föstudagur, 19. október 2007

Föstudagur og maður einsamall...


Jæja. Þá er Peter farinn heim til Danmerkur. Minn orðinn einsamall. Gekk vel í vinnunni svo sem, en skrítin tilhugsun, að umgangast bara indverja næstu vikurnar. Hef meiri tíma til að horfa í kringum mig og hugsa, einn í bílnum á leið í og úr vinnu. Og þá kemst maður ekki hjá að sjá þessa skelfilegu misskiptingu sem alls staðar blasir við. Hér býr svo margt fólk við aðstæður sem eru ólýsanlegar en inn á milli er ótrúlegur íburður og munaður. Bæði í gær og í dag varð bílstjórinn á leiðinni heim að taka á sig krók, vegna vegavinnu. Krókurinn var að hluta malarslóði í gegnum svæði, þar sem er búið að hrúga upp heilu hverfi af, ja við skulum segja kofum, ef hægt er að kalla bárujárnsstubb, pappa og segldúkspjötlu kofa. Bíllinn silaðist í gegn, stoppaði oft og beið í halarófunni, svo það var ekki hægt annað en sjá. Eitt hrófatildrið var alveg við slóðann og bíllinn stoppaði svo nálægt að ég hefði getað teygt mig í fólkið. Þarna, fyrir framan kofa án framhliðar, sat kona á hækjum sér og var að elda eitthvað. Hún var með ofurlítinn skaftpott og hélt honum yfir nokkrum brennandi sprekum, sem vörpuðu smá skímu inn í kofann. Þar sátu tvo börn, sem hefðu getað verið á aldur við mín. Veit ekki hvort heimilisfólkið var fleira, en heimilið var semsagt kassi, án framhliðar, kannski þrír fermetrar, og svo lágt til lofts að konan gat ekki setið upprétt inni. Aleigan virtist vera rýjurnar sem þau voru klædd í, potturinn, sprekin og það sem í pottinum var. Sá þessa fjölskyldu aftur kvöldið eftir, allt eins, nema það logaði enginn eldur í það skiptið.

Nú ligg ég hérna andvaka, í hreina mjúka rúminu í fína hótelherberginu mínu og ég get ekki hætt að hugsa um þau, og spyrja sjálfan mig, hverskonar heimur er það eiginlega sem ég hef tekið þátt í að skapa?
Og já, ég geri mér alveg grein fyrir að einhvers staðar er fólk sem hefur það enn verra, en ég sá bara einmitt þessa fjölskyldu, og á ekki eftir að gleyma þeim meðan ég lifi.

Engin ummæli: