fimmtudagur, 27. nóvember 2008

Ég er enn að melta borgarafundinn...

Fjallið með jóðsótt og fæðir senn mús.

þriðjudagur, 25. nóvember 2008

Fór á borgarafund...

hann var um margt flottur!
Meira seinna.

laugardagur, 22. nóvember 2008

Af mótmælum, góðuköllum og vonduköllum...

Stundum vildi ég hafa svona hnífskarpa analítíska hugsun.

Vildi  geta greint og formúlerað og sett hlutina svo skýrt fram að allir kveiki á perunni.  
En það þýðir ekki að fást um það.
Hafa skal það sem hendi er næst, svo hér kemur minn túkall, í graut og biðu.

Mér finnast mótmælafundirnir á Austurvelli frábært framtak.
Ég óttast að þeir muni litlu skila, en hef samt mætt alla laugardagana og ætla að halda því áfram. 

Mér finnst Hörður Torfa og aðrir aðstandaendur fundanna eiga mikinn heiður skilinn.
Mér finnst Hörður afleitur fundarstjóri og ég mundi vilja ræða alvarlega við þau sem velja ræðumennina.

Mér finnast sum skiltin sem fólk er með rosalega góð og flott.
Mér finnst pirrandi að  sjá ekki á sviðið fyrir skiltunum. 

Ég er ánægður með að fólk hafi skoðanir og sýni þær.
Mér leiðist fulli gaurinn sem öskrar fyrir aftan mig.
 
Einu sinni bar ég virðingu fyrir Ingibjörgu Sólrúnu og fannst hún öðruvísi pólitíkus..
Það finnst mér ekki lengur.

Mér finnst grátlegt að horfa uppá hvernig liðið sem átti að gæta hagsmuna okkar, hugsar bara um sína eigin hagsmuni. Hangástólnum syndrómið grasserar. 
Svo horfi ég á stjórnarandstöðuna og fyllist nú ekki beint von og trú.

Ég dáist að fólki sem hefur skoðanir og er tilbúið að berjast fyrir þeim.
Mér finnst lítilmannlegt að setja upp grímu og berjast með hana fyrir andlitinu.

Stundum efast ég um að það sé þess virði að standa í þessu.

Þá lít ég á baunina mína og fæ aftur trú á lífið.

miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Um skipulagða glæpastarfsemi - Íslenska banka.

Sko leiðréttið mig endilega ef ég fer með rangt mál.

Fyrir nokkru fóru stóru bankarnir úti í heimi að hafa áhyggjur af hröðum vexti bankanna hér. Einhverjar viðvörunarbjöllur hringdu og einhverstaðar var ákveðið að skrúfa fyrir.
Lánum ykkur ekki yen í viðbót strákar fyrr en þið hafið tekið ykkur saman í andlitinu.
Seðlabankinn krúnk líka og orðinn allt of lítill til að geta fóðrað gauksungann gráðuga.
Þá datt mönnum snjallræði í hug. Í krafti þess að Ísland var þokkalega vel kynnt á alþjóðavettvangi, var sett upp svikamylla. Hún gekk í stuttu máli út á að plata evrópubúa til að leggja peningana sína inn á reikninga hjá Edge, Icesave og hvað þetta hét nú allt. Fólki lofað þvílíku ávöxtuninni! Svona eins og í Nígeríubréfi næstum. Grunsamlega góður díll. En þetta var Ísland, "siðmenntuð" evrópuþjóð.
Svo fólk beit á agnið, unnvörpum.  John og Gertrud, England, Holland, Belgía, barnaspítalar, kvennakórar og lögreglustjórar. Og fleiri og fleiri og fleiri...
Já þetta var kannski of gott til að geta verið satt. En þetta var Ísland. Skandinavía, þjóð sem var "ein af okkur". 
Svo hrundi draslið.
Bólan sprakk.
Það sem þeir sem skrúfuðu fyrir lánin spáðu rættist.
Og hvernig stöndum við núna?
Mannorð okkar sem þjóðar er á pari við Nígeríu.
Við erum að steypa komandi kynslóðum í skuldir.
Ekki til að gera upp við þá sem treystu bönkunum okkar fyrir peningunum sínum.
Ó nei. Það er langur vegur frá því.
Stjórnvöld hér hafa rembst við að komast hjá því að borga svo mikið sem lágmarkstryggingar.
Ekki allar innistæðurnar, því fer fjarri. Lágmarkstryggingu. En urðu á endanum að lúffa.
Það sem uppá vantar er væntanlega tapað fé fyrir þá  sem treystu okkur.
Skúnkarnir sem áttu bankana þvaðra um að eignir þeirra dugi fyrir skuldunum, en þegar maður les smáa letrið eru þeir ekki að tala um allar inneignirnar, heldur þessar lágmarkstryggingar. 
Það getur vel verið að í upphafi hafi einhverjir þeirra ætlað að borga fólki til baka. En þeim mátti vera löngu ljóst að dæmið gengi aldrei upp. Samt héldu þeir áfram.
Á löggumáli heitir það einbeittur brotavilji.
Einu sinni var ég stoltur af að vera íslendingur.
Ekki lengur.


þriðjudagur, 18. nóvember 2008

Greiningardeildir-Minn rass!

Eitt af því sem fer mest í taugarnar á mér um þessar mundir eru hinar svokölluðu greiningadeildir bankanna.
Meðan gróðæðið stóð yfir voru þetta áróðursmaskínur bankanna, en fengu á sig kirkjulegt yfirbragð. Það voru sko fleiri en páfinn og Móðu-Harði óskeikulir!
Á einhvern undarlegan hátt fékk þetta fólk ótrúlega beinan og gagnrýnislausan aðgang í kastljós fjölmiðla til að boða guðspjöllin. Orðfærið fékk meira að segja á sig trúarlegan blæ.
Óþægilegar staðreyndir eins og að blindum og heyrnarlausum simpönsum gekk síst verr en greiningadeildarfólkinu að ávaxta pund sitt var sópað undir teppið. Þetta lið var svo fínt klætt og með svo góð laun að það hlaut að vera marktækt.
Ef einhver asnaðist til að setja fram efasemdir eða gagnrýni var talað niður til viðkomandi með blöndu af vorkunnsemi og yfirlæti þess sem veit betur. Og ráðleggingarnar! Man einhver eftir Decode? Peningamarkaðsreikningum? Kauptækifærum í Stoðum? Það sem fer upp fer svo bara hærra upp... Og ef eitthvað fór nú samt niður stóð ekki á skýringunum. Niður var í rauninni upp, bara á annan hátt. Og meðvirkir blaðamenn dönsuðu með og tóku þátt í gríninu.
Svo sprakk blaðran.
Þá kom í ljós að allt kerfið var grundvallað á tvennu.
Taumlausri græðgi og múgsefjun. Það er hægt að nota skrautyrði á borð við hjarðhegðun og hagnaðarvon. En þegar upp er staðið voru það græðgin og múgsefjunin sem hið hátimbraða kenningakerfi greiningadeildanna byggði á.
Í dag segja svo þessar sömu greiningadeildir enginn gat vitað... Við sögðum allt í góðri trú... Við lugum ekki vísvitandi...
Kjaftæði!
Það er árum saman búið að vara við yfirvofandi hruni.
Greiningadeildirnar voru óspart notaðar til að þagga þær viðvaranir niður.

Fram á seinasta dag var blaðrað um kauptækifæri.
Þjóðahagur minn rass! Hagur bankans minn rass! Bónusinn minn um áramótin - Nú erum við að tala saman!

Það er svo í takt við annað á "Nýja Íslandi" að greiningadeildirnar eru komnar á stúfana aftur.
Greiningardeildartöffarinn í flottu jakkafötunum segir viltu dansa?
Feimna blaðamannastelpan roðnar og stynur á innsoginu ertaðtalavimig?
Alveg búin að gleyma hvað hann gerði við hana hjá öskutunnunum bak við félagsheimilið seinast.
Svo byrjar ballið aftur.

Getur virkilega enginn sagt þessu liði að halda kjafti og skammast sín?

miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Stórmannleg samfylking!

Lausnin er fundin!
Bravó Ingibjörg Sólrún!
Bara búið að leysa kreppuna.
Skera niður þróunaraðstoð og málið er dautt.
Kannski ráð að reka nokkrar ræstingakonur líka.

þriðjudagur, 4. nóvember 2008

Um mótmæli.

Óvinur óvinar míns er ekki endilega vinur minn.

Fólk getur komist að réttum niðurstöðum þó það sé gert á röngum forsendum.
Ég hef óskaplega litla samúð með trukkastjórum sem sitja uppi með offjárfestingar úr góðærinu, meðan framkvæmdaæðið stóð sem hæst og hverra krafa er helst að lækka bensínið.
Ég á líka afar litla samleið með anarkistunum sem vilja enga stjórn (þó ég telji mig alveg skilja hvaðan þau koma) og mér finnast dúkkuhengingar ákaflega ósmekklegar. 
Hyskið úr frjálslynda flokknum  með lævíslegan rasismann sinn fer óskaplega í taugarnar á mér. Samt hef ég mætt á Austurvöll og mótmælt með þessu fólki undanfarna laugardaga.  
Vegna þess að þó ég sé ósammála þessu fólki um flest, er ég sammála þeim um eitt.
Stjórnvöld hér hafa gjörsamlega drullað upp á bak undanfarin ár.
Þau bera ábyrgð og eiga að axla hana. Græðgisbrjálæðingarnir í bönkunum virðast vera að tapa auðæfunum, spilaborgirnar hrynja ein af annarri. Það er bara réttlátt finnst mér. Ég gleðst svo sem ekkert sérstaklega vegna þess, en ég græt það alveg þurrum tárum. Nýjustu fréttir benda til þess að það sé í örvæntingu verið að gera einhverja drulludíla, fella niður skuldir og bjarga þeim úr snörunni sem þeir hengdu sig í, en það virðist vera hreyfing í þá átt að stoppa það.  En græðgisbrjálæðingarnir fóru eins langt og kerfið leyfði þeim. Stjórnvöldin sem áttu að setja reglur, sinna eftirliti og verja almannahagsmuni, brugðust fullkomlega.  Þessi sömu stjórnvöld sem nú segjast ætla að bjarga málunum. 
Þess vegna læt ég mig hafa það að mæta á Austurvöll laugardag eftir laugardag, þramma niður Laugarveginn í trukkapústskýi og krefjast þess með alls konar fólki að þessi stjórnvöld axli ábyrgð.