laugardagur, 28. febrúar 2009

Og grasrótin sem leit svo vel út fyrir fáeinum vikum...

gulnar óðfluga, breytist í líflausa sinu og drepst. Kannski erum við bara svona ófullkomin dýrategund eftir allt saman.
Gömlu flokkssláttuvélarnar rúlla áfram, smá kinnalitur hér og augnskuggi þar, verstu slúbbertunum ýtt út (nema Árna Johnsen sem ekkert haggar) það er veggfóðrað yfir sprungurnar og látið eins og ekkert hafi í skorist. Hvarflar helst að manni að nýjir valdhafar ætli sér að sanna að það sé sami rassinn undir þeim öllum.
Fólk er alveg ótrúlega fljótt að gleyma...

Í öðrum fréttum er það helst að ég elska baunina mína meira en ég get sagt. Ekki síst þegar hún er lasin.

fimmtudagur, 26. febrúar 2009

Ástin mín

Stundum þegar ég ligg í myrkrinu
og hlusta á andardráttinn þinn fer ég að hugsa.
Um lífið áður en ég kynntist þér.
Stundirnar sem við höfum átt saman
og alla dagana sem ég þrái að eiga með þér
meðan bærist líf í brjósti.
Og hver andardráttur þinn
verður mér svo óendanlega mikilvægur.
Þá finn ég svo sterkt að þú ert mér alls virði
og hvað ég elska þig heitt.

þriðjudagur, 24. febrúar 2009

Einhvern tíma heyrði ég eða las...

The world will not end with a bang, it will go out with a whimper.
Ég var að horfa á eitthvað svoleiðis í beinni útsendingu.

Democracy is coming...

Yeah, right!

sunnudagur, 22. febrúar 2009

fimmtudagur, 19. febrúar 2009

miðvikudagur, 18. febrúar 2009

let it be

Segir sig sjálft...

mánudagur, 16. febrúar 2009

föstudagur, 13. febrúar 2009

Að marggefnu tilefni vil ég taka fram...

að ég gef ekki kost á mér á lista Framsóknarmanna.
Hvorki fyrir kosningarnar í vor né nokkrar aðrar kosningar.
Fyrr þrifi ég ferðakamra á útihátíðum!

þriðjudagur, 10. febrúar 2009

Mikið ofboðslega er ég orðinn þreyttur...

á þessari skotgrafarhernaðartaktík sem engan enda virðist ætla að taka.
Í stað þess að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna og axla ábyrgð, kasta þeir skít.
Það var allt hinum að kenna.
Við réðum kannski, en það var samt allt hinum að kenna
Menn éta upp sömu þvæluna aftur og aftur.
Hversu oft sem hún er hrakin.
Skiptir ekki máli. Lygin er bara endurtekin.

Hér eru tvö dæmi.

Um þriggja ára skeið amk hafa sjálfstæðismenn tönnlast á að Samfylkingin og Baugur séu þvílíka kærustuparið. Nefna ósjaldan Borgarnesræðu ISG máli sínu til stuðnings. Hafa augljóslega aldrei lesið hana, en éta bullið hver upp eftir öðrum. Þó ég sé ekki sérstakur aðdáandi ISG lét ég mig hafa það að lesa þessa blessuðu ræðu. Það "svæsnasta" sem ég fann í henni var þetta:

“Í efnahags- og atvinnumálum hljótum við líka að leiða til öndvegis leikreglur hins frjálslynda lýðræðis. Okkur kemur ekkert við hvað þeir heita sem stjórna fyrirtækjum landsins eða hvaða flokki þeir fylgja að málum. Gamlir peningar eru ekkert betri en nýir. Ef ketti er ætlað að veiða mýs þá má einu gilda hvort hann er svartur eða hvítur – svo lengi sem hann gegnir sínu hlutverki. Í atvinnu- og efnahagslífinu eru það umferðarreglurnar sem gilda og þær eiga að vera skynsamlegar og í þágu alls almennings. Stjórnmálamennirnir bera ábyrgð á leikreglunum en leikendur bera ábyrgð á því að fara eftir þeim. Það má leiða að því rök að afskiptasemi stjórnmálamanna af fyrirtækum landsins sé ein aðalmeinsemd íslensks efnahags- og atvinnulífs. Þannig má segja að það sé orðstír fyrirtækja jafnskaðlegt að lenda undir verndarvæng Davíðs Oddssonar eins og það er að verða að skotspæni hans. Ég vil þannig leyfa mér að halda því fram að það hafi skaðað faglega umfjöllun um Íslenska erfðagreiningu, bæði hérlendis og erlendis, að sú skoðun er útbreidd að fyrirtækið njóti sérstaks dálætis hjá forsætisráðherranum. Það vekur upp umræðu og tortryggni um að gagnagrunnur fyrirtækisins og ríkisábyrgðin byggist á málefnalegum og faglegum forsendum en ekki flokkspólitískum. Sama má segja um Baug, Norðurljós og Kaupþing. Byggist gagnrýni og eftir atvikum rannsókn á þessum fyrirtækjum á málefnalegum og faglegum forsendum eða flokkspólitískum? Ertu í liði forsætisráðherrans eða ekki – þarna er efinn og hann verður ekki upprættur nema hinum pólitísku afskiptum linni og hinar almennu gegnsæju leikreglur lýðræðisins taki við. Þetta er verkefni Samfylkingarinnar. Samfylkingin á að vera óháð öllum helstu eignahópunum í samfélaginu, hún á að gæta almannahagsmuna, ekki sérhagsmuna.

Í fjármálum, fyrirtækjarekstri, fjölmiðlum og sveitarstjórnarmálum á Íslandi er ennþá spurt: Í hvaða liði ertu? Ertu í náðinni hjá stjórnarráðinu eða ekki? Þessu verður að linna, við verðum að losna við hina sjálfmiðuðu, stjórnlyndu valdsmenn. Við verðum að endurvekja traust almennings á stofnanir samfélagsins með nýjum leikreglum, nýju inntaki, nýrri ímynd. Þetta er hlutverk Samfylkingarinnar.“

Verð nú að segja að mér finnst þetta ekki mjög krassandi, og sé ekki með nokkru móti þá eldheitu ástarjátningu til Baugs sem Doddson og félagar lásu úr þessu.
Það sem mér finnst hinsvegar blasa við, eru vænisýkisleg viðbrögð Davíðs og félaga: þeir sem eru með röfl, hljóti að tilheyra "hinu liðinu" það eru bara tveir litir í boði, snjóhvítt og biksvart og ekkert þar á milli. Og foringinn hefur alltaf rétt fyrir sér, líka þegar honum skjátlast.

Annar kapítuli er forsetanefnan.
Sá vindbelgur virðist reyndar óvenju illa haldinn af "foot in mouth disease" um þessar mundir.
En þessi endalausi söngur um klappstjórn hans við útrásina er bara hlægilegur.
Það hefur nánast frá upphafi embættisins verið litið svo á að eitt meginhlutverk forseta Íslands
sé að vera menningarlegur og viðskiptalegur sendiherra okkar. Grísinn var einfaldlega bara að vinna vinnuna sína. Það sem gerir sönginn um forsetaklappstýruna samt virkilega hallærislegan er að hann kemur frá stuðningsmönnnum flokksins sem hér réð ríkjum um 18 ára skeið, flokksins sem skapaði jarðveginn fyrir brjálæðið, flokksins sem afnam reglurnar, flokksins sem gaf vildarvinum sínum fiskinn í sjónum og bankana í landinu. Flokksins sem þangað til fyrir skemmstu þakkaði sér og engum öðrum en sér afrek útrásarvíkinganna.
Ekki það?
Hvað með þetta þá?



mánudagur, 9. febrúar 2009

Hmmm, reyni aftur...



Svínvirkaði síðast.

mánudagur, 2. febrúar 2009

Ég man að...



þegar ég var strákur var sungið í vissum kreðsum (með dreymandi augnaráði):

Morgunblaðið brunnið er
við bálið þar var gaman
kommúnistar komu hér
og kveiktu í öllu saman

Birnir Bjarnasynir heimsins höfðu fyrir satt að þetta væri alveg planið og biðu bara eftir að kommaskríllinn kæmi æðandi með kyndlana.

Mér finnst alveg dásamlega kaldhæðnislegt ef mogginn drepst svo á endanum úr græðgi og kapítalisma.

sunnudagur, 1. febrúar 2009

Jæja...

þá er Framsóknarflokkurinn aftur kominn til valda.
Einhvern veginn fyllist ég ekki bjartsýni við tíðindi dagsins.