mánudagur, 4. febrúar 2008

Varúð - hjárænuleg ljóðræna framundan!

Einn af fylgifiskum þess að búa í borg er að á hverjum degi sér maður alls konar myndir.
Ég veit svo sem ekki hvað minniskortið í hausnum á mér er mörg gígabæt, en sumar myndir er ekki hægt að delíta.
Ég sá grænlenska drykkjukonu í haust, hún festist í minninu og varð tilefni þessarar hjárænulegu ljóðrænu:

Grænlensk kona á bekk

Þarna siturðu
með gullölið greipt í lófann

Augun brostin

en þessir stoltu drættir við munninn
segja enn
hleypið mér út á ísinn
og ég mun bjargast

þú ert komin langt frá selum og björnum

situr með úlfum á bekk við Israels plads

þú verkar ekki lengur skinn af kóp
eða gerir fugla úr beinum...

Blndar fimlega í pípu í staðinn
ferð með glerin í genbrug...

Augun dauð

En þarna einhversstaðar á bakvið

lítil grænlensk stúlka
sem segir
hleypið mér aftur út á ísinn
og þá finn ég leiðina heim

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

fallegt en fullt af trega.