fimmtudagur, 29. nóvember 2007

Til hamingju með daginn elsku dóttir mín.

Elsku Sóley!

Í dag verð ég ekki hjá þér á afmælinu þínu í fyrsta sinn.
Það er svolítið sárt og skrítið.
Ég gleymi aldrei þessu augnabliki fyrir 14 árum, þegar ég stóð með þig í fanginu, nýbúinn að klippa á naflastrenginn, gjörsamlega að rifna úr stolti og gleði, svo uppnuminn að ég gleymdi að gá hvors kyns barnið væri.
Það sprungu sólkerfi í höfðinu á mér og allt annað í heiminum varð að aukaatriði á þessu augnabliki.

Allar götur síðan hef ég reynt að vera þér eins góður faðir og ég hef mögulega getað. Það hefur svo sem gengið misvel. Stundum hafa aðrir hlutir í lífinu fengið forgang, vinna og annað veraldlegt brölt,
Ég hef samt aldrei, ekki eina sekúndu, hætt að elska þig meira en lífið sjálft.
Og þó við höfum rifist og skammast eins og hundur og köttur einstöku sinnum, hef ég aldrei iðrast þess að eignast þig!
Gæti ekki hugsað mér betri dóttur!

Óska þér alls góðs í dag og alla daga, elsku barnið mitt.

föstudagur, 9. nóvember 2007

Í dag er fyrsti dagur Diwali...

sem er einn stærsta hátíð ársins hjá hindúum. Það má segja að Diwali sé jól og áramót í einum pakka. Þetta er hátíð ljóss, velsældar og veraldlegra gæða.
Ef ég væri ekki alinn upp á Stór-Reykjavíkursvæðinu, mundí ég sennilega standa með öndina í hálsinum úti í glugga núna, snúa útúr CNN hérna um árið og segja "The sky over Hyderabad has been illuminated". En í staðinn sit ég bara, blogga, horfi útundan mér út um gluggann, ég er á 7. hæð og hef fínt útsýni. Þessi 6 - 9 milljóna borg (opinbera talan/raunveruleikinn) kemst ekki með tærnar þar sem Reykjavík er með hælana í rakettubransanum. Og, nóta bene ég hef í tvígang verið með indverska gesti á gamlárskvöld í Reykjavík, sem höfðu talað hróðugir um indverskan flugeldakúltúr og stóðu svo gapandi, agndofa og orðlausir úti á lóð frá því eftir kvöldmat og fram yfir miðnætti, meðan 3. heimsstyrjöldin geisaði yfir borginni. Þannig að þetta eru ekki bara mín orð. Ég man líka ein áramótin þegar þýskur flækingur hringdi frá sér numinn heim í mömmu og pabba í Nebelstrudelstadt og gargaði í gemsann sinn "Þið ættuð að sjá þetta! Þetta er klikkun!"
og þau svöruðu "Við erum að horfa! Þetta er í beinni í sjónvarpinu hérna...".
Já það er ekki á okkur logið, Ísland best í heimi!
En aftur að Diwali. Fyrir utan púðurkerlingarnar heyrir til að halda trúarathöfn heima að morgni og fara svo í hofið um kvöldið. Það er gyðja velmegunar og veraldlegra gæða, sem á mest í þessarri fimm daga hátíð, og ótrúlegt kaupæði og sukk sem fylgir henni. Gullverð á Indlandi sveiflast heilmikið upp, vikurnar fyrir Diwali. Á ferð um borgina í gær og í morgun sá ég að á hverju strái voru sprottnar upp sölubúðir og tjöld, þar sem bomburnar voru seldar í kílóavís...
En svo er auðvitað skuggahlið á þessu eins og öðru. Á hverju ári springa ólöglegar flugeldaverksmiðjur í loft upp, verksmiðjur þar sem börn sitja í púður og brennisteinsskýi og búa til bomburnar sem efnaðri borgarar brenna svo. Það er svo siður að víða á gangstéttum, við innganga í byggingar og á fleiri stöðum eru búin til mikil listaverk, úr blómablöðum, lituðum sandi og steinmulningi. Setur skemmtilegan svip, og eitthvað svo fallega trist við þessi forgengilegu listaverk. Er annars að verða spenntur, brottför eftir rétt rúman sólarhring...
Hlakka svo mikið til að hitta börnin mín.

þriðjudagur, 6. nóvember 2007

Sé fyrir endann...

á þessari Indlandsveru og finnst það ekki slæmt.
Er farinn að hugsa mikið heim, hvert sem það nú er og hvar sem það verður.
En Indland á eftir að hafa á mig áhrif, svo lengi sem ég lifi...
Veit ekki hvernig ég get lýst upplifuninni.
Kannski einna líkast og að bíta í ávöxt sem leit svo vel út í skálinni
og finna að hann er orðinn allt of þroskaður, saman við sætt, klígjulegt bragðið, blandast einhver keimur af rotnun og dauða...
Þessar brjálæðislegu andstæður, annars vegar ótrúlegt óhóf.
Og svo nakin eymdin inn á milli, og allir eru bara blindir, yppa í mesta lagi öxlum...
Reddast í næsta lífi...
Og á meðan skemma gamlar konur á sér bakið,
svo við velmegunarfólkið komumst ótrufluð leiðar okkar...

föstudagur, 2. nóvember 2007

Í tilefni helgarinnar

Svona er alvöru Bollywood músík!

Leynir á sér. Lúmskt grípandi melódía. Sæt leikkona, frekar lummó gaur.

Og sporin maður! Sporin!

fimmtudagur, 1. nóvember 2007

Feðraveldið fer í bíó

Indverjar búa til bíómyndir.

Í stórum stíl.

Afar stórum!
Bíóbransinn hér er svo stór að þeim nægir ekki eitt Hollywood, heldur hafa þeir tvö.
Bollywood og Tollywood.
Mér er ekki
að fullu ljós munurinn, en hann mun að nokkru leiti trúar- og menningarlegur, landfræðilegur og jafnvel smekklegur. Eitthvað með að Bollywood er Hindí, en Tollywood tamíl eða eitthvað. Eitt er þó á hreinu. Þörf indverja fyrir lífsflótta og fantasíur er gríðarleg. Og hvað er þá betra en stíga út úr rykugum og skítugum hversdagsleikanum inn í undraveröld kvikmyndanna þar sem allt getur gerst.
Obbobobb stoppa hér!
Allt getur gerst?
Ónei, indverskar bíómyndir lúta sko lögmálum. Það má nú ekki hleypa einhverri vitleysu upp á dekk! Það gæti jafnvel ógnað sjálfri samfélagsgerðinni. Ekki aldeilis! Svo hin steinrunna hönd feðraveldisins læsti sig um kverkar handritshöfundaveldisins og leikstjóraveldisins og þegar þau veldi voru orðin blá af súrefnisskorti, voru settar reglur og eftir þeim er síðan farið.

Hér koma reglurnar:

  1. Efnisþráður myndar skal innihalda eftirfarandi ferli:

Strákur kynnist stelpu

Strákur kemur undir sig fótum með hæfileikum eða dugnaði

Strákur fær stelpu sökum verðleika sinna og mannkosta

Strákur lætur velgengnina stíga sér til höfuðs

Strákur ofmetnast og missir allt og næstum stelpuna

Stákur sér villu síns vegar og allt fellur í ljúfa löð

Strákur og stelpa leiðast inn í sólarlagið

  1. Leikkkonan sem leikur stelpuna skal vera svakalega sæt og ung.
  2. Leikarinn sem leikur strákinn skal vera á aldur við föður hennar (hið minnsta).
  3. Persónur myndarinnar skulu bresta í söng og dans af minnsta tilefni.
  4. Þegar strákur hittir stelpu fyrst, er skylda að hafa dans og söngatriði með börnum.
  5. Í myndinni skal heilbrigðum og hefðbundnum fjölskyldugildum haldið á lofti.
  6. Lágmarkslengd kvikmyndar eru þrír og hálfur tími.

Sjálfsagt eru reglurnar mikið fleiri, en þar sem ég leitast alltaf við að skilja hismið frá kjarnanum sleppi ég þeim.

Þetta eru aðalatriðin og með þessu regluverki hefur feðraveldið tryggt, um sinn að minnsta kosti, að enginn ruggi bátnum. Fólk sætti sig við hlutskipti sitt stöðu og stétt, ekkert bannstt múður takk.

Því kvikmyndirnar eru auðvitað hið nýja ópíum fólksins, svæfa alla gagnrýna hugsun og breytingavilja, ef reglunum er bara fylgt í hvívetna...