sunnudagur, 30. ágúst 2009

Í augnablikinu getur verið slökkt á Neyðarlínunni...


Ég hef stundum séð í bíó þegar kúklúxklanarar og annað illþýði brennir krossa fyrir utan heimili þeirrra sem þeim mislíkar við. Í nótt, svona um það bil þegar við vorum að festa svefn barst bjarmi á glugga sem minnti einna helst á svona krossbrennu. Í ljós kom að kveikt hafði verið í auglýsingaskilti einu myndarlegu sem hér stóð álengdar. Mér vitanlega hafði þetta skilti ekkert til saka unnið annað en að bera á annarri hliðinni borgarkort fyrir ferðamenn sem oft er nú gnótt af hér um slóðir, og misfallegar auglýsingar á hinni hliðinni. Þetta var myndarlegasta eldsúla og ljóst að í skiltinu var meiri eldsmatur en ég hefði ætlað. Nú, eða brennuvargarnir betur búnir. Á tímabili virtist eldurinn geta teygt sig í nálægan trjálund, svo ég brá á það ráð að hringja í Neyðarlínuna og óska eftir nærveru slökkviliðsins. Og þá kom að því sem varð kveikja þessa pistils. Það svaraði ekki hjá Neyðarlínunni! Ekki svo mikið sem "Þú hefur nú náð sambandi við Neyðarlínuna, símtöl verða afgreidd í réttri röð...". Það var ekki fyrr en í fjórðu tilraun, eftir að hringt hafði út í tvígang að einhver mátti vera að því að svara hjá 112. Maður hefð getað steindrepist þokkalega á meðan...

3 ummæli:

baun sagði...

ætli þeir geti ekki mannað símana hjá NL, t.d. ef starfsmaður á plani þarf á klósett? þá ættu þeir kannski að láta starfsfólkið hafa farsíma.

Nafnlaus sagði...

þetta er nú kannski með verri stöðum til að skera niður...

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Jahérna,ég segi það með Hildigunni,ekki er 112 besti staðurinn til þess að vera undirmannaður.