fimmtudagur, 26. mars 2009

Ég fékk hugmynd...


og þar sem það gerist ekki oft ákvað ég að blogga um hana.
Í hlaupatúr dagsins átti ég leið framhjá Fríkirkjuvegi 11 og þá fór ég að hugsa.
Það styttist væntanlega í að ríkið eignist húsið, þegar restin af spilaborginni hrynur hjá Bjögganum. En hvað á að gera við það?
Ég er með tillögu.
Rétt eins og til er safn um helförina í Ísrael og minnismerkið í Washington um Vietnamstríðið væri upplagt að gera úr þessu húsi safn um hrunadans útrásarvíkinganna og bankaglæpamannanna, vanhæfu og ráðalausu stjórnmálamennina og embættismennina, risið og fallið.
Það mætti blanda myndum af óhófinu og klikkuninni saman við myndir af tómum hálfbyggðum húsum, atvinnuleysingum í biðröð hjá Vinnumálastofnun og öðrum afleiðingum sturlunarinnar.
Svo gæti verið sér salur fyrir bankabrjálæðið. Myndir af Sigurjóni digra, Sigurði Einars og hinum þjófunum, lýsingar á mikilmennskuórunum og spilaborgunum. Þar væri líka minningarveggur með nöfnum þeirra sem áttu peninga á Icesave reikningunum og hversu miklu var stolið af þeim.
Möguleikarnir eru endalausir. Faratækjaherbergið, fullt af myndum af einkaþotum, snekkjum og lúxusbílum, umfjöllun um Gumball montkappaksturinn og umferðina á Reykjavíkurflugvelli. Sér kompa fyrir helstu aftaníossana, sem ritstýrðu viðskiptablöðum, og störfuðu í greiningadeildunum, svona "Göbbels-room", með glórulausum tilvitnunum fallega innrömmuðum á veggjunum, upplagt að hafa líka vídeó á skjá, Hannes að þrugla um dautt fé og ég veit ekki hvað. Salur fórnarlambanna væri líka ómissandi, nöfn og myndir af fólki, sem missti aleiguna, listar yfir nauðungarsölur og atvinnuleysistölur.
Salur stjórnvalda með margmiðlunarefni og völdum viðtalsbrotum: Hér er engin kreppa... Það hefði nú eitthvað heyrst ef við hefðum gert eitthvað í málunum... Hér er allt í allra besta lagi...
Þarna væri hægt að taka á móti skólahópum, fræða þau um græðgi og afleiðingar hennar, hvernig besta fólk gat blindast og sturlast í eftirsókn eftir veraldlegum gæðum og sagði svo þegar æðið rann af því, ég var bara að fylgja fyrirmælum...
Ég er viss um að svona safn drægi til sín mikinn fjölda gesta.
Og ég er ekki frá því að það myndi líka minnka hættuna á að þessi geðveiki taki sig aftur upp...

2 ummæli:

Harpa Jónsdóttir sagði...

Snilld!

Nafnlaus sagði...

Nei, þetta er ekki snilld, húsið er hreinlega allt of fallegt til þess arna. Svona safn á heima neðanjarðar, því þar þrífst græðgin. Hún er að vísu komin upp á yfirborðið og henni má ekki gleyma. Trúi því ennþá að betra samfélag rísi úr öskustónni. Kær kveðja í kotið. Gulla Hestnes.