrir að fara hjá Hussein vini mínum. Aldrei heyrði ég hann segja svo mikið sem: A verrí spesjal præs for jú mæ frend eða neitt í líkingu við það. En ekki brást, að ef mér varð á að gjóa augum á eitthvað af herlegheitunum, dúkkaði hann upp við olnbogann á mér og útskýrði lágmæltur og hraðmæltur hvílíkt öndvegishráefni, og eiginlega með öllu ófáanlegt, hefði verið notað við gerð þessa grips, sem væri sannkölluð konungsgersemi, enda smíðað af höfuðsnillingi og lykilpersónu í indverskri handverkssögu. Ekki minnst á verð hinsvegar. Ef mér varð á að spyrja hvað eitthvað kostaði, var svarið bara: Á eftir, ræðum það á eftir!
Fyrr en varði var ég svo búinn að tína hálfa búðina niður úr hillum og raða á borð. En nú var farin að renna af mér mesta vönkunin og dómgreindin eitthvað að reyna að ræskja sig, svo ég sagði stopp og hingað og ekki lengra og hættu nú og kannski bara eina slæðu enn og ekki meir ekki meir. En allt kom fyrir ekki. Það var ekki fyrr en ég greindi frá hver væri heimildin á kortinu mínu að Hussein lét sér segjast og bauð mér sæti. Hófust nú samlagningar. Mér var fært te, sterkt með keim af kardimommum (og vafalaust róhypnóli), til að drekka meðan Hussein fyllti hverja síðuna af annarri í stórri stílabók af vörulýsingum og talnadálkum. Aðstoðarmaður hans sló jafnóðum inn fjárhæðirnar á stórgerða reiknivél og hýrnuðu þeir félagar með hverjum slættinum. Að lokum voru þeir þó búnir að slá allt inn sem hægt var að slá og rann nú upp ögurstundin. Skrifuð upphæð á miða og rennt til mín yfir borðið. Jafnvel í gegnum Róhypnólþokuna sá ég að fyrir þessa upphæð mætti kaupa meðalstórt Afríkuríki, eða 18 þingsæti í Dúmunni. upphófust nú athyglisverðar samræður.

Íslenskur viðskiptavinur=í Kaupahéðinn=k

Í: Ertu algerlega snarbilaður maður! Dettur þér í hug að ég borgi þessa þvælu?
k: المجال ومخرجاتها البحوث
í: Mamma þín og úlfaldinn sem hún átti þig með hafa verið náskyld greinilega!
k: الباحث الإداري العربي في عصر
í: já kannski annan bolla takk...
k: وبصيغة جامعات جديدة أو بصيغ
í: (nokkru síðar) Já þetta er fínt vinur og ég skal svo bara giftast móðursystur þinni
k: المجال ومخرجاتها البحوث الإدارية، ومضمون ما ورد ما هو إلا سرد
للمبررات والحجج بضرورة استقبال الدول النامية الاستثمار الأجنبي المباشر
في التعليم العالي وبصيغة جامعات جديدة أو بصيغ التعاون بين لجامعات
الأجنبية مع الجامعات في الدول النامية لغرض تلبية
í: Taktu bara veskið, getur sett restina á hin kortin.
k: المنتشرة عبر العالم النامي

Um þetta bil sofnaði ég, og þegar ég vaknaði lá ég í rúminu á hótelinu mínu, og skeggjuð eldri kona í svörtum kufli var að gramsa í skúffunum. Ég stökk framúr, en datt um haug af innkaupapokum, sem lágu út um allt.
Þegar ég stóð upp var hún horfin, eins og vegabréfið mitt og fleira smálegt.
En það er allt í lagi, ég á nefnilega núna mikið safn indverskra listmuna...
frá Taiwan.

Engin ummæli: