sem er einn stærsta hátíð ársins hjá hindúum. Það má segja að Diwali sé jól og áramót í einum pakka. Þetta er hátíð ljóss, velsældar og veraldlegra gæða.
Ef ég væri ekki alinn upp á Stór-Reykjavíkursvæðinu, mundí ég sennilega standa með öndina í hálsinum úti í glugga núna, snúa útúr CNN hérna um árið og segja "The sky over Hyderabad has been illuminated". En í staðinn sit ég bara, blogga, horfi útundan mér út um gluggann, ég er á 7. hæð og hef fínt útsýni. Þessi 6 - 9 milljóna borg (opinbera talan/raunveruleikinn) kemst ekki með tærnar þar sem Reykjavík er með hælana í rakettubransanum. Og, nóta bene ég hef í tvígang verið með indverska gesti á gamlárskvöld í Reykjavík, sem höfðu talað hróðugir um indverskan flugeldakúltúr og stóðu svo gapandi, agndofa og orðlausir úti á lóð frá því eftir kvöldmat og fram yfir miðnætti, meðan 3. heimsstyrjöldin geisaði yfir borginni. Þannig að þetta eru ekki bara mín orð. Ég man líka ein áramótin þegar þýskur flækingur hringdi frá sér numinn heim í mömmu og pabba í Nebelstrudelstadt og gargaði í gemsann sinn "Þið ættuð að sjá þetta! Þetta er klikkun!"
og þau svöruðu "Við erum að horfa! Þetta er í beinni í sjónvarpinu hérna...".
Já það er ekki á okkur logið, Ísland best í heimi!
En aftur að Diwali. Fyrir utan púðurkerlingarnar heyrir til að halda trúarathöfn heima að morgni og fara svo í hofið um kvöldið. Það er gyðja velmegunar og veraldlegra gæða, sem á mest í þessarri fimm daga hátíð, og ótrúlegt kaupæði og sukk sem fylgir henni. Gullverð á Indlandi sveiflast heilmikið upp, vikurnar fyrir Diwali. Á ferð um borgina í gær og í morgun sá ég að á hverju strái voru sprottnar upp sölubúðir og tjöld, þar sem bomburnar voru seldar í kílóavís...
En svo er auðvitað skuggahlið á þessu eins og öðru. Á hverju ári springa ólöglegar flugeldaverksmiðjur í loft upp, verksmiðjur þar sem börn sitja í púður og brennisteinsskýi og búa til bomburnar sem efnaðri borgarar brenna svo. Það er svo siður að víða á gangstéttum, við innganga í byggingar og á fleiri stöðum eru búin til mikil listaverk, úr blómablöðum, lituðum sandi og steinmulningi. Setur skemmtilegan svip, og eitthvað svo fallega trist við þessi forgengilegu listaverk. Er annars að verða spenntur, brottför eftir rétt rúman sólarhring...
Hlakka svo mikið til að hitta börnin mín.
Rafmagnshjólið og ég
Fyrir 2 mánuðum
3 ummæli:
Hlakka líka til að sjá þig pabbi minn :*
Takk fyrir þessa lýsingu. Það verður best í heimi að fá faðmlög frá börnunum þínum eftir ferðalagið. Góða ferð.
Takk Svanfríður!
Það verður sko bara yndislegt!
- HT
Skrifa ummæli