fimmtudagur, 1. nóvember 2007

Feðraveldið fer í bíó

Indverjar búa til bíómyndir.

Í stórum stíl.

Afar stórum!
Bíóbransinn hér er svo stór að þeim nægir ekki eitt Hollywood, heldur hafa þeir tvö.
Bollywood og Tollywood.
Mér er ekki
að fullu ljós munurinn, en hann mun að nokkru leiti trúar- og menningarlegur, landfræðilegur og jafnvel smekklegur. Eitthvað með að Bollywood er Hindí, en Tollywood tamíl eða eitthvað. Eitt er þó á hreinu. Þörf indverja fyrir lífsflótta og fantasíur er gríðarleg. Og hvað er þá betra en stíga út úr rykugum og skítugum hversdagsleikanum inn í undraveröld kvikmyndanna þar sem allt getur gerst.
Obbobobb stoppa hér!
Allt getur gerst?
Ónei, indverskar bíómyndir lúta sko lögmálum. Það má nú ekki hleypa einhverri vitleysu upp á dekk! Það gæti jafnvel ógnað sjálfri samfélagsgerðinni. Ekki aldeilis! Svo hin steinrunna hönd feðraveldisins læsti sig um kverkar handritshöfundaveldisins og leikstjóraveldisins og þegar þau veldi voru orðin blá af súrefnisskorti, voru settar reglur og eftir þeim er síðan farið.

Hér koma reglurnar:

  1. Efnisþráður myndar skal innihalda eftirfarandi ferli:

Strákur kynnist stelpu

Strákur kemur undir sig fótum með hæfileikum eða dugnaði

Strákur fær stelpu sökum verðleika sinna og mannkosta

Strákur lætur velgengnina stíga sér til höfuðs

Strákur ofmetnast og missir allt og næstum stelpuna

Stákur sér villu síns vegar og allt fellur í ljúfa löð

Strákur og stelpa leiðast inn í sólarlagið

  1. Leikkkonan sem leikur stelpuna skal vera svakalega sæt og ung.
  2. Leikarinn sem leikur strákinn skal vera á aldur við föður hennar (hið minnsta).
  3. Persónur myndarinnar skulu bresta í söng og dans af minnsta tilefni.
  4. Þegar strákur hittir stelpu fyrst, er skylda að hafa dans og söngatriði með börnum.
  5. Í myndinni skal heilbrigðum og hefðbundnum fjölskyldugildum haldið á lofti.
  6. Lágmarkslengd kvikmyndar eru þrír og hálfur tími.

Sjálfsagt eru reglurnar mikið fleiri, en þar sem ég leitast alltaf við að skilja hismið frá kjarnanum sleppi ég þeim.

Þetta eru aðalatriðin og með þessu regluverki hefur feðraveldið tryggt, um sinn að minnsta kosti, að enginn ruggi bátnum. Fólk sætti sig við hlutskipti sitt stöðu og stétt, ekkert bannstt múður takk.

Því kvikmyndirnar eru auðvitað hið nýja ópíum fólksins, svæfa alla gagnrýna hugsun og breytingavilja, ef reglunum er bara fylgt í hvívetna...

Engin ummæli: